Skip to main content

Doktorsvörn í hagfræði - Kristín Helga Birgisdóttir

Doktorsvörn í hagfræði - Kristín Helga Birgisdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
17. maí 2019 14:00 til 17:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Allir velkomnir

Föstudaginn 17. maí ver Kristín Helga Birgisdóttir doktorsritgerð sína við Hagfræðideild á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið Hagsveiflur og heilsa: Áhrif íslenska efnahagshrunsins 2008 á heilsu (e. Business cycles and health: Health responses to the 2008 economic collapse in Iceland). Vörnin fer fram á ensku í Hátíðarsal Háskóla Íslands kl. 14:00 og er öllum opin.

Andmælendur: Dr. Dhaval Dave, prófessor við Bentley University, Bandaríkjunum og dr. Mikael Svensson, prófessor við Göteborgs Universitet, Svíþjóð.

Leiðbeinandi: Dr. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Hagfræðideild Háskóla Íslands.

Einnig í doktorsnefnd: Dr. Christopher Ruhm, prófessor við University of Virginia, Bandaríkjunum, dr. Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands og dr. Arna Hauksdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.

Doktorsvörn stýrir: Birgir Þór Runólfsson, varadeildarforseti Hagfræðideildar.

Ágrip

Almennar efnahagssveiflur og einstakir efnahagsatburðir geta haft áhrif á heilsu og dánartíðni. Einnig getur breytilegur vöxtur þjóðarframleiðslu innan hagsveiflu leitt af sér breytingar á heilsu þjóðar í gegnum ýmsa þætti, s.s. vinnustaðaslys, umferðarslys og loftmengun. Umskipti í hagkerfinu geta jafnframt haft áhrif á heilsuhegðun einstaklinga vegna breytinga á frítíma og tekjum þeirra sem leiða til breyttra hvata. Í tilfelli efnahagshruns, eins og þess sem átti sér stað á Íslandi árið 2008 og efnahagskreppunnar sem á eftir fylgdi, geta neyslumynstur og tímanotkun einstaklinga breyst vegna atvinnuleysis og/eða færri vinnustunda, þar sem aukinn frítími er nýttur í frístundaiðju, svefn og líkamsrækt.

Þrjár vísindagreinar liggja til grundvallar doktorsritgerðarinnar. Í verkefninu eru almenn áhrif efnahagssveiflna á lýðheilsu rannsökuð, sem og sérstök áhrif efnahagshrunsins 2008 á hjartaheilsu. Niðurstöður verkefnisins benda ekki til þess að almennt samband ríki á milli almennra hagsveiflna og lýðheilsu á Íslandi. Hins vegar benda niðurstöður til þess að þær skörpu efnahagsbreytingar sem áttu sér stað árið 2008 hafi haft áhrif til aukningar á líkur á háþrýstingi og blóðþurrðar­hjartasjúkdóms­tilfellum hjá bæði körlum og konum. Niðurstöðurnar benda einnig til neikvæðra áhrifa almennrar hagsveiflu á líkurnar á blóðþurrðarhjartasjúkdómstilfelli fyrir bæði kyn. Því er ljóst að almenn hagsveifla annars vegar og efnahagshrunið 2008 og efnahagskreppan sem á eftir fylgdu hins vegar má hugsa sér sem aðskilin fyrirbrigði með ólík áhrif á blóðþurrðar­hjartasjúkdóma.

Um doktorsefnið

Kristín Helga Birgisdóttir er fædd árið 1983. Hún lauk stúdentsprófi af hagfræðibraut frá Verzlunarskóla Íslands 2003. Hún stundaði nám í Hagfræði við Háskóla Íslands 2004-2007 og útskrifaðist þaðan með B.Sc.-gráðu í hagfræði. Þá starfaði hún við fjármál og fjármálastjórnun í 5 ár og lauk M.Sc. gráðu í heilsuhagfræði frá Háskóla Íslands árið 2013. Hún hóf doktorsnám við Hagfræðideild HÍ haustið 2013. Eiginmaður hennar er Sæmundur Karl Finnbogason, viðskiptafræðingur og börn þeirra eru Katla Margrét og Kolbrún Vala.

 

Föstudaginn 17. maí ver Kristín Helga Birgisdóttir doktorsritgerð sína við Hagfræðideild á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið Hagsveiflur og heilsa: Áhrif íslenska efnahagshrunsins 2008 á heilsu (e. Business cycles and health: Health responses to the 2008 economic collapse in Iceland). Vörnin fer fram á ensku í Hátíðarsal Háskóla Íslands kl. 14:00 og er öllum opin.

Doktorsvörn við Hagfræðideild