Skip to main content

Doktorsvörn í fötlunarfræði - Jóna Guðbjörg Ingólfsdóttir.

Doktorsvörn í fötlunarfræði - Jóna Guðbjörg Ingólfsdóttir. - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
1. september 2023 14:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 1. september 2023 fer fram doktorsvörn við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Þá ver Jóna Guðbjörg Ingólfsdóttir ritgerð sína í fötlunarfræði, Stuðningur við fötluð börn og fjölskyldur á Íslandi: Kenningar og framkvæmd (Disabled Children, Families and Services in Iceland: Bridging the Gap Between Theory and Practice). Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands kl. 14:00 og er öllum opin.

Andmælendur við vörnina verða dr. Anne Edwards prófessor emerita við University of Oxford og dr. Hermína Gunnþórsdóttir prófessor við Háskólann á Akureyri.

Aðalleiðbeinandi verkefnisins er dr. Rannveig Traustadóttir prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands og forstöðumaður Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum. Auk Rannveigar sátu í doktorsnefnd dr. Snæfríður Þóra Egilson prófessor við Háskóla Íslands og dr. Dan Goodley prófessor við University of Sheffield.

Vörninni stýrir Hanna Björg Sigurjónsdóttir, formaður námsbrautar í fötlunarfræði.

Um verkefnið

Doktorsverkefnið byggir á eigindlegri rannsókn sem unnin var í þremur ólíkum sveitarfélögum á Íslandi og var viðfangsefnið opinber stuðningur við ung fötluð börn og fjölskyldur þeirra. Markmið rannsóknarinnar var að öðlast skilning á misræminu milli opinberrar stefnu velferðarkerfisinns og reynslu fjölskyldna ungra fatlaðra barna af þjónustunni. Megináhersla var lögð á sjónarhorn og óskir foreldra en einnig var rýnt í hlutverk, viðhorf og starfsumhverfi fagaðila sem börnin og foreldrarnir eru í daglegum samskiptum við.

Niðurstöður leiddu í ljós samhljóm um hvað virkaði vel og hvað þyrfti að bæta. Foreldrarnir voru almennt ánægðir með leikskólagöngu barna sinna en töldu þjónustuna sem veitt var utan leikskólans óaðgengilega, sundurlausa og oft ósveigjanlega. Þá bentu niðurstöðurnar til að fyrirkomulag þjónustunnar stjórnaðist oftast af þröngri einstaklingsmiðaðri sýn á fötlun, stífum starfsramma fagfólks, biðlistum og að ýmis hagnýt eða pólitísk sjónarmið innan stjórnsýslunnar réðu för fremur en yfirlýst velferðarstefna eða lögbundin menntastefna.

Með hliðsjón af niðurstöðum rannsóknarinnar og fræðilegum grunni hennar eru settar fram tillögur um hvernig brúa megi betur bilið á milli fræða og framkvæmdar til að ná fram nauðsynlegum umbótum. Rannsóknin er fræðilegt og hagnýtt innlegg í yfirstandandi umræðu um gildi og framkvæmd samþættrar þjónustu í þágu farsældar barna. Þá er bent á mikilvægi og ábyrgð menntastofnana fagfólks í þeirri mikilvægu umbreytingu sem þarf að eiga sér stað.

Um doktorsefnið

Jóna Guðbjörg er fædd á Akureyri 1954. Hún lauk  prófi frá Þroskaþjálfaskóla Íslands 1980, diplóma í sérkennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands 1993 og M.Ed. gráðu í uppeldis og kennslufræði frá sama skóla 1998. Jóna Guðbjörg hefur verið aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands frá 2003 og stundaði doktorsnámið samhliða því starfi. Áður hafði hún starfað sem þroskaþjálfi, sérkennari og ráðgjafi innan skólakerfisins í áratug og við Ráðgjafar- og greiningastöð ríkisins í 13 ár. Jóna er gift Bjarna Þór Jónatanssyni og eiga þau tvíburadæturnar Sigrúnu og Lilju og barnabörnin eru tvö, Dagný Heiða og Hrafnhildur Anna.

Föstudaginn 1. september 2023 fer fram doktorsvörn við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Þá ver Jóna Guðbjörg Ingólfsdóttir ritgerð sína í fötlunarfræði, Stuðningur við fötluð börn og fjölskyldur á Íslandi: Kenningar og framkvæmd (Disabled Children, Families and Services in Iceland: Bridging the Gap Between Theory and Practice). Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands kl. 14:00 og er öllum opin.

Doktorsvörn í fötlunarfræði - Jóna Guðbjörg Ingólfsdóttir.