Skip to main content

Doktorsvörn í félagsráðgjöf - Díana Ósk Óskarsdóttir

Doktorsvörn í félagsráðgjöf - Díana Ósk Óskarsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
1. febrúar 2024 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasal

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fimmtudaginn 1. febrúar ver Díana Ósk Óskarsdóttir doktorsritgerð sína í félagsráðgjöf við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Athöfnin hefst klukkan 13:00 og fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og er öllum opin.

Heiti ritgerðar: Þekktu sjálfa/n þig. Eigindleg rannsókn á upplifun presta innan þjóðkirkju Íslands á handleiðslu. (Know Thyself. A qualitative study of the experience of supervision among pastors in the National Church of Iceland.).

Andmælendur: dr.Páll Biering, prófessor emeritus í geðhjúkrunarfræði og dr.Staffan Höjer, prófessor í félagsráðgjöf við Háskólann í Gautaborg.

Leiðbeinandi: dr. Pétur Pétursson, prófessor emeritus í guðfræði, umsjónarkennari er dr. Steinunn Hrafnsdóttir, prófessor við Félagsráðgjafardeild.

Doktorsnefnd: dr. Pétur Pétursson, prófessor emeritus í guðfræði, dr. Steinunn Hrafnsdóttir, prófessor við Félagsráðgjafardeild, dr. Pamela Cooper-White, prófessor emeritus í trúarlífs- sálarfræði við Union Theological Seminary í New York, og dr. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emeritus í félagsráðgjöf.

Doktorsvörn stýrir: Hervör Alma Árnadóttir, dósent og deildarforseti við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands.

 

Efniságrip

Á síðustu árum hafa síbreytilegar þarfir samfélagsins kallað eftir nýjungum innan stofnana og fyrirtækja. Á sama tíma eru gerðar enn frekari kröfur til fagfólks, m.a. nýjar stjórnunaraðferðir, árangursmælingar, aukin afköst og áhersla á gagnreynt vinnulag sem tekur mið af nýjustu rannsóknum og þekkingu. Álagið sem fylgir hefur áhrif á líðan starfsfólks. Þær aðstæður geta meðal annars stuðlað að samkenndarþreytu og getur það t.d. haft áhrif á vinnustaðamenningu. Þessar áskoranir eiga sérstaklega við þar sem unnið er með viðkvæman hóp.

Markmið rannsóknarinnar var að öðlast innsýn í upplifun og reynslu presta af handleiðslu, sérstaklega í tengslum við hlutverk þeirra og þjónustu, hið faglega- og persónulega sjálf og hvaða þjálfun og stuðning þau fá í starfi. Það má vel heimfæra þeirra aðstæður yfir á aðrar fagstéttir sem vinna við áþekk hjálparstörf.

Verkefnið er þverfaglegt innan handleiðslufræða og praktískrar/hagnýtrar guðfræði. Verkið byggir á eigindlegri rannsókn. Gögn rannsóknarinnar sýna hvernig þátttakendur upplifðu áhrif hrunsins árið 2008 og hvernig aðrar ytri aðstæður og innri átök er varða þjóðkirkjuna endurspegluðust í líðan þeirra, þjónustu og sjálfsmynd. Rýnt er í hvað ýtir undir þörf fagaðila fyrir handleiðslu, hvort handleiðsla sé t.d. viðbragð við kulnun eða/og fageflandi í lærdóms- og þroskaferli fagfólks.

Díana Ósk Óskarsdóttir fæddist 20. nóvember 1970, ólst upp að mestu á Siglufirði en hefur búið í Reykjavík frá 11 ára aldri. Hún hefur lokið diplómanámi í Vímuefnafræðum og Handleiðslufræðum við Félagsráðgjafadeild, BA., Mag.Theol og MA í guðfræði við Háskóla Íslands og doktorsprógrammi við MF Vitenskapelig Højskole í Osló. Hún lauk námi við Ráðgjafaskóla Íslands, námskeiðum í sálgæslu ásamt fjölda annarra námskeiða tengdum áföllum, samskiptum og innra lífi manneskjunnar, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur hlotið sérhæfingu í vinnuvernd á sálfélagslegu sviði frá Vinnueftirlitinu og situr nú í öryggisnefnd Landspítalans. Díana var vígð af Biskupi Íslands í mars 2018 og var sjúkrahúsprestur á barna- og kvennasviði og á geðsviði Landspítalans áður en hún hóf störf sem Formaður Stuðningsteymis starfsfólks á Landspítala, þar sinnir hún m.a. faglegri handleiðslu, hún er stundarkennari við Háskóla Íslands og sinnir ýmsum athöfnum sem prestur. Díana hefur rekið eigin stofu þar sem hún hefur sinnt faglegri handleiðslu, stuðningi og ráðgjöf ásamt því að halda hin ýmsu námskeið og erindi, hún starfaði sem dagskrárstjóri Eftirmeðferðar hjá Vímulausri æsku, sem ráðgjafi Foreldrahúss og sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi á Teigi meðferðarúrræði Landspítala. Hún hélt utan um Æðruleysismessur Dómkirkjunnar til margra ára og hefur sinnt bæði barnastarfi og fermingarstarfi.

Doktorsvörn í félagsráðgjöf - Díana Ósk Óskarsdóttir