Skip to main content

Doktorsvörn í annarsmálsfræðum: Branislav Bédi

Doktorsvörn í annarsmálsfræðum: Branislav Bédi - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
11. desember 2020 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 11. desember 2020 fer fram doktorsvörn við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Branislav Bédi doktorsritgerð sína í annarsmálsfræðum, Learning Icelandic in Virtual Reykjavik: Simulating real-life conversations with embodied conversational agents using multimodal clarification requests. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00. Vegna fjöldatakmarkana er áhugasömum bent á streymi frá vörninni. (Smellið hér til að fylgjast með streymi). 

Andmælendur við vörnina verða dr. Ebba Þóra Hvannberg, prófessor við Háskóla Íslands, og dr. Hrafn Loftsson, dósent við Háskólann í Reykjavík.

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Birnu Arnbjörnsdóttur, prófessors við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd dr. Ana Paiva, prófessor við Háskólann í Lissabon, og dr. Hannes Högni Vilhjálmsson, prófessor við Háskólann í Reykjavík.

Oddný Sverrisdóttir, varaforseti Mála og menningardeildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Doktorsritgerðin er hluti af verkefninu Icelandic Language and Culture Training in Virtual Reykjavik, þrívíddartölvuleik sem gerir þeim sem eru að læra íslensku sem annað mál kleift að æfa tal og hlustun. Markmið verkefnisins var að búa til tölvuleik með sýndarspjallverum (e. embodied conversational agents) sem byggju yfir raunsærri fjölþættri hegðun, með það langtímamarkmið að styðja við hagnýta kennslu á íslensku máli og menningu þar sem mál úr raunverulegum samskiptum er notað. Markmið doktorsverkefnisins beindist að því að rannsaka raunveruleg yrt og óyrt atriði í skýringarbeiðnum meðal Íslendinga (e. clarification requests, CRs). Lögð voru til sex fjölþætt líkön af skýringarbeiðnum sem áttu að stuðla að raunhæfari samspili manna og sýndarspjallvera í Virtual Reykjavik. Í ritgerðinni eru færð rök fyrir því að þrívíddartölvuleikir nýtist vel til að kenna íslenska tungu og menningu, með sérstakri áherslu á að æfa talmálsfærni. Fjallað er um og stutt með kennslufræðilegum kenningum hvernig bæta megi námsupplifun og kalla fram alvörusamskipti í sýndarveruleika með raunsærri og fjölþættri hegðun spjallvera.

Um doktorsefnið

Branislav stundar rannsóknir á sviði tölvustuddrar tungumálakennslu með áherslu á íslensku sem annað mál og íslensku sem táknmál á sviði hópvirkjunar (e. crowdsourcing), gervigreindar og málgreiningu. Hann er með BA-próf í íslensku sem öðru máli frá Háskóla Íslands árið 2009, með MA-próf í tveimur aðalgreinum, enskum og þýskum fræðum með kennsluréttindi, frá Konstantín-háskóla í Nitra í Slóvakíu árið 2011 og með MA-próf í þýsku frá Háskóla Íslands með áherslu á notkun þýsku í ferðaþjónustu á Íslandi árið 2015. Hann er verkefnisstjóri á alþjóðasviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum frá 2019 og stundakennari í rannsóknaraðferðum í annarsmálsfræðum við HÍ frá 2020.

Branislav Bédi.

Doktorsvörn í annarsmálsfræðum: Branislav Bédi