Skip to main content

Doktorsvörn á Menntavísindasviði Vaka Rögnvaldsdóttir

Doktorsvörn á Menntavísindasviði  Vaka Rögnvaldsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
26. maí 2020 13:00 til 16:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Doktorsefni er Vaka Rögnvaldsdóttir

Heiti ritgerðar er Svefn, hreyfing og heilsa íslenskra ungmenna

Andmælendur eru dr. Kenneth P. Wright,  prófessor við University of Colorado Boulder, Bandaríkjunum,  og dr. Erna Sif Arnardóttir, rannsóknarsérfræðingur við Háskólann í Reykjavík

Leiðbeinandi var dr.  Erlingur S. Jóhannsson, prófessor við Háskóla Íslands, og meðleiðbeinandi dr. Sigríður Lára Guðmundsdóttir, dósent við Háskóla Íslands.

Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Kong Chen, prófessor við The National Institutes of Health, Washington DC.

Doktorsvörn stýrir Dr.  Anna Sigríður Ólafsdóttir, deildarforseti  Deildar heilsueflingar, íþrótta og tómstunda Menntavísindasviðs

Vegna fjöldatakmarkana geta einungis 50 manns verið viðstaddir vörnina í Hátíðasalnum, en hægt verður að fylgjast með vörninni í beinni útsendingu

Um verkefnið

Bakgrunnur

Svefn og hreyfing eru grundvallarþættir fyrir heilsu mannsins. Alþjóðlegar svefnráðleggingar fyrir ungmenni gera ráð fyrir 8-10 klukkustunda nætursvefni og að minnsta kosti 60 mínútna daglegri hreyfingu af miðlungs- eða mikilli ákefð til að viðhalda góðri heilsu.

Markmið

Aðalmarkmið rannsóknarinnar var að mæla svefn og hreyfingu íslenskra ungmenna í sínu náttúrulega umhverfi með hreyfimælum og spurningalistum og skoða tengsl svefns (lengdar, gæða og tímasetingar) og hreyfingar við holdafar.

Aðferðir

Gögnum var safnað á vormánuðum 2015 meðal 315 grunnskólanema (15 ára). Framhaldsrannsókn fór fram árið 2017 og var gögnum safnað frá 168 þátttakendum (17 ára). Gögnum um svefn og hreyfingu var safnað með hröðunarmælum og spurningalistum. Líkamsmælingar fóru allar fram á rannsóknarstofu (2017) eða í skólum þátttakenda (2015). Líkamssamsetning, mæld með tvíorku röntgengeisla-gleypnimælingu fór fram í Hjartavernd.

Niðurstöður

Fæstir náðu að uppfylla ráðleggingar um 8-10 klukkustunda nætursvefn þegar svefn var mældur með hröðunarmælum. Þetta átti sérstaklega við á skóladögum (7 klst/nótt liggjandi í rúmi, 6,2 klst/nótt svefn, um 11% ná ráðleggingum). Þeir sem uppfylltu ráðleggingar um daglega hreyfingu sváfu ekki mælanlega lengur. Aukin hreyfing og minni breytileiki á svefnlengd tengdust lægri fituprósentu.

Samantekt

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að lífsstíll ungmennanna virðist ekki endurspegla viðmið opinberra aðila um daglega hreyfingu og svefn. Skoða þarf þá þætti sem hafa áhrif á svefnvenjur og þátttöku í daglegri hreyfingu svo bæta megi heilsu íslenskra ungmenna.

Um doktorsefnið

Vaka Rögnvaldsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1976. Hún lauk íþróttakennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1999, B.sc. í viðskiptafræði frá Auburn University Montgomery árið 2002 og M.sc. í íþrótta- og heilsufræði frá Háskóla Íslands. Vaka hefur starfað sem kennari við grunn- og framhaldsskóla og háskóla. Vaka er aðjunkt við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Foreldrar Vöku eru Kolbrún Ásgrímsdóttir og Rögnvaldur Gunnarsson. Sambýlismaður Vöku er Magnús Hrafn Magnússon og börn þeirra eru Tinna Dögg (2003), Hekla (2006) og Magnús Dagur (2014). Helstu áhugamál Vöku eru hreyfing, útivist, matur, menning og svefn.

 

Doktorsvörn á Menntavísindasviði Vaka Rögnvaldsdóttir

Doktorsvörn á Menntavísindasviði - Vaka Rögnvaldsdóttir