Skip to main content

Doktorsfyrirlestur í jarðfræði - Þorbjörg Sigfúsdóttir

Doktorsfyrirlestur í jarðfræði - Þorbjörg Sigfúsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
29. nóvember 2019 13:30 til 14:30
Hvar 

Askja

Stofa 132

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Doktorsefni: Þorbjörg Sigfúsdóttir

Heiti ritgerðar: Jöklunarsaga neðri hluta Borgarfjarðar: greining á jökulhögguðum setlögum og landformum (Past dynamics of a marine-terminating glacier in lower Borgarfjörður, west Iceland: analyses of glaciotectonic sediments and landforms)

Leiðbeinandi: Dr. Ívar Örn Benediktsson, sérfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans og aðjúnkt við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands

Einnig í doktorsnefnd: Dr. Ólafur Ingólfsson, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands
Dr. Hreggviður Norðdahl, sérfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans
Dr. Emrys R. Phillips,  vísindamaður við British Geological Survey í Edinborg, Skotlandi
Dr. Per Möller, prófessor við Jarðfræðideild Háskólans í Lundi, Svíþjóð

Athöfn stýrir:  Dr. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor og deildarforseti Jarðvísindadeildar Háskóla Íslands.

Um er að ræða sameiginlega doktorsgráðu milli Háskólans í Lundi og Háskóla Íslands fór vörnin fram í Svíþjóð 11. október síðastliðinn.

Ágrip

Við lok síðasta jökulskeiðs gekk jökull í sjó fram í Melasveit í neðri hluta Borgarfjarðar. Vegna landriss í kjölfar afjöklunar er svæðið nú ofan sjávarmáls. Má þar víða sjá jökulræn setlög og landform sem veita innsýn í jöklunarsögu svæðisins og ferli setmyndunar og afmyndunar við jaðar jökla í sjávarumhverfi. Rannsókn þessi beindist að jökulhöggun og setgerð í Melabökkum, Ásbökkum og Belgsholti. Setgerð, setlagaskipan og byggingareinkenni voru kortlögð á vettvangi og bakkarnir mældir með leysiskíki. Einnig var setsýnum safnað til smásjárskoðana og skeljum til aldursgreininga. Í bökkunum má finna a.m.k. sjö stóra jökulgarða, sem grafnir eru undir yngri sjávarsetlögum. Garðarnir eru að mestu úr sjávarseti, sem jökull úr Borgarfirði þrýsti upp við jökulsporðinn. Aukinn vatnsþrýstingur undir og framan við sporðinn ýtti undir afmyndun undirlagsins og auðveldaði jöklinum að byggja upp garðana. Syðsti og stærsti garðurinn markar hámarksútbreiðslu jökulsins. Aldursgreiningar sýna að hann myndaðist á Yngra Drías (fyrir u.þ.b 13-11,7 þús. árum). Hinir garðarnir verða almennt yngri til norðurs og eru til marks um smærri framrásir á tímabili hörfunar jökulsins inn Borgarfjörð . Yngsti garðurinn myndaðist snemma á nútíma, eða fyrir u.þ.b 11,3 þús. árum. Þessar niðurstöður gefa til kynna að jöklar hafi verið virkari á tímum afjöklunar en áður var talið. Auk þess veitir rannsóknin upplýsingar um innri gerð jökulgarða sem myndast í sjó og þau ferli sem eru að verki við myndun slíkra garða.

Um doktorsefnið

Þorbjörg Sigfúsdóttir fæddist 31. mars 1986. Foreldrar hennar eru Sigfús Jóhannesson og Theresa Anne O’Brien. Þorbjörg lauk BS-prófi í jarðfræði við Háskóla Íslands árið 2011, og MS-prófi frá jarðfræðideild Lundarháskóla í Svíþjóð sumarið 2013. Í ágúst sama ár hóf hún doktorsnám til sameiginlegrar gráðu frá Lundarháskóla og Háskóla Íslands. Fyrri hluta námstímans dvaldi hún við Lundarháskóla en þann síðari við Háskóla Íslands.

Maki Þorbjargar er Bjarni Freyr Borgarsson og eiga þau einn son, Sölva Jarl, þriggja ára.

Þorbjörg Sigfúsdóttir

Doktorsfyrirlestur í jarðfræði - Þorbjörg Sigfúsdóttir