Skip to main content

Reglur nr. 501-2011

Reglur um meistaranám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, nr. 501/2011

með síðari breytingum

1. gr.  Um námið. Markmið.

Á Menntavísindasviði er unnt að leggja stund á meistaranám í þeim kennslugreinum sem tilgreindar eru í XIII. kafla reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

Markmið meistaranáms á Menntavísindasviði er að nemendur dýpki þekkingu sína á ákveðnu fræðasviði og eflist sem fagmenn og rannsakendur í starfi.

Í reglum þessum er gerð grein fyrir sameiginlegum ramma meistaranáms á Menntavísindasviði en nánari útfærslu á ýmsum atriðum er að finna í námsskipunarreglum einstakra greina.

2. gr.  Fastanefnd.

Forseti fræðasviðs skipar [sex]1 manna nefnd um meistaranám á fræðasviðinu til tveggja ára í senn. Stjórn sviðsins tilnefnir formann nefndar. Hver deild tilnefnir fulltrúa sinn og varamann og meistaranemar tilnefna sinn fulltrúa auk varamanns.

Hlutverk nefndarinnar er að tryggja samráð deilda um málefni meistaranámsins og hafa eftirlit með framkvæmd námsins. Nefndin hefur jafnframt það hlutverk að annast samskipti við Miðstöð framhaldsnáms og er formaður fastanefndar tengiliður fræðasviðsins við Miðstöð framhaldsnáms.

Deildir Menntavísindasviðs bera faglega ábyrgð á meistaranámi við sviðið.
1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 306/2018.

3. gr.  Umsóknarfrestur.

Umsóknarfrestur fyrir meistaranám á Menntavísindasviði er til 15. apríl fyrir innritun á haustmisseri, en erlendra umsækjenda utan EES svæðisins til 1. febrúar. Umsóknarfrestur á vormisseri er til 15. október.

4. gr.  Meðferð umsókna.

Umsóknum skal skilað til Nemendaskrár Háskóla Íslands á sérstöku rafrænu eyðublaði sem aðgengilegt er á vef skólans.

Eftir skráningu gagna í Nemendaskrá er fjallað um umsóknir í deild. Líta ber til gæða umsókna og inntökuskilyrða.

Að lokinni umfjöllun í deild tilkynnir hún umsækjanda um niðurstöðu sína. Afgreiðsla deildar skal skráð í rafrænt kerfi Nemendaskrár. Afgreiðslu umsóknar skal að jafnaði vera lokið og henni svarað skriflega innan sex vikna frá lokum umsóknarfrests. Umsókn er synjað ef hún uppfyllir ekki gæðakröfur.

Nemandi sem deild hefur samþykkt í meistaranám skal snúa sér til Nemendaskrár og ganga frá greiðslu skrásetningargjalds komandi háskólaárs. Frestur til að ganga frá greiðslu skrásetningargjalds skal koma fram í skriflegu svari deildar til umsækjanda. Nemandi þarf síðan að skrá sig ár hvert fyrir komandi háskólaár og greiða skrásetningargjald. Skráning og greiðsla skrásetningargjalds er forsenda þess að nám geti hafist eða haldið áfram.

5. gr.  Gögn sem fylgja skulu umsókn.

Umsókn um meistaranám skal fylgja:

a) Greinargerð um markmið umsækjanda með náminu. Áætlaður námstími komi fram.
b) Náms- og starfsferilskrá.
c) Nöfn, netföng og símanúmer tveggja meðmælenda.
d) Staðfest afrit prófskírteina og námsyfirlit yfir allt fyrra háskólanám.

Greinargerð, ferilskrá og nöfnum meðmælenda skal skila á rafrænu umsóknareyðublaði til Nemendaskrár Háskóla Íslands.

Afrit prófskírteina og námsyfirlit skulu vera útprentuð eða ljósrituð og staðfest með stimpli og undirskrift og skal skilað til kennsluskrifstofu Menntavísindasviðs merkt „Umsókn um meistaranám – [heiti deildar].” Rafræn yfirlit eru ekki gild.

6. gr.  Skyldur nemanda.

Meistaranemar skulu ástunda fagleg vinnubrögð og forðast að hafast nokkuð það að í námi sínu eða framkomu innan og utan háskólans sem er þeim til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á nám þeirra eða háskólann. Þeim ber að kynna sér vel þær reglur og siði sem akademískt starf lýtur og temja sér í hvívetna viðurkennd fræðileg vinnubrögð í rannsóknum og meðferð heimilda, þ.m.t. að starfsfólk og nemendur sýni hvert öðru virðingu í framkomu, ræðu og riti, eigi málefnaleg skoðanaskipti, vinni saman af heilindum, leiti sannleikans og setji hann fram samkvæmt bestu vitund og forðist að láta persónuleg tengsl og hagsmuni hafa áhrif á samvinnu, sbr. siðareglur háskólans.

7. gr.  Inntökuskilyrði.

Nemendur sem hefja meistaranám á Menntavísindasviði skulu hafa lokið BA-, B.Ed.- eða BS-prófi, eða öðru námi sem metið er sambærilegt, frá viðurkenndum háskóla, með fyrstu einkunn eða sambærilegum árangri. Einstakar deildir geta sett sérákvæði um forkröfur fyrir nám á tilteknum námsleiðum. Slík ákvæði skulu staðfest af deild og auglýst í kennsluskrá Háskóla Íslands.

[...]1
1Breytt með 2. gr. rgl. nr. 306/2018.

8. gr.  Einingafjöldi og tímalengd náms.

Meistaranám í deildum Menntavísindasviðs er 120 einingar. Miðað skal við að lengd námsins sé tvö ár (fjögur misseri) í fullu námi. Hámarksnámstími er átta misseri frá því stúdent var fyrst skrásettur í viðkomandi nám. Deildum er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á, enda sæki nemandi sérstaklega um það. Nemi í meistaranámi skal vera skráður og greiða skrásetningargjald allan námstímann.

9. gr.   Framvinda og samsetning náms.

Meistaranám á Menntavísindasviði skal fela í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og þátttöku í námskeiðum á framhaldsnámsstigi, auk starfsþjálfunar þegar það á við. Náminu lýkur með lokaverkefni og skal þess gætt að verkefnið tengist sérsviði því sem nemandi hefur valið. Stærð verkefnisins er [30–60 einingar.]1 Aðrar einingar fást með þátttöku í námskeiðum, málstofum og lesnámskeiðum. Framboð námskeiða og skipting þeirra í skyldu og val er ákveðið af viðkomandi deild og fræðasviði og tilgreint í kennsluskrá Háskóla Íslands.

Við lok fyrsta námsárs eða upphaf annars námsárs skal nemanda hafa verið úthlutaður leiðbeinandi fyrir meistaraverkefni sem deild samþykkir og skal nemandi jafnframt leggja fram áætlun um námslok. Á þriðja misseri skal liggja fyrir lýsing á lokaverkefni og áætlun um framkvæmd þess, svo sem nánar er tilgreint í reglum sem Menntavísindasvið setur um meistaraverkefni.
1Breytt með 3. gr. rgl. nr. 306/2018.

10. gr.  Námskeið í grunnnámi sem hluti af framhaldsnámi.

Námskeið í framhaldsnámi skulu að jafnaði vera sérstök framhaldsnámskeið við háskólann eða aðrar viðurkenndar stofnanir. Telji meistaranemi að námskeið á grunnstigi geti orðið honum sérlega gagnlegt í tengslum við sérhæfingu sína í meistaranáminu getur hann sótt um leyfi til þeirrar deildar sem hann stundar nám við til að sækja námskeiðið, enda sé formaður námsbrautar því meðmæltur.

Námskeið í grunnnámi mega ekki áður hafa verið metin til prófgráðu stúdents. Að öllu jöfnu eru þessar einingar skipulagðar sem þriðja árs námskeið, eða námskeið sem gera a.m.k. 90 eininga forkröfur. Ljóst skal vera að viðeigandi námskeið séu ekki í boði á meistarastigi. Miðað skal við að námskeið úr grunnnámi nemi ekki fleiri einingum en 20 af 120. Miðað skal við að lágmarkseinkunn úr námskeiðum í grunnnámi sé 6,0.

11. gr.  Umsjónarkennari og leiðbeinandi.

Leiðbeinandi leiðbeinir stúdent í lokaverkefni. Leiðbeinandi skal að jafnaði koma úr hópi fastra kennara Menntavísindasviðs og er þá jafnframt umsjónarkennari lokaverkefnis nemandans. Umsjónarkennari hefur umsjón með verkefninu og er ábyrgur fyrir því að það sé í samræmi við kröfur viðkomandi deildar og samkvæmt reglum Menntavísindasviðs um meistaraverkefni.

Leiðbeinendur meistaranema skulu hafa lokið a.m.k. meistaraprófi á viðkomandi fræðasviði. Gæta þarf þess að verkefni nemandans sé á sérsviði leiðbeinandans. Leiðbeinendur skulu uppfylla skilyrði sem sett eru í viðmiðum og kröfum um gæði námsins, vera viðurkenndir sérfræðingar á viðkomandi sviði og hafa birt ritsmíðar á því sviði á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur.

Deild getur heimilað stúdent að hafa utanaðkomandi leiðbeinanda enda uppfylli hann kröfur þessara reglna. Sé leiðbeinandi ekki fastur kennari við Menntavísindasvið skal deild tilnefna umsjónarkennara úr hópi fastra kennara Menntavísindasviðs.

12. gr.  Meistaraprófsnefndir og prófdómarar.

Deildum er heimilt að skipa meistaraprófsnefnd fyrir hvern nemanda. Sé meistaraprófsnefnd skipuð skulu sitja í henni minnst tveir sérfróðir menn og er annar þeirra umsjónarkennarinn. Skylt er að skipa meistaraprófsnefnd sé lokaverkefni meira en 40 einingar. Í þeim tilvikum þar sem umsjónarkennari er ekki leiðbeinandi skal leiðbeinandi einnig sitja í meistaraprófsnefnd. Heimilt er að skipa þriðja manninn í meistaraprófsnefnd, t.d. ef verkefnið snertir fleiri en eina deild. Meistaraprófsnefnd tryggir að gæði lokaverkefnis sé í samræmi við reglur deildar og reglur Menntavísindasviðs um meistaraverkefni.

Forseti Menntavísindasviðs skipar prófdómara að fenginni tillögu deildar. Prófdómari leggur mat á lokaverkefnið ásamt leiðbeinanda, eða meistaraprófsnefnd hafi hún verið skipuð. Prófdómari skal ekki vera tengdur rannsóknarverkefninu. Prófdómari skal hafa lokið viðurkenndu háskólaprófi í þeirri grein sem dæma skal og njóta viðurkenningar á starfssviði sínu.

13. gr.  Námsmat og meistarapróf.

Þegar ritgerð er lögð fram skal jafnframt leggja fram til mats námsferilsyfirlit nemanda.

Prófdómari ásamt leiðbeinanda, eða meistaraprófsnefnd ef því er að skipta, meta frammistöðu nemanda í lokaverkefni til meistaraprófs. Ekki eru gefnar tölueinkunnir fyrir lokaverkefni heldur staðið eða fallið enda kemur efnisleg niðurstaða námsmats fram í umsögn prófdómara um verkefnið. Í þeim tilvikum þar sem meistaraverkefni er [50 eða 60 einingar]1 er haldin meistaraprófsvörn. Um framkvæmd mats á meistaraverkefni skal fylgja reglum Menntavísindasviðs.
1Breytt með 4. gr. rgl. nr. 306/2018.

14. gr.  Skil og frágangur meistararitgerða.

Meistaraprófsritgerð skal leggja fram í samræmi við reglur Menntavísindasviðs um meistaraverkefni. Við frágang lokaverkefna og meðferð heimilda skal nemandi fylgja reglum Menntavísindasviðs um meistaraverkefni.

Koma skal skýrt fram að verkefnið sé unnið við Háskóla Íslands, tilgreina skal leiðbeinendur, fræðasvið, deild og rannsóknastofnun, ef við á, og geta skal þeirra sjóða háskólans sem styrkt hafa verkefnið og þeirra stofnana eða fyrirtækja utan háskólans sem nemandi hefur tengst við vinnslu þess. Forsíða ritgerðar skal bera auðkenni (logo) Háskóla Íslands. Ef um sameiginlega prófgráðu er að ræða með öðrum háskóla eða háskólum samkvæmt samningi þar um, ber forsíða ritgerðar auðkenni beggja eða allra háskóla sem hlut eiga að máli.

Ritgerð skal vera á íslensku en útdráttur á íslensku og ensku skal fylgja. Ritgerð getur verið á ensku eða öðru Norðurlandamáli en  íslensku, að undangengnu samþykki deildar og leiðbeinanda.

Heimilt er að skrifa meistararitgerð sem vísindagrein að því gefnu að ítarleg fræðileg greinargerð fylgi. Ef skrifa á vísindagrein þarf samþykki deildar og leiðbeinanda.

Nemandi ber kostnað vegna útgáfu ritgerðar og annast lögbundin skil á henni til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Rafrænt eintak ber að vista í gagnasafni Skemmu sem safnið rekur.

15. gr.  Tengsl við aðra háskóla.

Hluta meistaranáms má taka við aðrar deildir Háskóla Íslands, aðra háskóla eða viðurkenndar rannsókna- eða vísindastofnanir að undangengnu samþykki deildar. Jafnframt er heimilt að veita meistaragráðu sameiginlega með öðrum deildum Háskóla Íslands eða öðrum háskólum.

16. gr.  Lærdómstitill.

Meistarapróf samkvæmt þessum reglum veitir rétt til lærdómstitilsins Magister Artium (MA), Magister Educationis (M.Ed.) eða Magister Scientiarum (MS) skv. 1. gr. þessara reglna og 55. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands.

17. gr.  Miðstöð framhaldsnáms.

Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands hefur umsjón með og fylgir eftir settum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands, sbr. nánar 66. gr. reglna Háskóla Íslands. Deildir Menntavísindasviðs bera faglega ábyrgð á meistaranámi við sviðið. Standa ber skil á upplýsingum og gögnum sem Miðstöðin kallar eftir.

18. gr.  Gildistaka o.fl.

Reglur þessar eru settar af háskólaráði með heimild í 3. mgr. 18. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Reglurnar hafa verið samþykktar af deildum Menntavísindasviðs og stjórn fræðasviðsins og Miðstöð framhaldsnáms, sbr. 66. og 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar öðlast gildi 1. júlí 2011.

Háskóla Íslands, 3. maí 2011.