Skip to main content

Reglur nr. 1160-2015

Reglur um doktorsnám og doktorspróf við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, nr. 1160/2015

með síðari breytingum

I. KAFLI  Almenn ákvæði.

1. gr.  Doktorsnám á Hugvísindasviði.

Á Hugvísindasviði er unnt að leggja stund á doktorsnám í þeim námsgreinum þar sem viðkomandi deild og Hugvísindasvið meta að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi, enda hafi sviðsstjórn og háskólaráð samþykkt námið, sbr. XII. kafla reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Markmið doktorsnáms er að veita doktorsnemum víðtæka og trausta rannsóknaþjálfun, gera þá færa um að stunda sjálfstæð vísindastörf, afla nýrrar þekkingar og miðla henni. [Með samningu og vörn doktorsritgerðar sýni nemandinn fram á hæfni sína, leikni og þekkingu eins og nánar er kveðið á um í 11. gr.]1

[Reglur þessar um doktorsnám]1 og doktorspróf við Hugvísindasvið eru settar í samræmi við 47., 68., 69. og 70. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands og Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands, samþykkt af háskólaráði 3. maí 2012.

[...]1

[Doktorsnemum og leiðbeinendum þeirra ber að kynna sér og fylgja reglum um doktorsnám við Háskóla Íslands og gildandi samþykktum háskólaráðs um viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands.]1

1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 1032/2019.

2. gr.  Doktorsnámsnefnd.

[Í doktorsnámsnefnd Hugvísindasviðs sitja formenn framhaldsnámsnefnda deilda, fulltrúi doktorsnema, rannsóknastjóri Hugvísindasviðs, auk forseta fræðasviðs, sem jafnframt er formaður nefndarinnar. Umsjónarmaður doktorsnáms er ritari nefndarinnar. Nefndin hefur í öllum faglegum málum samráð við viðkomandi námsbraut eða deild, eftir því sem við á, og getur nefndin boðað fulltrúa námsbrautar/deildar á fundi til að ræða mál sem tengjast einstökum doktorsverkefnum. Umsjónarmaður doktorsnáms er tengiliður nefndarinnar við doktorsnema, doktorsnefndir og aðra aðila innan deildar sem að doktorsnámi koma.

Ritari nefndarinnar er tengiliður fræðasviðsins við Miðstöð framhaldsnáms í málefnum doktorsnema í umboði formanns. Formaður doktorsnámsnefndar, eða staðgengill hans, er fulltrúi Hugvísindasviðs í stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms.

Doktorsnámsnefnd Hugvísindasviðs hefur umsjón með doktorsnámi innan sviðsins og fylgist með því að samræmis sé gætt í verklagi og viðmiðum, kröfum og skyldum sem móta námið og umgjörð þess. Eftir faglega umfjöllun í námsbraut/deild fjallar hún um og afgreiðir umsóknir í samræmi við 5. gr. þessara reglna. Hún staðfestir náms- og rannsóknaráætlanir og breytingar á þeim, staðfestir val á leiðbeinanda og öðrum í doktorsnefnd, og einnig val á sérstökum umsjónarkennara þar sem við á, sbr. 9. gr. Að fenginni tilnefningu viðeigandi deildar og staðfestingu Miðstöðvar framhaldsnáms skipar doktorsnámsnefnd andmælendur, tekur við áliti þeirra og fylgir eftir kröfum um lagfæringar, komi til þess. Einnig sinnir nefndin öðrum málum varðandi doktorsnám sem forseti fræðasviðs eða sviðsstjórn kann að fela henni.]1

Sé ekki samkomulag í nefndinni um afgreiðslu mála sem snúa að einstökum doktorsverkefnum getur fulltrúi þeirrar deildar sem verkefnið er unnið við krafist þess að málinu verði vísað til deildar til frekari umfjöllunar. Doktorsnámsnefnd fær málið aftur til afgreiðslu að lokinni umfjöllun innan deildar og tekur endanlega ákvörðun. [Ef atkvæði eru jöfn sker atkvæði formanns úr.]1

1Breytt með 2. gr. rgl. nr. 1032/2019.

3. gr.  Almenn inntökuskilyrði.

Stúdent sem hefur lokið meistaraprófi með fyrstu einkunn eða samsvarandi prófi getur sótt um aðgang að doktorsnámi í meistaraprófsgreininni. Stúdent sem hefur lokið meistaraprófi eða öðru samsvarandi prófi í annarri grein en þeirri sem fyrirhuguð er í doktorsnámi, frá annarri deild Háskóla Íslands eða öðrum háskóla, með jafngildi fyrstu einkunnar, getur sótt um aðgang að doktorsnámi. Í slíkum tilvikum skal doktorsnámsnefnd, í samráði við námsbraut/deild og væntanlegan leiðbeinanda, meta gögn um fyrra nám nemanda og rannsóknir.

Samþykki fyrirhugaðs leiðbeinanda er forsenda fyrir endanlegri afgreiðslu umsóknar. [...]1

Ef undirbúningur doktorsnemans er ekki jafngildur þeim undirbúningi sem meistarapróf á sérsviðinu á að tryggja, skal doktorsnámsnefnd, samþykki hún umsóknina að öðru leyti, gera kröfur um frekara nám eftir því sem ástæða þykir til í samráði við námsbraut/deild og væntanlegan leiðbeinanda. Þeim kröfum skal doktorsnemi að jafnaði fullnægja með því að ljúka námskeiðum og/eða einstaklingsbundnum verkefnum á viðkomandi sérsviði. Slíkar viðbótar- eða forkröfur skal skrá í nemendakerfi háskólans. Leiðbeinandi metur hvenær doktorsefni hefur uppfyllt þessar forkröfur og lætur skrá upplýsingar þar um í nemendakerfið.

Ef stúdent hyggst hefja doktorsnám strax að loknu meistaraprófi getur hann sótt um það áður en hann lýkur prófi, ef fyrir liggur yfirlýsing viðkomandi háskóladeildar um að hann muni væntanlega ljúka náminu með fullnægjandi árangri við lok yfirstandandi misseris. Sé umsókn samþykkt með þessum fyrirvara er hægt að hefja doktorsnámið en hafi fyrirvari ekki verið uppfylltur eftir eins misseris doktorsnám fellur samþykkið úr gildi. Námsferli doktorsnáms í nemendakerfi háskólans er þá lokað án skráðra eininga og nemandi þarf að sækja um að nýju, óski hann þess.

Óheimilt er að samþykkja akademískan starfsmann deildar í doktorsnám við viðkomandi deild.

[Deild og/eða námsbraut getur skilgreint sértækari kröfur um aðgang að doktorsnámi og skulu þær koma fram í kennsluskrá Háskóla Íslands.

Inntöku í doktorsnám fylgir ekki styrkur til náms.]1

1Breytt með 3. gr. rgl. nr. 1032/2019.

4. gr.  Umsóknarfrestur.

[Hugvísindasvið tekur við umsóknum um doktorsnám fyrir haustmisseri og vormisseri ár hvert. Umsóknarfrestir miða við 2. lið 69. gr. reglna Háskóla Íslands og verða auglýstir sérstaklega. Hugvís­indasvið tekur við umsóknum um doktorsnám fyrir utan auglýsta fresti þegar sérstaklega stendur á.]1

1Breytt með 4. gr. rgl. nr. 1032/2019.

5. gr.  Meðferð umsókna.

[Umsóknum skal skilað til nemendaskrár Háskóla Íslands á sérstöku rafrænu eyðublaði sem aðgengilegt er á vef skólans. Með umsókn um doktorsnám skal fylgja staðfest afrit af prófskírteinum og fyrri námsferlum, hafi það nám ekki verið við Háskóla Íslands. Einnig skal fylgja náms- og rannsóknaráætlun með almennri lýsingu á rannsóknarverkefni, markmiðum þess og rannsóknarspurningum, faglegum forsendum nemandans til að vinna verkefnið, sem og drög að áætlun um skipulag námsins. Að auki skal fylgja staðfesting fyrirhugaðs leiðbeinanda.]1

Skrifstofa Hugvísindasviðs fer yfir umsóknir og athugar hvort tilskilin gögn fylgi. Umsóknir skulu þá sendar til [viðeigandi fastanefndar námsbrautar/deildar]1 sem fjallar efnislega um þær og gerir tillögu til doktorsnámsnefndar um afgreiðslu þeirra. Heimilt er að krefjast sýnishorna af ritgerðum umsækjanda telji námsbraut/deild þörf á því. Í álitamálum hefur doktorsnámsnefnd samráð við deildarforseta um afgreiðslu umsókna. [...]1

[...]1 Umsókn er samþykkt eða henni synjað á grundvelli undirstöðu umsækjanda og faglegs mats á rannsóknarverkefninu sem og á aðstöðu og sérþekkingu innan deildarinnar, ásamt öðrum þáttum, s.s. fjármögnun, er deild telur máli skipta svo væntanlegt doktorsverkefni geti uppfyllt kröfur sem til þess eru gerðar, sbr. 3. gr. Einungis er hægt að samþykkja nemendur í doktorsnám í námsleiðum sem deildir sviðsins bjóða upp á, sbr. sérreglur deilda hér á eftir.

Árleg skráning og greiðsla skrásetningargjalds er forsenda þess að nám geti hafist eða því sé haldið áfram.

1Breytt með 5. gr. rgl. nr. 1032/2019.

6. gr.  Einingafjöldi og tímalengd náms.

Doktorsnám á Hugvísindasviði er að lágmarki 180 einingar en heimilt er að skipuleggja doktorsnám til allt að 240 eininga að loknu meistaraprófi, sbr. nánari ákvæði í sérreglum deilda hér á eftir. Miðað skal við að lengd 180 eininga náms sé sex misseri, en taki að hámarki tíu misseri, og lengd 240 eininga náms átta misseri, en taki að hámarki tólf misseri. Síðari tímamörkin miðast við formlega staðfestingu doktorsnefndar á því að hún telji doktorsritgerð hæfa til varnar. Ef ekki tekst að ljúka náminu innan tímamarka getur doktorsnemi sótt um undanþágu til doktorsnámsnefndar. Verði undanþága veitt má setja þau skilyrði að doktorsnemi uppfylli kröfur sem þá eru í gildi um doktorsnám þótt hann hafi hafið námið meðan aðrar reglur giltu.

Heimilt er að gera hlé á doktorsnámi vegna sérstakra aðstæðna í allt að eitt ár í senn og afgreiðir doktorsnámsnefnd umsóknir um slíkt.[...]1

Doktorsnemi sem ekki hefur sinnt árlegri skráningu og ekki sótt formlega um námshlé getur sótt um að taka upp doktorsnám að nýju. Doktorsnámsnefnd tekur afstöðu til umsóknarinnar að höfðu samráði við leiðbeinanda og námsbraut/deild. Verði umsókn samþykkt má setja skilyrði um að doktorsnemi uppfylli kröfur sem þá eru í gildi um doktorsnám þótt hann hafi byrjað doktorsnámið þegar aðrar reglur giltu.

1Breytt með 6. gr. rgl. nr. 1032/2019.

7. gr.  Framvinda og samsetning náms.

Doktorsritgerðir við deildir Hugvísindasviðs skulu metnar til 180 eininga. Stúdent í 240 eininga doktorsnámi lýkur enn fremur 60 eininga almennu námi fyrir eða samhliða samningu ritgerðar, eftir því sem gert er ráð fyrir í skriflegri námsáætlun. Sá hluti getur m.a. verið fólginn í námskeiðum, þ.m.t. lesnámskeiðum og einstaklingsverkefnum, við Háskóla Íslands eða aðra háskóla, samningu fræðilegra greina og fyrirlestra, háskólakennslu o.fl. Skal alla jafna miða við að námskeiðum sé lokið innan tveggja ára frá upphafi náms. Nánar er kveðið á um þetta í sérreglum deilda hér á eftir.

[Við upphaf náms skulu doktorsnemi og leiðbeinandi ganga frá skriflegri námsáætlun, að hámarki þrjár blaðsíður, þar sem kveðið er á um gagnkvæmar skyldur og réttindi aðila. Doktorsnámsnefnd staðfestir námsáætlun. Umtalsverðar breytingar á námsáætlun (svo sem breyting á skipan doktorsnefndar eða breyting á rannsóknarefni sem gæti kallað á endurskoðun skipunar doktorsnefndar) síðar í doktorsnáminu eru háðar staðfestingu doktorsnámsnefndar.

Doktorsnemi skilar einnig rannsóknaráætlun snemma á námsferlinum. Nemandi í 180 eininga doktorsnámi skilar rannsóknaráætlun fyrir lok annars misseris en nemandi í 240 eininga doktorsnámi eigi síðar en við lok þriðja misseris. Hún skal vera 4.000–6.000 orða lýsing á væntanlegri doktorsritgerð. Í rannsóknaráætluninni skal gera grein fyrir viðfangsefni ritgerðarinnar, þeim spurningum sem bornar verða upp og rannsóknaraðferð. Uppbygging ritgerðarinnar skal útskýrð á greinargóðan hátt. Lýsingu fylgi drög að heimildaskrá. Doktorsnemi skal verja rannsóknarætlunina munnlega fyrir doktorsnefnd að jafnaði innan tveggja vikna frá skilum. Að lokinni vörn skal rannsóknaráætlun send til doktorsnámsnefndar til endanlegrar staðfestingar. Umtalsverðar breytingar á rannsóknaráætlun síðar í doktorsnáminu eru háðar staðfestingu doktorsnámsnefndar og skulu byggjast á skýringum og rökstuðningi sem doktorsnefnd hefur fallist á. Telji meirihluti doktorsnefndar rannsóknaráætlun ekki fullnægjandi skal doktorsnema boðið að semja endurskoðaða rannsóknaráætlun eða ljúka námi með M.Phil.-gráðu, sbr. 19. lið 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands.

Doktorsnemi skal skila námsframvinduskýrslu eftir hvert misseri sem staðfest er af leiðbeinanda og umsjónarmanni doktorsnáms á Hugvísindasviði. Staðfestar framvinduskýrslur eru forsenda skráningar eininga í doktorsnámi.]1

Gögn um doktorsnámið eru varðveitt á skrifstofu Hugvísindasviðs.

Deildir geta sett nánari reglur um framvindu náms og eftirlit með því.

1Breytt með 7. gr. rgl. nr. 1032/2019.

8. gr.  Tengsl meistara- og doktorsnáms.

Ekki má nota meistararitgerð sem uppistöðu í doktorsritgerð, en þó er heimilt að halda áfram á sama eða skyldu rannsóknarsviði.

9. gr.  Leiðbeinandi og umsjónarkennari.

[Sérhver doktorsnemi skal frá upphafi náms hafa leiðbeinanda sem alla jafna skal vera fastráðinn akademískur starfsmaður í viðkomandi deild við Háskóla Íslands. Ef leiðbeinandi kemur úr framangreindum hópi er hann jafnframt umsjónarkennari doktorsnemans. Leiðbeinandi skal uppfylla kröfur sem gerðar eru til leiðbeinenda við háskólann, sbr. gildandi samþykktir háskólaráðs um viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands.]1

Heimilt er að skipa leiðbeinanda utan deildar en þá skal nemandi frá upphafi náms hafa umsjónarkennara sem er akademískur starfsmaður deildar. Umsjón með doktorsnemum eiga þeir einir að hafa sem lokið hafa doktorsprófi eða jafngildi þess. Í slíkum tilvikum fylgist umsjónarkennari með vinnu doktorsnema og framvindu, með það fyrir augum að tryggja honum sömu stöðu og öðrum doktorsnemum deildarinnar og jafnframt að nám og leiðsögn sé í samræmi við þessar reglur og Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands.

Hlutverk leiðbeinanda er að sinna leiðsögn við doktorsverkefnið og fylgjast með framgangi þess, sem og að veita ráðgjöf um faglegt og fræðilegt samhengi rannsóknar og verkefnis. Doktorsnemi ráðfærir sig við leiðbeinanda og umsjónarkennara um gerð rannsóknaráætlunar, skipulag námsins, val námskeiða, ef við á, og annað sem tengist náminu. Leiðbeinandi aðstoðar jafnframt doktorsnema við að sækja um rannsóknarstyrki og aðstöðu, t.d. vegna rannsóknardvalar erlendis. Ef 60 eininga almennt nám er hluti af doktorsnáminu er leiðbeinandi, og umsjónarkennari, ef við á, ráðgjafi doktorsnema um það nám og í vissum tilvikum leiðbeinandi einstaklingsverkefna hans. [...]1 Auk leiðbeinanda og annarra í doktorsnefnd, sbr. 10. gr., getur doktorsnemi notið leiðsagnar annarra að höfðu samráði við leiðbeinanda og umsjónarkennara.

Gangi samstarf leiðbeinanda og doktorsnema ekki sem skyldi geta annar hvor eða báðir óskað eftir því við doktorsnámsnefnd að nýr leiðbeinandi verði skipaður samkvæmt tillögu deildar. Umsókn er einkum metin á grundvelli rökstuðnings sem henni fylgir og með hliðsjón af möguleikum á að finna annan hæfan leiðbeinanda.

Láti aðalleiðbeinandi af leiðsögn doktorsnema af óviðráðanlegum ástæðum leitast deild við að útvega nýjan leiðbeinanda.

1Breytt með 8. gr. rgl. nr. 1032/2019.

10. gr.  Doktorsnefndir.

[Leiðbeinandi gerir tillögu um skipan doktorsnefndar eigi síðar en við lok fyrsta misseris og sendir framhaldsnámsnefnd deildar til samþykktar. Skipan nefndarinnar er háð staðfestingu doktorsnámsnefndar. Doktorsnefnd skal skipuð tveimur til þremur sérfróðum einstaklingum auk leiðbeinanda og skal a.m.k. einn þeirra ekki vera fastráðinn starfsmaður viðkomandi deildar. Leiðbeinandi er formaður nefndar. Ef umsjónarkennari er annar en leiðbeinandi, sbr. 9. gr., skal hann taka sæti í doktorsnefnd. Leiðbeinandi fylgist grannt með vinnu doktorsnema og veitir leiðsögn þangað til hann telur að ritgerð sé tilbúin til varnar. Aðrir nefndarmenn leggja mat á framvindu, gera athugasemdir við drög að doktorsritgerð og/eða einstökum köflum og taka þátt í leiðsögn þegar ástæða þykir til. Doktorsnefnd leggur mat á rannsóknaráætlun sem doktorsnemi leggur fram, sbr. 7. gr. Doktorsnefnd og doktorsnemi funda eftir því sem þörf krefur á námstímanum en að jafnaði ekki sjaldnar en hálfsárslega í tengslum við skil á framvinduskýrslu.]1

Þegar doktorsnefnd telur ritgerð tilbúna til varnar skilar hún rökstuddu áliti, sem allir nefndarmenn staðfesta, til deildar um að doktorsnemi geti lagt ritgerð fram til doktorsvarnar. Sé doktorsnefnd ekki sammála skal meirihluti ráða og er atkvæði formanns oddaatkvæði. [...]1

1Breytt með 9. gr. rgl. nr. 1032/2019.

11. gr.  Skil, framsetning og frágangur doktorsritgerða.

Doktorsnemi gerir grein fyrir rannsóknum sínum og niðurstöðum í ritgerð sem skal alla jafna [ekki vera lengri en 100.000 orð.]1 Þó má doktorsnámsnefnd veita undanþágu frá þessum lengdarmörkum í sérstökum tilvikum. Til doktorsritgerða eru gerðar kröfur um vísindaleg vinnubrögð og sjálfstætt framlag til þekkingarsköpunar á fræðasviðinu.

Doktorsritgerð á Hugvísindasviði er eitt heildstætt og samfellt verk eða safn greina. Ef um safn greina er að ræða skulu þær hafa birst eða staðfest að þær hafi verið samþykktar til birtingar á viðurkenndum ritrýndum vettvangi. Þær skulu varða sama rannsóknarsvið og mynda heild. Semja skal sérstaka yfirlitsgrein eða inngangskafla þar sem farið er yfir aðferðafræði og kenningagrunn heildarverksins, dregið saman efni hinna einstöku ritgerða, settar fram heildarályktanir eða efni þeirra tengt með öðrum fræðilegum hætti. Hinar birtu greinar, jafnan 3-5, skulu lagðar fram efnislega óbreyttar frá birtri/samþykktri útgáfu.

[Þegar doktorsnefnd telur ritgerð tilbúna til varnar og skrifstofa hugvísindasviðs hefur gengið úr skugga um að námsferill doktorsefnis og frágangur ritgerðar séu fullnægjandi skal doktorsnemi ganga frá prófarkalesnu handriti, sem sé fullbúið að efni og innihaldi, og skila rafrænu eintaki til deildar.]1 Við frágang og meðferð heimilda skal doktorsefni fylgja viðurkenndum reglum um vísindalegar ritsmíðar. Forsíða ritgerðar skal bera auðkenni Háskóla Íslands. Ef um sameiginlega doktorsgráðu er að ræða með öðrum háskóla eða háskólum samkvæmt samningi þar um, ber forsíða ritgerðar auðkenni beggja eða allra háskóla sem hlut eiga að máli. Hugvísindastofnun getur sett frekari ákvæði um útlit ritgerða í verklagsreglum. [Um frágang vísast til leiðbeininga Hugvísindasviðs.]1

Skýrt skal koma fram að verkefnið sé unnið við Háskóla Íslands, tilgreina skal leiðbeinanda og aðra í doktorsnefnd, fræðasvið og deild, og geta skal sjóða og annarra sem styrkt hafa verkefnið og þeirra stofnana eða fyrirtækja sem doktorsefni hefur tengst við vinnslu þess. Ritgerð skal að jafnaði vera á íslensku eða ensku með stuttu ágripi á báðum tungumálunum. Skylt er að auki að taka saman ítarlegri útdrátt á íslensku, sé ritgerðin skrifuð á öðru máli, en á ensku sé ritgerðin skrifuð á [öðru máli en ensku.]1 Þegar ritgerð er skrifuð á öðru tungumáli en íslensku eða ensku bætist við [stutt ágrip]1 á viðkomandi máli. Vörn fer að jafnaði fram á sama tungumáli og ritgerð er skrifuð á.

[Þegar andmælendur hafa fallist á að ritgerð sé tæk til varnar og viðkomandi deild í kjölfarið ákveðið að doktorsvörn skuli fara fram skal doktorsefni skila rafrænu eintaki af endanlegri gerð hennar. Um frágang vísast til leiðbeininga Hugvísindasviðs. Eftir að doktorsnafnbót hefur verið veitt skal ritgerð vistuð á stafrænu formi í gagnasafninu Opin vísindi (opinvisindi.is), sbr. 13. gr. Kjósi höfundur að hafa ritgerðina lokaða í Opnum vísindum skal hann skila einu prentuðu eintaki til Háskólabókasafns og einu eintaki til skrifstofu Hugvísindasviðs.]1

1Breytt með 10. gr. rgl. nr. 1032/2019.

12. gr.  Andmælendur.

[Sjái doktorsnámsnefnd engin tormerki á því að ritgerð sé lögð fram til doktorsvarnar skipar hún, að tilnefningu deildar og að fenginni staðfestingu Miðstöðvar framhaldsnáms, tvo andmælendur við munnlega vörn ritgerðarinnar. Andmælendur skulu uppfylla viðmið um hæfi og faglega hæfni sem gerð eru til andmælenda og tiltekin eru í gildandi viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands. Einungis þeir sem hafa lokið doktorsprófi eða áunnið sér jafngildi þess geta verið andmælendur við doktorsvarnir hjá deildum Hugvísindasviðs. Andmælendur fá skipunarbréf með upplýsingum um doktorsnám við Háskóla Íslands og leiðbeiningum um mat ritgerðar og vörn frá formanni doktorsnámsnefndar eigi síðar en með eintaki af ritgerð sem þeir fá til mats.]1

Ekki er heimilt að andmælendur við doktorsvörn hafi átt sæti í doktorsnefnd. Doktorsnemi og doktorsnefndarmenn skulu ekki vera í beinum samskiptum við andmælendur um doktorsritgerðina.

1Breytt með 11. gr. rgl. nr. 1032/2019.

13. gr.  Námsmat og doktorsvörn.

Í síðasta lagi tveimur mánuðum eftir að andmælendur fá ritgerðina í hendur er gert ráð fyrir að þeir hafi sent rökstudda umsögn um hvort þeir telji að ritgerðin sé 1) tæk til varnar, 2) tæk til varnar með nauðsynlegum breytingum eða 3) ekki tæk til varnar. Komist andmælendur ekki að samkomulagi um hvort ritgerð sé tæk til varnar er doktorsnámsnefnd heimilt, í samráði við námsbraut/deild og Miðstöð framhaldsnáms, að skipa nýja andmælendur.

Telji andmælendur að gera þurfi breytingar á ritgerðinni til að hún teljist tæk til varnar fær doktorsefni tækifæri til að bregðast við gagnrýni og laga ritgerðina og senda doktorsnámsnefnd nýja gerð, sem kemur henni í hendur andmælenda. Með nýrri gerð skal fylgja greinargerð um hverju hafi verið breytt til að mæta athugasemdum andmælenda. Skal það að jafnaði gert innan sex vikna frá svari andmælenda. Það er forsenda þess að doktorsvörn sé haldin að andmælendur hafi staðfest við doktorsnámsnefnd að viðbrögð við aðfinnslum séu fullnægjandi að þeirra mati. Gert er ráð fyrir að andmælendur staðfesti þetta innan tveggja vikna frá því þeir fá endurskoðaða ritgerð í hendur.

[Telji andmælendur að ritgerð sé ekki tæk til varnar skal málinu skotið til deildar. Doktorsefni skal undir öllum kringumstæðum fá tækifæri til að gera endurbætur á ritgerð eða, ef svo ber undir, að skila alveg nýrri ritgerð í samstarfi við leiðbeinanda og doktorsnefnd. Alla jafna skal skipa nýja andmælendur til að meta nýja ritgerð.]1

Uni doktorsefni ekki niðurstöðu andmælenda getur hann skotið máli sínu til deildar, sbr. nánar 50. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

[Endanleg gerð ritgerðar skal send andmælendum eigi síðar en fjórum vikum áður en vörn fer fram og skal hún jafnframt gerð aðgengileg á Opnum vísindum eða, kjósi höfundur að loka ritgerð, liggja frammi á skrifstofu Hugvísindasviðs og Háskólabókasafni fram að vörn. Ekki er heimilt að gera efnislegar breytingar á ritgerðinni eftir að hún hefur verið metin tæk til varnar. Um frágang ritgerðar er kveðið á í 11. gr.]1

Doktorsefni skal verja ritgerð sína í háskólanum í heyranda hljóði á þeim degi sem viðkomandi deildarforseti ákveður, alla jafna eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að andmælendur hafa metið hana tæka til varnar. Ritgerð skal dæmd og varin samkvæmt reglum Háskóla Íslands um doktorspróf. Deildarforseti stýrir doktorsvörn. [...]1 Að lokinni munnlegri vörn ákveður deildarforseti ásamt andmælendum hvort veita skuli doktorsnafnbót. [Verði ágreiningur fer um hann samkvæmt verklagsreglu sem háskólaráð setur, sbr. 70 gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.]2 Fulltrúar stúdenta á deildarfundum eiga ekki atkvæðisrétt um mál er varða veitingu doktorsnafnbóta. [Ákveði andmælendur og deildarforseti að veita ekki doktorsnafnbót skal ritgerð sem birt hefur verið í Opnum vísindum lokað.]1

Ekki eru gefnar einkunnir fyrir doktorspróf.

1Breytt með 12. gr. rgl. nr. 1032/2019.
2Breytt með 1. gr. rgl. nr. 1537/2021

14. gr.  Tengsl við aðra háskóla og önnur svið Háskóla Íslands.

Hluta doktorsnáms má taka við aðrar deildir og svið Háskóla Íslands en doktorsnemi er skráður við, aðra háskóla eða viðurkenndar rannsókna- eða vísindastofnanir. Jafnframt er heimilt að veita doktorsgráðu sameiginlega með öðrum deildum og sviðum Háskóla Íslands eða öðrum háskóla. Í slíkum tilfellum kemur til greina að haga doktorsvörn í samræmi við hefðir beggja aðila, eins og um semst hverju sinni. Ritari doktorsnámsnefndar annast samskipti við samstarfsskóla í samráði við Miðstöð framhaldsnáms.

15. gr.  Lærdómstitill.

Doktorspróf frá deildum Hugvísindasviðs, að undangengnu doktorsnámi samkvæmt reglum þessum, veitir lærdómstitilinn Philosophiae Doctor (Ph.D.). Þó geta þeir sem ljúka doktorsprófi í guðfræði valið á milli lærdómstitlanna Philosophiae Doctor (Ph.D.) og Doctor Theologiae (Dr. Theol.). Skal [tiltaka]1 á skírteini hvaða fræðigrein doktorsprófið tilheyrir.

1Breytt með 13. gr. rgl. nr. 1032/2019.

II. KAFLI  Doktorspróf án undangengins skipulagðs náms.

16. gr.  Doktorspróf án undangengins skipulagðs náms.

Doktorspróf án undangengins skipulagðs náms er fólgið í samningu ritgerðar eða safns ritgerða og munnlegri vörn, sbr. 70. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Doktorsefni skal hafa lokið meistaraprófi eða jafngildu námi í þeirri fræðigrein sem doktorsritgerðin heyrir til, eða tengdri grein. Til doktorsritgerðar eru gerðar kröfur um vísindaleg vinnubrögð og frumlegt framlag doktorsefnisins til viðkomandi vísindagreinar. Heimilt er að leggja fram safn ritrýndra greina sem hafa verið birtar eð samþykktar til birtingar, nema annað sé tekið fram í sérreglum deilda, og verða greinarnar að varða sama meginrannsóknarsvið og mynda heild. Semja skal sérstaka yfirlitsritgerð, þar sem dregið er saman efni hinna einstöku ritgerða og settar fram heildarályktanir. Sjá nánar 1. og 2. mgr. 11. gr., um framsetningu og frágang doktorsritgerða.

Umsókn um að þreyta doktorspróf skal stíluð til viðkomandi deildar. Með umsókninni [skal fylgja rafrænt eintak]1 af framlagðri ritgerð. Einnig skulu fylgja með umsókninni umsagnir þriggja aðila um það hvaða þýðingu telja megi að ritgerðin hafi fyrir fræðasamfélagið og rannsóknir á viðkomandi sviði. Umsagnaraðilar skulu vera viðurkenndir sérfræðingar á fræðasviðinu.

Varði ritgerð grein hugvísinda sem ekki er lögð stund á við Háskóla Íslands er deild heimilt að synja umsækjanda um mat á ritgerð á þeim grundvelli.

[Reynist ekki unnt að fá hæfa dómnefndarmenn til að meta ritgerð er deild heimilt að synja umsækjanda um mat á ritgerð á þeim grundvelli.]1

Deildarforseti leitar umsagnar viðeigandi námsbrautar/deildar á ritgerðinni og umsögnum sem henni fylgja og gerir tillögu til doktorsnámsnefndar um afgreiðslu. Nefndin tekur afstöðu til þess hvort umsóknin uppfyllir gæðakröfur, m.a. með hliðsjón af viðmiðum sem gilda um doktorsnám. Þess skal sérstaklega gætt að doktorsritgerð hafi að geyma ítarlega umfjöllun um stöðu þekkingar á fræðasviðinu. Nefndin getur aflað viðbótarumsagna ef þess er þörf til þess að meta megi umsóknina út frá þeim atriðum sem að ofan greinir. Ef úrbóta er þörf upplýsir nefndin umsækjanda um það, en skipar ella, að fenginni tilnefningu deildar, þriggja manna dómnefnd til að meta vísindagildi ritsmíða þeirra, er fylgja umsókninni. Í dómnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa doktorsprófi eða áunnið sér jafngildi þess, nema því verði ekki við komið. Æskilegt er að einn eða fleiri meðlimir dómnefndar séu utan háskólans þar sem andmælendur koma alla jafna úr þessum hópi. Dómnefnd skilar skriflegu og rökstuddu áliti til doktorsnámsnefndar. Álit dómnefndar eða meirihluta hennar skal vera afdráttarlaust um hvort ritgerðin uppfylli þær kröfur sem gera verður til doktorsritgerða. Sé ágreiningur innan dómnefndar er minnihluta heimilt að gera grein fyrir afstöðu sinni með séráliti. Sé dómnefnd sammála skal hún skila einu áliti.

Ef meirihluti dómnefndar telur að rit sem umsækjandi hefur lagt fram fullnægi ekki kröfum þeim sem gera verður til doktorsritgerða skal synja umsækjanda um að ganga undir doktorspróf. Telji meirihluti dómnefndar hins vegar ritið vera fullnægjandi ákveður doktorsnámsnefnd, í samráði við viðeigandi deild, hvort veita skuli umsækjanda kost á að þreyta prófið.

Telji doktorsnámsnefnd ritgerðina tæka til doktorsvarnar tilnefnir hún, að tilnefningu deildar og [að fengnu samþykki]1 Miðstöðvar framhaldsnáms, tvo andmælendur við munnlega vörn ritgerðarinnar. Andmælendur skulu alla jafna hafa setið í dómnefnd. Um námsmat og doktorsvörn gildir 13. gr. reglna þessara.

Um lærdómstitil fer eftir 15. gr.

1Breytt með 14. gr. rgl. nr. 1032/2019.

III. KAFLI  [Mála- og menningardeild.]1

1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 1155/2016.

17. gr.  Námsleiðir og tungumál.

Við [Mála- og menningardeild]1 er boðið upp á doktorsnám í annarsmálsfræðum, dönsku, ensku, frönskum fræðum, spænsku og þýsku. Doktorsritgerð skal vera skrifuð á því tungumáli sem við á.

1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 1155/2016.

18. gr.  Einingafjöldi.

Doktorspróf við [Mála- og menningardeild]1 byggist á doktorsritgerð sem nemur 180 einingum.

1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 1155/2016.

IV. KAFLI  Guðfræði- og trúarbragðafræðideild.

19. gr.  Námsleiðir.

Við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild er boðið upp á doktorsnám í guðfræði.

20. gr.  Einingafjöldi.

Doktorspróf við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild byggist á doktorsritgerð sem nemur 180 einingum.

21. gr.  Tungumál.

Doktorsritgerðir við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild skulu almennt skrifaðar á íslensku eða ensku, en þó kemur til greina að ritgerðir séu skrifaðar á dönsku, norsku eða sænsku og að þau tungumál séu notuð við doktorsvarnir.

22. gr.  Viðbótarkröfur til mag. theol.-nema.

Umsækjendur um doktorsnám við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild er lokið hafa mag. theol.-prófi frá deildinni skulu ljúka MA-námi við deildina. Námið skal samanstanda af aðferðafræðinámskeiðum á meistarastigi (F-námskeiðum) á sviði hug- og/eða félagsvísinda, að lágmarki 20 ein., og 30 ein. rannsóknarritgerð. Heimilt er að ritgerðin fjalli um skylt efni og fyrirhuguð doktorsritgerð, sbr. nánar námsskipunarreglur um meistara- og doktorsnám við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Heimilt er að meta allt að 60 einingar úr mag. theol.-námi eða cand. theol.-námi umsækjenda sem hluta náms til MA-prófs í guðfræði.

V. KAFLI  Íslensku- og menningardeild.

23. gr.  Námsleiðir.

Við Íslensku- og menningardeild er boðið upp á doktorsnám í almennri bókmenntafræði, íslenskri málfræði, íslenskum bókmenntum, menningarfræði og þýðingafræði.

24. gr.  Einingafjöldi.

Doktorspróf við Íslensku- og menningardeild byggist á 240 eininga námi. Skiptist það í 60 eininga almennan hluta og 180 eininga doktorsritgerð. Almennur hluti doktorsnámsins ásamt alhliða þjálfun er samsettur úr formlegum námskeiðum, einstaklingsverkefnum, fyrirlestrum, fræðilegum greinum og háskólakennslu, samkvæmt nánari ákvörðun deildar. [Deildin birtir við­mið um mat eininga fyrir einstaka þætti almenna hlutans.]1

Heimilt er að taka tillit til þeirrar reynslu eða undirbúnings sem doktorsnemi hefur aflað sér á ofangreindum sviðum áður en hann hóf formlegt doktorsnám. Námskeið sem voru hluti af MA-námi doktorsnemans og námskeið sem honum kann að vera gert að taka til að uppfylla skilyrði um undirbúning, sbr. 4. grein, geta þó ekki gilt sem þáttur í hinum almenna hluta doktorsnámsins.

Doktorsnefnd metur hvenær doktorsnemi hefur lokið hinum almenna hluta doktorsnámsins og leggur mat sitt fyrir doktorsnámsnefnd til samþykktar. Æskilegt er að doktorsnemi ljúki sem fyrst þeim formlegu námskeiðum sem hann hyggst taka sem hluta af sínu almenna námi og að jafnaði eigi síðar en við lok fjórða misseris, enda eiga þau að þjóna sem undirbúningur fyrir ritun doktorsritgerðarinnar. Leiðbeinandi doktorsnema skal fylgjast með því að hinn almenni þáttur doktorsnámsins dragist ekki úr hömlu.

1Breytt með 15. gr. rgl. nr. 1032/2019.

25. gr.  Tungumál.

Doktorsritgerðir við Íslensku- og menningardeild skulu almennt skrifaðar á íslensku eða ensku, en þó er hægt að sækja um að ritgerð sé skrifuð á öðru máli, einkum ef um er að ræða sameiginlega doktorsgráðu með erlendum háskóla.

VI. KAFLI  [Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði.]1

1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 516/2022.

26. gr.  Námsleiðir.

Við [Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði]1 er boðið upp á doktorsnám í fornleifafræði, heimspeki, sagnfræði og hagnýtri siðfræði.
1Breytt með 2. gr. rgl. nr. 516/2022.

27. gr.  Einingafjöldi.

Doktorspróf við [Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði]1 byggist á doktorsritgerð sem nemur 180 einingum.
1Breytt með 3. gr. rgl. nr. 516/2022.

28. gr.  Tungumál.

Doktorsritgerðir við [Deidl heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði]1 skulu almennt skrifaðar á íslensku eða ensku, en þó er hægt að sækja um að ritgerð sé skrifuð á öðru máli, einkum ef um er að ræða sameiginlega doktorsgráðu með erlendum háskóla.
1Breytt með 4. gr. rgl. nr. 516/2022.

VII. KAFLI  Gildistaka o.fl.

29. gr.  Gildistaka.

Reglur þessar eru settar af háskólaráði með heimild í 3. mgr. 18. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Reglurnar hafa verið samþykktar af Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, Íslensku- og menningardeild, Sagnfræði- og heimspekideild, stjórn Hugvísindasviðs og Miðstöð framhaldsnáms, sbr. 66. og 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi III. kafli reglna nr. 154/2011 um meistara- og doktorsnám við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Ákvæði um meistaranám í reglum nr. 154/2011 halda gildi sínu þar til nýjar reglur um meistaranám hafa verið settar.

Háskóla Íslands, 8. desember 2015.