Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 6. október 2022

10/2022

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2022, fimmtudaginn 6. október var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Davíð Þorláksson (á fjarfundi), Hólmfríður Garðarsdóttir, Guðvarður Már Gunnlaugsson (varamaður fyrir Arnar Þór Másson og Þorvald Ingvarsson), Katrín Atladóttir, Katrín Björk Kristjánsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Rebekka Karlsdóttir (varamaður fyrir Brynhildi Ásgeirsdóttur), Silja Bára R. Ómarsdóttir og Vilborg Einarsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki.

2.    Fjármál. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a.    Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2023. Staða mála. Minnisblað.
Jenný Bára gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2023. Málið var rætt.

Jenný Bára vék af fundi.

b.    Samstarfssjóður háskóla.
Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi nýjan samstarfssjóð háskóla sem settur hefur verið á stofn að undirlagi ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar. Málið var rætt ítarlega og verður áfram á dagskrá.

c.    Málefni tengd skýrslu Ríkisendurskoðunar frá desember 2021, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Rektor gerði grein fyrir málinu í framhaldi af ákvörðun síðasta fundar ráðsins. Málið var rætt og svöruðu rektor og Sigurður Magnús spurningum.

Sigurður Magnús vék af fundi.

3.    Fasteignamál Háskóla Íslands.
a.    Málefni Fasteigna Háskóla Íslands ehf.

Inn á fundinn komu Daði Már Kristófersson, prófessor og formaður stjórnar Fasteigna Háskóla Íslands ehf., og Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor og fulltrúi í stjórn félagsins. Daði Már, Ingibjörg og Guðmundur R., sem einnig er fulltrúi í stjórn, gerðu grein fyrir starfi félagsins og var málið rætt.

Daði Már og Ingibjörg viku af fundi.

b.    Eignir sem ekki falla undir Fasteignir Háskóla Íslands ehf.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og gerði grein fyrir framlögðu yfirliti um eignir Háskóla Íslands sem ekki eru hluti af fasteignafélagi skólans, þ.e. Herdísarvík í Selvogi, Skólabæ við Suðurgötu í Reykjavík, og Halldórsstöðum í Laxárdal í Suður-Þingeyjarsýslu. Málið var rætt, þ.m.t. möguleg notkun eða önnur ráðstöfun eignanna. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

Kristinn vék af fundi.

Kaffihlé.

4.    Funda- og starfsáætlun háskólaráðs fyrir starfsárið 2022-2023, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir uppfærðum drögum að funda- og starfsáætlun háskólaráðs fyrir starfsárið 2022-2023 sem kynnt voru á síðasta fundi ráðsins. Málið var rætt.
– Samþykkt einróma.

5.    Stefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026, HÍ26.
Inn á fundinn kom Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, og gerði grein fyrir framvindu stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026, HÍ26. Málið var rætt og svaraði Steinunn spurningum fulltrúa í háskólaráði.

Steinunn vék af fundi.

6.    Aurora samstarfið. Staða umsóknar.
Inn á fundinn komu Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, og Fanney Karlsdóttir, nýráðinn verkefnisstjóri Aurora samstarfsins við Háskóla Íslands. Rektor og Halldór gerðu grein fyrir samstarfinu, sem Háskóli Íslands leiðir f.h. hóps tíu evrópskra háskóla, og stöðu umsóknar um framhaldsstyrk til þess næstu árin. Málið var rætt.

7.    Bókfærð mál
a.    Tillaga að breytingu á reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Varðar valnefndir vegna sameiginlegra starfa.

– Samþykkt.

b.    Sproti – eignarhaldsfélag Háskóla Íslands ehf. Tillaga um fulltrúa í stjórn, ásamt drögum að stofnskrá og stofngerð, sbr. fundi háskólaráðs 13. janúar og 5. maí sl.
– Samþykkt. Fulltrúar í stjórn verða Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og prófessor, formaður, Arnar Þór Másson, ráðgjafi, og Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor.

c.    Málefni Háskólabíós.
– Samþykkt að málið verði áfram á dagskrá háskólaráðs.

d.    Breytt skipan framkvæmdanefndar vegna nýbyggingar fyrir Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands við Læknagarð og endurbóta á Læknagarði, ásamt erindisbréfi.
– Samþykkt. Unnur Þorsteinsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, tekur sæti Ingu Þórsdóttir, sem lét af störfum sviðsforseta í lok júní sl. Í framkvæmdanefndinni sitja Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu HÍ, formaður, Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs HÍ, Ólafur Pétur Pálsson, prófessor, fulltrúi í háskólaráði HÍ, Unnur Þorsteinsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, Kristján Guðmundsson, fulltrúi stúdenta við Heilbrigðisvísindasvið, og Thorana Elín Dietz, mannauðsstjóri Heilbrigðisvísindasviðs. Þá starfa með nefndinni Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor við Lyfjafræðideild, Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri, og Bjargey Björgvinsdóttir, verkefnastjóri.

e.    Breyting á upplýsingaöryggisstefnu Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

8.    Mál til fróðleiks.
a.    Bréf stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. til ráðherra varðandi djúptæknikjarna, dags. 21. september 2022.
b.    Samningar Háskóla Íslands við Stúdentaráð Háskóla Íslands, dags. 29. september 2022.
c.    Endurnýjaður samstarfssamningur við University of Minnesota, dags. 15. september 2022.
d.    Freysteinn Sigmundsson heiðursfélagi í American Geophysical Union (AGU).
e.    Glærur frá upplýsingafundi rektors 21. september 2022.
f.    Rektor Háskóla Íslands leiðir fund norrænna rektora með ESB.
g.    Fréttabréf Háskólavina, dags. 29. september 2022.
h.    Viljayfirlýsing á milli Háskóla Íslands og Geimvísindastofnunar Íslands, dags. 8. september 2022.
i.    Stúdentar og HÍ26.

j.    Háskóli Íslands hlýtur viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.50.