Skip to main content
26. september 2022

Rektor Háskóla Íslands leiðir fund norrænna rektora með ESB

Rektor Háskóla Íslands leiðir fund norrænna rektora með ESB - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, flutti opnunarávarp á Norrænum háskóladögum í Brussel í dag en þar funda nú rösklega 60 rektorar frá Norðurlöndum með fulltrúum frá framkvæmdastjórn ESB, Evrópska rannsóknaráðinu, fastafulltrúum og sendinefndum ESB og Evrópuþinginu. 

Ísland leiðir Norræna háskólanetið (NUS) til ársins 2024 og er því í forsvari fyrir ráðstefnuna. Jón Atli er forseti NUS og þar með í lykilhlutverki á ráðstefnunni.

Á ráðstefnunni gefst ráðamönnum innan norrænna háskóla kjörið tækifæri til að ræða við fulltrúa ESB um norrænar áherslur í málefnum háskóla, vísinda og nýsköpunar og samhliða því þungann í framtíðarstefnumótun í rammaáætlunum ESB, Horizon Europe og Erasmus+.

Áframhaldandi árangur á Norðurlöndum

Á ráðstefnunni verður áherslan á áframhaldandi árangur norrænna háskóla sem raða sér margir meðal þeirra fremstu í heimi á viðurkenndum matslistum. Þá verður akademískt frelsi í fókus þar sem umræðan mun m.a. snúast um háskóla í hnattrænni þróun og vísindalega stefnumótun með augun á innleiðingu sameiginlegs evrópsks rannsókna- og menntasvæðis. 

Fjöldi erinda verður á fundinum og mörg hver snúast um framtíðarsýn í evrópskum rannsóknum, nýsköpun og menntun. Allt þetta tengist evrópskri framtíðarsýn fyrir æðri menntun til ársins 2030. 

Til staðar er evrópsk áætlun fyrir háskóla þar sem áhersla er lögð á aukna samvinnu þeirra á milli með möguleika á stafrænni umbyltingu í kjarnastarfi háskólanna og samvinnu á sviði vísinda, nýsköpunar og kennslu. Fjölmargir háskólar álfunnar, þar með talið norrænir háskólar, hafa nú þegar stofnað net um þess konar samstarf. Háskóli Íslands er einmitt leiðandi í slíku samstarfi innan Aurora-netsins þar sem Jón Atli gegnir einnig formennsku. Í netinu eru tíu evrópskir háskólar með áherslur á sameiginlegan árangur á sviði allra kjarnaþátta í háskólastarfi. 

Norrænir háskóladagar voru fyrst haldnir árið 2019 og eru alla jafna haldnir annað hvert ár en heimsfaraldur COVID-19 hefur haft þau áhrif að viðburðinum hefur ítrekað verið slegið á frest. 
 

Jón Atli Benediktsson í Brussel