Skip to main content
6. desember 2021

Yfir 70 milljónir í styrki til menntarannsókna

Yfir 70 milljónir í styrki til menntarannsókna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fjórir fræðimenn og doktorsnemar við Háskóla Íslands hafa hlotið styrki úr Menntarannsóknasjóði til rannsókna sem snerta m.a. nemendur með fjölbreyttan tungumálabakgrunn, brottfall úr framhaldsskólum og styttingu námstíma til stúdentsprófs. Samanlögð upphæð styrkjanna nemur um 72,5 milljónum króna.

Menntarannsóknarsjóður, sem vistaður er hjá Rannís, styður hagnýtar menntarannsóknir á sviði leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, náms á framhaldsskólastigi og frístundastarfs. Markmiðið með sjóðnum er m.a. að auka tækifæri til að skapa og miðla þekkingu til framþróunar og umbóta í skólastarfi og styðja við framkvæmd menntastefnu til 2030.

Í ár var ákveðið að leggja áherslu á að styrkja rannsóknir sem tengjast þremur viðfangsefnum:

  • Námi og kennslu nemenda með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn.
  • Skólaforðun og brotthvarf úr námi.
  • Námi og kennslu í náttúrugreinum, raungreinum eða tæknigreinum.

Menntarannsóknasjóði bárust alls 23 gildar umsóknir, 14 um rannsóknaverkefni og 9 frá doktorsnemum. Niðurstaða mennta- og menningarmálaráðherra, að fengnu mati fagráðs og með hliðsjón af tillögu úthlutunarnefndar, var að styrkja tvær umsóknir í hvorum flokki. Allar tengjast þær verkefnum á vegum starfsfólks og nemenda Háskóla Íslands:

  • Kathryn Margaret Crowe, aðjunkt í talmeinafræði, hlýtur styrk til verkefnisins „Orðaheimurinn á Íslandi“. 
  • Kristjana Stella Blöndal, dósent í náms- og starfsráðgjöf, hlýtur styrk til verkefnisins „Margbreytileiki brotthvarfsnemenda: Raddir nemenda“.
  • Heiður Hrund Jónsdóttir, doktorsnemi í félagsfræði , hlýtur styrkt til verkefnisins „Sjálfsmynd og skólaviðhorf nemenda í tengslum við skuldbindingu þeirra og brotthvarf frá námi: Langtímarannsókn á meðal framhaldsskólanema“.
  • María Jónasdóttir, doktorsnemi í menntvísindum, hlýtur styrk til verkefnsisins „Stytting námstíma stúdentsprófsbrauta: Áhrif á inntak bóklegs náms á framhaldsskólastigi og áframhaldandi nám á háskólastigi“
     
Þær Kathryn Margaret Crowe, Kristjana Stella Blöndal, Heiður Hrund Jónsdóttir og María Jónasdóttir hlutu allar styrk úr Menntarannsóknasjóði.