Skip to main content
30. janúar 2023

Yfir 60 styrkir úr Rannsóknasjóði Íslands til vísindafólks HÍ

Yfir 60 styrkir úr Rannsóknasjóði Íslands til vísindafólks HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vísindamenn og doktorsnemar við HÍ koma að á sjöunda tug rannsóknarverkefna sem hlutu styrk úr Rannsóknasjóði Íslands fyrir árið 2023. Þar á meðal eru fjórir öndvegisstyrkir sem eru hæstu styrkir sem veittir eru hér á landi til vísinda. Tilkynnt var um styrkveitingar úr sjóðnum föstudaginn 27. janúar.

„Ég óska öllum styrkþegum innan Háskóla Íslands og samstarfsfólki þeirra innilega til hamingju með styrkina. Við sjáum það ár eftir ár að samkeppnin um styrki úr Rannsóknasjóði er gríðarhörð og árangur vísindamanna og annars starfsfólks skólans er því afar glæsilegur. Ég vil um leið þakka öllum þeim sem lögðu mikla vinnu í umsóknir um styrki úr sjóðnum. Úthlutunarhlutfall úr honum er því miður lágt og því stór hópur sem ekki hlaut styrk að þessu sinni. Það hefur sýnt sig að fjárfesting í vísinda- og rannsóknastarfi skilar sér margfalt til baka til samfélagsins og því er afar brýnt að efla enn frekar stuðning við vísindafólk í gegnum samkeppnissjóði eins og Rannsóknasjóð Íslands,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Rannsóknasjóður Íslands er samkeppnissjóður hýstur hjá Rannís og styrkir verkefni á öllum sviðum vísinda, jafnt doktorsverkefni sem öndvegisverkefni en það eru rannsóknarverkefni sem eru líkleg til að skila íslenskum rannsóknum í fremstu röð á alþjóðavettvangi.

Alls bárust Rannsóknasjóði nærri 340 gildar umsóknir að þessu sinni og voru 74 styrktar eða eða 22% umsókna. Samanlögð styrkupphæð nemur 1,2 milljörðum króna en fram kemur á vef Rannís að þar sem styrkt verkefni séu almennt til þriggja ára verði heildarkostnaður vegna þeirra um 3,4 milljarðar króna á árunum 2023-2025. 

Að þessu sinni bárust 20 umsóknir um öndvegisstyrki og voru fjórar rannsóknir styrktar. Vísindafólk við HÍ á aðild að þeim öllum: 

•    Hanna Ragnarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið, og Magnús Þorkell Bernharðsson, gestadósent við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, hljóta styrk til verkefnisins „Saman eða sundruð? Menntun og félagsleg þátttaka flóttabarna og -ungmenna á Íslandi“.
•    Hannes Petersen, prófessor við Læknadeild, og þau Paolo Gargiulo, Anna Sigríður Islind og María Kristín Jónsdóttir, sem öll starfa við Háskólann í Reykjavík, hljóta styrk til verkefnisins „Postural control signature: Advance assessment and diagnostic using the BioVRSea paradigm“.    
•    Freysteinn Sigmundsson, vísindamaður við Raunvísindastofnun Háskólans, og Michelle Maree Parks, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, hljóta styrk til verkefnisins „Áhrif hopandi jökla í kjölfar loftslagsbreytinga á jarðskjálfta og eldvirkni“.
•    Kristinn Andersen, prófessor við Rafmagn- og tölvuverkfræðideild, og Ian F. Akyildiz, gestaprófessor við sömu deild, hljóta styrk til verkefnisins „HAF: Róbótanet neðansjávarskynjara með fjölháttatengingum og aflhleðslu“.

Rannsóknasjóður veitir enn fremur verkefnisstyrki til rannsókna í sjö flokkum. Að þessu sinni bárust 156 umsóknir um slíka styrki og fengu aðstandendur 34 þeirra styrk. Vísindamenn við HÍ og tengdar stofnanir koma að 26 styrktra umsókna en þær snerta m.a. efnafræði, eðlisfræði, stærðfræði, iðnaðar- og vélaverkfræði, lyfjafræði, lífvísindi, sálfræði, næringarfræði, læknisfræði, viðskiptafræði, stjórnmálafræði, safnafræði, náms- og starfsráðgjöf, miðaldabókmenntir, heimspeki og íslenska málfræði.

Þá voru veittir tíu nýdoktorastyrkir úr Rannsóknasjóði og koma þeir allir í hlut nýdoktora sem starfa munu við Háskóla Íslands m.a. á sviði eðlisfræði, lífvísinda og líffræði, stjórnmálafræði, sagnfræði og fornleifafræði.  

Rannsóknasjóði bárust enn fremur 111 umsóknir um doktorsnemastyrki og hlutu 26 doktorsnemar styrk að þessu sinni.  Tuttugu og þrír þeirra starfa við Háskóla Íslands eða tengdar stofnanir. Doktorsnemarnir eru á öllum fimm fræðasviðum skólans en sérstaka athygli vekur að þrír doktorsemar við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum hljóta styrk að þessu sinni.

Samanlagt eru styrkir til vísindamanna og doktorsnema við HÍ og tengdar stofnanir 63 talsins og má sjá yfirlit yfir allar styrktar rannsóknir á vef Rannís.

 

Aðalbygging HÍ