Skip to main content
23. mars 2021

Vinna saman að aðstöðu til rannsókna og þróunarstarfs á Breiðinni

Vinna saman að aðstöðu til rannsókna og þróunarstarfs á Breiðinni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Skapa á aðstöðu til rannsókna, nemendaverkefna og þróunar- og nýsköpunarstarfs fyrir nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands á Breiðinni á Akranesi samkvæmt viljayfirlýsingu sem Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, og Valdís Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri Breiðar Þróunarfélags, undirrituðu í Hátíðasal Háskóla Íslands í gær. 

Akraneskaupstaður, Breið Þróunarfélag og Háskóli Íslands voru meðal fjölmargra aðila sem gerðu með sér samkomulag síðastliðið sumar um að byggja upp rannsókna- og nýsköpunarsetur og samvinnurými á Breiðinni á Akranesi. Viljayfirlýsingin nú er framhald á þeirri vinnu sem miðar að því að skapa umhverfi fyrir þróunarverkefni sem nýst geta til að takast á við ýmsar áskoranir samtímans sem snerta m.a. tækni, lýðheilsu og umhverfismál. 
Ætlunin er samkvæmt viljayfirlýsingunni að koma upp aðstöðu í húsnæði Breiðar þróunarseturs sem nýst getur nemendum og vísindafólki Háskóla Íslands m.a. til verklegra tilrauna, þróunar og nýsköpunar. 

Sérstök verkefnastjórn, sem skipuð er fulltrúum aðilanna þriggja, mun annast áframhaldandi vinnu að verkefninu. Henni er m.a. ætlað að gera tillögur að því hvernig þróa má aðstöðu og vettvang fyrir framhaldsnema til verkefnavinnu á Breiðinni, hvernig nýta má innviði og tengsl Breiðar Þróunarfélags til kennslu innan tiltekinna námsgreina Háskólans og skoðað verður mögulegt samstarf um kaup og notkun á búnaði sem styrkt getur starfsemi Fab Lab á Akranesi í þágu þróunar- og nýsköpunarverkefna.

Aðilarnir þrír munu vinna saman að fjármögnun verkefnanna, m.a. með því að sækja saman um styrki til þeirra, en gert er ráð fyrir að markmiðum viljayfirlýsingarinnar verði náð innan þriggja ára.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands,  og Valdís Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri Breiðar Þróunarfélags
""
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands,  og Valdís Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri Breiðar Þróunarfélags