Skip to main content
7. október 2022

Viljayfirlýsing undirrituð um fagháskólanám í leikskólafræðum

 Viljayfirlýsing undirrituð um fagháskólanám í leikskólafræðum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ráðherrar háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis, félags-og vinnumarkaðsráðuneytis, rektor Háskóla Íslands, rektor Háskólans á Akureyri, sviðsforseti Menntavísindasviðs HÍ og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga undirrituðu í gær viljayfirlýsingu um þróun og innleiðingu fagháskólanáms í leikskólakennarafræðum á landsvísu á opnunarmálstofu Menntakviku, ráðstefnu Menntavísindasviðs HÍ. Málstofan bar yfirskriftina Hvaða máli skipta menntavísindi?

Markmiðið með viljayfirlýsingunni er að fjölga leikskólakennurum og að fagháskólanámi í leikskólafræðum verði komið á fót og það fest í sessi í öllum landshlutum. Jafnframt er markmiðið að árið 2025 brautskráist að lágmarki 50 úr fagháskólanámi og að meirihluti nemenda haldi áfram í B.Ed.-námi í leikskólafræðum.

Um er að ræða hagnýtt 60 ECTS diplómanám. Námið er ætlað fólki með mikla starfsreynslu úr leikskóla sem ekki hefur lokið stúdentsprófi en hefur vilja og löngun til að bæta við sig þekkingu og hæfni í leikskólastarfi. Þegar diplómanáminu er lokið geta nemendur sótt um og fengið námið metið að fullu sem fyrsta ár af þremur í B.Ed. námi. Þetta er gríðarlega mikilvæg brú fyrir hóp starfsfólks sem fær tækifæri til menntunar og háskólanáms og frábært dæmi um góða samvinnu atvinnulífs og háskóla. Tveir nemendahópar hafa þegar farið í gegnum námið, annarsvegar af Suðurlandi og hins vegar af Suðurnesjum. Það er brýn þörf á að fjölga leikskólakennurum. 

 • Ísland er með lægst hlutfall leikskólakennara af OECD-löndum.
 • Alls vantar um 1.500 leikskólakennara til starfa á landinu eigi að koma til móts við viðmið stjórnvalda að 2/3 af starfsfólk leikskóla séu leikskólakennarar.
 • Í skýrslu um styrkingu leikskólastigsins sem starfshópur á vegum stjórnvalda gaf út árið 2021 var lögð áhersla á að fagháskólanám í leikskólafræðum yrði sett á laggirnar á landsvísu. Sú  viljayfirlýsing sem undirrituð var er mikilvæg eftirfylgni í því að fjölga leikskólakennurum.  

Vonin er sú að með þeirri breiðu samstöðu sem viljayfirlýsingin ber vott um þá verði unnt að bjóða upp á fagháskólanám í hagnýtri leikskólafræði fyrir alla landshluta í góðu samstarfi Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Þá er stefnt að því að endurnýja samning við Keili hvað varðar skipulag og framkvæmd námsins á suðvesturhorni landsins og jafnframt verður leitað samstarfs við sveitarfélög og símenntunarmiðstöðvar landsins. Unnið verður að því að haustið 2023 verði hægt að hefja námið í flestum landshlutum og fer það m.a. eftir því hversu vel undirbúningur og fjármögnun gengur.

Aðilar viljayfirlýsingar:

 • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti
 • Ásmundur Einar Daðason, ráðherra fennta- og barnamálaráðuneyti
 • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, ráðherra félags-og vinnumarkaðsráðuneyti
 • Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands
 • Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri
 • Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Samband íslenskra sveitarfélaga
 • Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs HÍ
   
Frá undiritun viljayfirlýsingarinnar í Stakkahlíð. Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, Kolbrún Þ. Pálsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Áslag Arna Sigurbjörnsdóttir, Guðmundur Ingi Guðbrandssson, Heiða Björg Hilmisdóttir og Eyjólfur Guðmundsson. MYND/Kristinn Ingvarsson