Skip to main content
25. september 2023

Vel sótt ráðstefna um fjöltyngdar fjölskyldur og skólastarf

Vel sótt ráðstefna um fjöltyngdar fjölskyldur og skólastarf - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ráðstefnan Fjöltyngdar fjölskyldur og skólastarf fór fram 21. september á Grand Hotel Reykjavík. Rannsóknarhópur um tungumálastefnu og starfshætti fjölskyldna innflytjenda á Íslandi og áhrif þeirra á menntun stóð fyrir ráðstefnunni ásamt Deild kennslu- og menntunarfræði við HÍ. 
Rannsóknarhópurinn stýrir stórri rannsókn hér á landi sem styrkt er af RANNÍS og var hún kynnt á ráðstefnunni. 
„Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að fjölskyldurnar hafi fjölbreyttar tungumálastefnur og noti ýmsar aðferðir til að styðja við og kenna börnum sínum móðurmálin,“ sagði Hanna Ragnarsdóttir, prófessor í fjölmenningarfræðum við Menntavísindasvið HÍ sem fer fyrir rannsóknarhópnum. 

„Börnin taka virkan þátt í að þróa tungumálastefnur fjölskyldnanna með því m.a. að velja sér tungumál til notkunar í mismunandi samhengi. Nokkur munur er milli lítilla og stærri tungumálahópa þegar kemur að aðgengi að efni og stuðningi við móðurmálin. Einnig er munur á aðgengi að stuðningi í minni sveitarfélögum annars vegar og þeim stærri hins vegar. Niðurstöður benda jafnframt til þess að töluverður munur sé á samstarfi heimila og skóla í einstökum skólum í rannsókninni.”

Tungumálastefna, fjöltyngi og skólastarf var í brennidepli á ráðstefnunni og fyrirlesarar komu frá Svíþjóð, Belgíu, Krít, Noregi, Bretlandi og Kanada og fjölluðu m.a. um móttökudeildir, skólaþróun og menntastefnu, rannsóknir og þróunarverkefni í samstarfi við leik- og grunnskóla, tungumálastefnu, tengsl kennara og foreldra og sjálfsmyndir barna sem alast upp við mörg tungumál. Meðal fyrirlesara var Jim Cummins en hann er vel þekktur fræðimaður og frumkvöðull á þessu sviði. Erindi hans nefndist Multilingual development and literacy socialization: Creating a foundation for educational success in the preschool and primary school years.  
Ráðstefnan var vel sótt af kennurum, stjórnendum á öllum skólastigum, fræðafólki og stefnumótunaraðilum. Um 150 þátttakendur voru í salnum og og  hátt í 100 í streymi.

„Sjónarhorn fyrirlesaranna voru svo ólík, sum komu beint inn á útfærslu stefnumótunar í raun, ræddu kennsluaðferðir, vaxandi hæfni kennara og mikilvægar jákvæðar viðhorfsbreytingar í samfélaginu. En einnig var rætt um togstreitu og einn tók dæmi um harðari stefnu gegn fjöltyngi frá ráðherra í sínu heimalandi. Fyrir okkur sem erum að efla nám og byggja upp námsbraut í Menntun allra var ráðstefnan hafsjór á fróðleik og ég veit að fleiri þátttakendur taka undir það,” sagði,“ segir Kristín Jónsdóttir, forseti Deildar kennslu- og menntunarfræði við HÍ. 

Myndir: Gunnar Sverrisson.

Hanna Ragnarsdóttir, ráðstefna, Fjöltyngdar fjölskyldur og skólastarf
Kristín Jónsdóttir, ráðstefna, Fjöltyngdar fjölskyldur og skólastarf
Artem Ingmar Benediktsson, Fjöltyngdar fjölskyldur og skólastarf
Fjöltyngdar fjölskyldur og skólastarf
Fjöltyngdar fjölskyldur og skólastarf
Fjöltyngdar fjölskyldur og skólastarf
Fjöltyngdar fjölskyldur og skólastarf
Fjöltyngdar fjölskyldur og skólastarf