Taktu þátt í Hjólað í skólann | Háskóli Íslands Skip to main content
3. september 2021

Taktu þátt í Hjólað í skólann

Taktu þátt í Hjólað í skólann - á vefsíðu Háskóla Íslands

Stúdentaráð SHÍ, Háskóli Íslands og Félagsstofnun stúdenta, í samstarfi við Íþrótta- og ólympíusamband Íslands (ÍSÍ), standa fyrir átakinu Hjólað í skólann sem fer fram dagana 6.-17. september. Fyrirmyndin er árlegt átak ÍSÍ, Hjólað í vinnuna, þar sem lögð er áhersla á heilsusamlegan, umhverfisvænan og hagkvæman samgöngumáta til og frá vinnu. Enn fremur er átakinu og keppninni ætlað að styrkja jákvætt og heilbrigt félagslíf í Háskóla Íslands.

Nemendur og starfsfólk eru eindregið hvött til að taka þátt í átakinu og ganga til liðs við sína deild eða sína starfsstöð. Öll geta tekið þátt í Hjólað í skólann svo framarlega sem þau nýta eigin orku til og frá HÍ, þ.e. hjóla, ganga, hlaupa, nota línuskauta o.s.frv. Þau sem nýta almenningssamgöngur geta einnig tekið þátt en þá er skráð sú vegalengd sem gengin eða hjóluð er til og frá stoppistöð.

Í átakinu Hjólað í skólann eru tvær keppnisgreinar:

 • Keppni milli deilda/starfsstöðva þar sem keppt er um flesta þátttökudaga (hlutfallslega m.v. heildarfjölda nemenda/starfsfólks)
 • Kílómetrakeppni þar sem keppt er á milli liða um hlutfall kílómetra m.v. fjölda liðsmanna í liðinu

Skráning fer fram á www.hjolumiskolann.is

 1. Smellt er á gula hnappinn efst hægra megin á síðunni (merktur „Innskráning“). Þeir sem eru að taka þátt í átákinu í fyrsta sinn skrá sig með því að smella á hnappinn „Nýskráning“. Aðrir nýta fyrra notandanafn og lykilorð til að skrá sig inn.
 2. Þegar innskráningu er lokið er farið í flipann „Liðsstjórnun“ við hliðina á „Minn aðgangur“.
 3. Undir „Skráning“ er hægt að velja deild eða starfsstöð með því að ýta á felliglugga og ýta á „áfram“.
 4. Þá blasa við þau lið sem búið er að stofna innan HÍ. Þátttakendur geta ýmist gengið í tiltekið lið undir einstaka deildum/starfsstöðvum sem þegar er búið að stofna eða skráð nýtt lið til leiks.
 5. Til að lið sé sýnilegt í keppninni þurfa að lágmarki 3 manneskjur og hámarki 10 manns að skrá sig í liðið og er það fyrsti liðsmaður á vef Hjólað í skólann sem stofnar og gefur liðinu innan hverrar deildar/starfsstöðvar nafn.
 6. Hægt er að skrá sig til leiks allan tímann á meðan á keppninni stendur.

Sú deild/starfsstöð sem fær flesta innan sinna raða til að ferðast með vistvænum hætti fær sérstakt heiðursskjal frá ÍSÍ enda er það meginmarkið átaksins að vekja athygli á heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta! Það lið sem hjólar hlutfallslega flesta kílómetra miðað við fjölda þátttakenda hlýtur svo glæsilega vinninga í boði Félagsstofnunar stúdenta.

Eftirfarandi hjólreiðaverslanir veita nemendum og starfsfólki afslátt í verslunum sínum á meðan á átakinu stendur, gegn framvísun HÍ-korts.

 • Verslunin TRI, Suðurlandsbraut 32, býður 10% afslátt af öllum hjólavörum.
 • Verslunin GÁP, Faxafeni 7, býður 15% afslátt af hjólaaukahlutum og -fatnaði.
 • Rafhjólasetur Ellingsen, Fiskislóð 1, býður 20% afslátt af hjólaaukahlutum og 25.000 kr. afslátt af hverju keyptu rafhjóli (ath. gildir ekki um rafhlaupahjól) út september.
 • Reiðhjólaverzlunin Berlín, Háaleitisbraut 12, býður 15% afslátt af eftirfarandi vörum.