Skip to main content
21. mars 2023

Styrkur til rannsóknar á einelti, kynþáttahyggju og menningarfordómum

Styrkur til rannsóknar á einelti, kynþáttahyggju og menningarfordómum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sema Erla Serdaroglu, aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hefur hlotið styrk úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar við Háskóla Íslands til rannsóknar á einelti, kynþáttahyggju og menningarfordómum. Styrkurinn nemur 1,5 milljónum króna.  

Vaxandi útlendingaandúð, kynþáttahyggja, menningarfordómar og íslamófóbía víða um heim hefur orðið til þess að fræðasamfélagið hefur í auknum mæli lagt áherslu á rannsóknir á einelti sem felur í sér kynþáttahyggju og menningarfordóma (e. racist bullying/bias-based bullying/). Slíkt einelti einkennist af fordómum vegna (raunverulegs eða skynjaðs) kynþáttar, uppruna, menningar og/eða trúarbragða þolenda og andúð gerenda á stöðu þeirra sem innflytjenda og/eða fólks með flóttabakgrunn. Slíkt einelti í garð innflytjenda, flóttafólks eða fólks með erlendan bakgrunn byggir á valdaójafnvægi og beinist meðal annars að þjóðfélagslegri stöðu þolenda sem tilheyra minnihlutahópum.

Einelti í garð barna og ungmenna sem tilheyra minnihlutahópum og er drifið áfram af kynþáttahyggju og menningarfordómum er sérstakt áhyggjuefni vegna þeirra alvarlegu afleiðinga sem slíkt einelti getur haft. Unglingsárin eru enda tími þróunar og mótunar, meðal annars þróunar sjálfsmyndar, sem oft er mótuð út frá uppruna, menningu og samfélagi. Þar að auki sýna rannsóknir að slíkt einelti getur meðal annars haft áhrif á líkamlega og andlega heilsu og er til þess fallið að ýta undir félagslega einangrun, einmanaleika, jaðarsetningu og jafnvel samfélagslega pólun (e. social polarisation).

Rannsóknin er eigindleg og grundvallast á viðtölum við ungt fólk sem hefur reynslu af einelti sem einkennist af kynþáttahyggju og menningarfordómum. Markmiðið með rannsókninni er að bera kennsl á birtingarmyndir, tíðni og afleiðingar eineltis sem byggir á kynþáttahyggju og/eða fordómum vegna þjóðernisuppruna, menningar og/eða trúarbragða. Rannsóknin nær til nýs sviðs eineltisrannsókna í íslensku samhengi. Með rannsókninni er sköpuð ný þekking á sviði eineltisfræða sem hægt er að nýta til frekari þekkingaröflunar og rannsókna og móta og þróa verklag og verkfæri fyrir forvarnir og inngrip gegn slíku einelti.

Um sjóðinn

Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar var stofnaður með veglegri peningagjöf Margaretar og Bents hinn 25. september árið 2001. Árið 2007 bættu þau hjón um betur og lögðu til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Sjóðurinn er einn þriggja sem Bent Scheving Thorsteinsson hefur stofnað við Háskóla Íslands. Hinir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, fósturföður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði barnalækninga, og Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar, föður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði lyfjafræði. Með stofnun þessara þriggja sjóða hafa Margaret og Bent Scheving Thorsteinsson gefið háskólanum samtals 60 milljónir króna.

Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og í stjórn sjóðsins sitja Brynhildur G. Flóvenz, dósent við Lagadeild, en hún er jafnframt formaður stjórnar, Ársæll Már Arnarsson, prófessor í tómstunda- og félagsmálafræði við Menntavísindasvið, og Kolbeinn Hólmar Stefánsson, dósent í félagsráðgjöf við Félagsráðgjafardeild.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 

Myndir frá afhendingu styrksins má sjá hér að neðan. Þær tók Kristinn Ingvarsson.
 

Frá afhendingu styrksins í Hátíðasal. Frá vinstri: Hanna Björg Sigurjónsdóttir prófessor, Brynhildur G. Flóvenz dósent, styrkhafinn Sema Erla Serdaroglu og Jón Atli Benediktsson rektor.