Stórefla jafnréttisfræðslu í námi á Menntavísindasviði | Háskóli Íslands Skip to main content
10. maí 2021

Stórefla jafnréttisfræðslu í námi á Menntavísindasviði

Stórefla jafnréttisfræðslu í námi á Menntavísindasviði - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Við hlökkum gífurlega til þessa mikilvæga samstarfs sem tryggir sess markvissrar jafnréttis- og kynjafræðslu í okkar námi og stuðlar þannig að hinseginvænna skólasamfélagi,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, en á dögunum var undirritaður samstarfssamningur milli Háskólans og Samtakanna ´78. Í samningnum er kveðið á um að Samtökin ´78 komi að fræðslu og ráðgjöf í námi á Menntavísindasviði um kynja-, jafnréttis- og hinseginfræði. Áhersla verður á fræðslu um kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu og kyneinkenni fólks innan námskeiða á fræðasviðinu.

Nemendur munu árlega hljóta hinsegin fræðslu og samráðsfundir verða haldnir á hverju misseri með stjórnum nemendafélaga. Þá munu Samtökin ‘78 eiga árlega samráðsfundi með kennurum og koma með sérstök fræðsluerindi inn í námskeið. Menntavísindasvið gegnir mikilvægu samfélagslegu hlutverki í þessu samhengi með menntun kennara, þroskaþjálfa, tómstundafræðinga, íþrótta- og heilsufræðinga, uppeldis- og menntunarfræðinga og annað fagfólks í menntakerfinu.

Karen Rut Gísladóttir, formaður jafnréttisnefndar Menntavísindasviðs, tekur undir orð Kolbrúnar og segir að á næstu vikum fari í gang undirbúningur fyrir næsta skólaár þar sem öllum grunnnemum verði tryggð hinsegin fræðsla. „Þetta er mikilvægt skref til að undirbúa nemendur okkar enn betur undir margbreytilegt skóla- og frístundastarf. Jafnrétti er ein af lykilstoðum Háskóla Íslands og við bregðumst nú á mjög afgerandi hátt við vaxandi þörf og ákalli um fræðslu um jafnrétti og hinseginfræðslu á sviði menntunar.“

Það voru þau Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, og Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ´78, sem undirrituðu samninginn sem nær til þriggja ára.

 

Frá undirrituninni við Aðalbyggingu Háskóla Íslands. MYND/Kristinn Ingvarsson