Skip to main content
20. mars 2023

Steinunn Torfadóttir heiðruð á ráðstefnu um læsi og lestrarkennslu

Steinunn Torfadóttir heiðruð á ráðstefnu um læsi og lestrarkennslu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ráðstefnan Læsi og lestrarkennsla - Leiðir til árangurs var haldin í tilefni af starfslokum Steinunnar Torfadóttur lektors við Menntavísindsvið Háskóla Íslands föstudaginn 17. mars síðastliðinn í húsakynnum Menntavísindasviðs í Stakkahlíð.

Rannsóknastofa um þroska, læsi og líðan efndi til málþingsins til heiðurs Steinunni Torfadóttur, lektor sem senn lætur af störfum. Steinunn hefur hannað og kennt fjöldann allan af námskeiðum á sviði málþroska, læsis, lestrarkennslu og stuðnings við börn með námsvanda. Hún er einnig mikilsvirtur sérfræðingur á vettvangi og hefur haft mikil áhrif á lestrarkennslu í íslenskum grunnskólum, meðal annars með samstarfi við Menntamálastofnun um hönnun og útgáfu efnis sem víða hefur verið notað við mat og kennslu á lestri.

Á ráðstefnunni héldu fjöldi fræðafólks erindi. Freyja Birgisdóttir, dósent við Sálfræðideild Háskóla Íslands hélt erindið Leshraði á kostnað lesskilnings? Doktorsnemarnir Auður Björgvinsdóttir og Amelia Larimer fluttu erindið Lestrarnám byrjenda: Af hverju breikkandi bil? Anna-Lind Pétursdóttir, prófessor við Menntavísindasvið ræddi um hvernig sporna mætti við breikkandi bili: Áhrif markvissrar hljóðaaðferðar og félagakennslu. Kristján Ketill Stefánsson, lektor við Menntavísindasvið fjallaði um  minnkandi lestraránægja grunnskólabarna og ræddi hvers vegna og hvað væri til ráða. Jóhanna Thelma Einarsdóttir, prófessor við Heilbrigðisvísindasvið og Menntavísindasvið hélt erindið Breytileiki í málþroska leikskólabarna - hvað getum við gert? Auk þess sem Sigríður Ólafsdótitr, dósent við Menntavísindasvið flutti erindið, Virkilega viðurkenndur vinnustaður  og fjöltyngi.  Kolbrún Pálsdóttir forseti Menntavísindasviðs setti málþingi og Helga Sigmundsdóttir stýrði málþinginu.

Steinunn Torfadóttur var heiðruð með dynjandi lófataki og gjöf frá Háskóla Íslands og þökkuð góð störf og samstarf undanfarna áratugi. Fjöldi fólks mætti á ráðstefnuna í Stakkahlíð og í streymi.

Ráðstefnunni var einnig streymt og er upptaka aðgengileg hér 

Steinunn Tofadóttir og Kolbrún Pálsdóttir.
Skipulagshópur ráðstefnunnar.
Steinunn og Kolbrún.
Steinunn og fjölskylda.
Freyja Birgisdóttir
Freyja Birgisdóttir