Skip to main content
20. október 2023

Stefnt að flutningi Menntavísindasviðs í Sögu í ágúst 2024

Stefnt að flutningi Menntavísindasviðs í Sögu í ágúst 2024  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Óhætt er að segja að unnið sé hörðum höndum að framkvæmdum og flutningi Menntavísindasviðs HÍ í Sögu. Framkvæmdir utanhúss eru langt komnar, byggt hefur verið tímabundið yfir Grillið á 8. hæð á meðan unnið er að lagfæringum og starfshópar flutnings MVS í Sögu vinna að úthlutun vinnurýma og útfærslu kennslurýma. Stúdentar og gestir háskólans hafa nú flutt inn í norðurenda byggingarinnar en framkvæmdir eru yfirstandandi á flestum hæðum hússins. Lesa má nánar um framkvæmdir og stöðu flutnings hér að neðan. 

STAÐA FRAMKVÆMDA

Framkvæmdir við endurnýjun utanhúss í Sögu ganga vel. Lagfæringar á 2. hæð norðanmegin hafa tafist þar sem í ljós kom að skipta þurfti um alla ofna. Verksamningur um frágang innanhúss á 5., 6. og 7. hæð var undirritaður í ágúst og eru áætluð verklok á þessum þremur hæðum, 30. mars 2024. Vinna við að fullklára hönnun er í fullum gangi, uppsetning innréttinga, glerveggja, samtalsrýma og fundarherbergja hefst eftir því sem framkvæmdum vindur fram. Gistirými á 3. hæð norðanmegin voru tekin í notkun 1. september síðastliðinn. Ákveðið hefur verið að fjarlægja salerni, vaska og baðaðstöðu í öllum herbergjum sem Menntavísindasvið fær á 4. hæð sem eykur notagildi rýmanna til muna. Nú er allt kapp lagt á að útfæra rými í suðurálmu byggingarinnar til að flutningar geti orðið á áætluðum tíma. 

GRILLIÐ Í YFIRHALNINGU OG GRAFIÐ ÚT FYRIR LJÓSGARÐI 

Við nánari skoðun á Sögu kom í ljós nýverið að hið víðfræga Grill á 8. hæð byggingarinnar þurfti á töluverðri andlitslyftingu að halda og er nú unnið að því að færa Grillið í sitt fagra og upprunalega form. Listaverk sem prýddu lofti og veggi Grillsins hafa verið tekin til varðveislu á meðan en verða flest á sínum stað þegar flutt verður inn. Áætluð verklok á endurbyggingu Grillsins eru síðla árs 2024. Byrjað hefur verið að grafa út fyrir ljósgarði á neðstu hæð í Sögu þar sem skyggni Súlnasalsmegin var fjarlægt. Ljósgarðurinn mun gjörbylta aðstöðu og birtuskilyrðum á jarðhæð í Sögu þar sem fyrirhugað er að íþrótta- og heilsufræði muni hafa aðstöðu. Smíðin verður einnig með aðstöðu á neðstu hæð í norðvesturenda en þar verður einnig grafið út fyrir ljósgarði.  

HEIMSÓKNIR STARFSHÓPA Í SÖGU 

Samráðshópur Menntavísindasviðs um úthlutun vinnurýma hefur verið stofnaður og heimsótti Sögu fimmtudaginn 5. október. Hópurinn er skipaður fulltrúum stjórnsýslu og allra deilda og er ætlað það hlutverk að gera tillögur um skipulag deilda í Sögu og um viðmið varðandi vinnuaðstöðu starfsfólks. Um þessar mundir er verið að kortleggja þarfir og óskir fólks til starfsstöðvar sinnar og verða þær upplýsingar hafðar til viðmiðunar við úthlutun aðstöðu deilda, hópa og einstaklinga.  

Nýskipuð öryggisnefnd Menntavísindasviðs heimsótti einnig Sögu 26. september sl. og skoðaði aðstæður, meðal annars m.t.t. aðgengismála. Þá hittu fulltrúar kennslunefndar Menntavísindasviðs fulltrúa kennslusviðs, framkvæmda- og tæknisviðs og upplýsingatæknisviðs í Sögu þann 11. september sl. þar sem til umfjöllunar var útfærsla í almennum kennslustofum í Sögu, þ.m.t. búnaður og tækni til kennslu. 

UNDIRBÚNINGUR KENNSLU Í SÖGU 

Hafin er vinna við að útfæra sérkennslurými og greina búnaðarþörf Menntavísindasviðs í Sögu, einkum hvað varðar list- og verkgreinar, stærðfræði og náttúruvísindi, leikskólakennarafræði, íþrótta- og heilsufræði og heimilisfræði enda mun kennsla og rannsóknarstarf í þessum greinum fara fram í sérútbúnum stofum í Sögu. Þá þarf að útfæra námsgagna- og barnabókasafn í Sögu. Vinnan felst m.a. í að kortleggja hvaða búnaður flytur með sviðinu og í hverju þarf að fjárfesta. 

Vert er að geta þess að unnið er að gerð heimildarmyndar um flutning Menntavísindasviðs úr Stakkahlíð og Skipholti í Sögu. Verið er að  safna ýmsum gögnum um sögu bygginganna tveggja. Áhugasöm eru hvött til að hafa samband við Mörtu Goðadóttur - martagodadottir@hi.is, lumi þau á áhugaverðum upplýsingum eða ábendingum. 

Starfshópur Saga MVS tekur út komandi vinnurými í Sögu
Starfshópur Saga MVS
Starfshópur Saga MVS
Starfshópur Saga MVS