Skip to main content
20. nóvember 2020

Starf Háskólans hefur víðtæk áhrif

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (20. nóvember):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Eitt af meginmarkmiðum háskóla er að skila hæfu og vel menntuðu fólki til starfa út í atvinnulífið. Þannig verða áhrif háskólanna mikil á framþróun samfélaga og treystir stöðu þeirra í samkeppni þjóðanna. 

Þau ánægjulegu tíðindi bárust í vikunni að Háskóli Íslands væri í hópi allra bestu háskóla heims hvað samfélagsleg áhrif varðar. Háskóli Íslands er einn íslenskra háskóla á nýjum heimslista Times Higher Education yfir þá háskóla sem skila öflugasta fólkinu til sinna samfélaga og bætir reyndar stöðu sína á listanum um nítján sæti milli ára. Skólinn er núna í 162. sæti en staðan er byggð á mati víðfeðms hóps alþjóðlegra fyrirtækja. 

Í vikunni var einnig birtur nýr listi yfir áhrifamestu vísindamenn heims og eru tveir Íslendingar á listanum sem báðir hafa starfað sem prófessorar við Háskóla Íslands, ásamt þremur gestaprófessorum við skólann. Þetta er vissulega ánægjulegt og skýr vitnisburður um sterka stöðu skólans í alþjóðlegum rannsóknum. 

Virk þátttaka í samfélagi og atvinnulífi er ein megináherslan í stefnu Háskólans og á undanförnum árum hefur hann unnið markvisst að því að styrkja tengsl við atvinnulíf og stuðla að fjölbreyttri nýsköpun. Það var því afar gleðilegt þegar fyrrverandi nemendur skólans og stofnendur fyrirtækisins Controlant hlutu Nýsköpunarverðlaun Íslands fyrr í vikunni. Controlant hefur þróað tækni til að fylgjast með hitastigi lyfja og matvæla.

Enn á ný eru áþreifanleg og afar ánægjuleg merki um að farsóttin sé á niðurleið hérlendis. Sóttvarnarreglur voru því rýmkaðar í þessari viku. Við þurfum þó öll að halda áfram vöku okkar og fylgja fyrirmælum sóttvarnaryfirvalda

Nú eru lokapróf fram undan sem verða flest fjar- eða heimapróf. Ég vona innilega að undirbúningur ykkar fyrir prófin gangi vel, kæru nemendur. Ég hef orðið var við áhyggjur á meðal nemenda vegna staðprófa en get fullvissað ykkur að við höfum fylgt traustum aðferðum við að skilgreina þau próf sem við teljum óhjákvæmilegt að fari fram í húsnæði Háskóla Íslands. Þar höfum við fylgt í einu og öllu þeirri línu sem heilbrigðisyfirvöld lögðu. Ítrustu sóttvarna verður gætt og öllum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda hlítt í hvívetna. Leiðbeiningar hafa verið settar fram fyrir nemendur vegna staðprófa og annarra prófa til að stuðla að öruggri framkvæmd, og verður aukið við þær leiðbeiningar á næstu dögum eftir því sem þurfa þykir. 

Ég hvet ykkur kæru nemendur til að kynna ykkur „Spurt og svarað um lokapróf“ á vefsvæði skólans. 

Njótum helgarinnar eins og kostur er og förum varlega. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

Nemendur labba út af Háskólatorgi