Spennandi vinnustofur fyrir kennara og stjórnendur á Menntakviku | Háskóli Íslands Skip to main content

Spennandi vinnustofur fyrir kennara og stjórnendur á Menntakviku

8. september 2017

Kennarasamband Íslands, Skólameistarafélag Íslands og Menntavísindasvið Háskóla Íslands standa fyrir tveimur spennandi vinnustofum með nýsjálenska fræðimanninum dr. Zachary Walker á Menntakviku þann 6. október nk. Vinnustofurnar eru haldnar í tengslum við fyrirlestra dr. Walker á Skólamálaþingi Kennarasambands Íslands og Skólameistarafélags Íslands sem fer fram á Alþjóðadegi kennara 5. október í Hörpu.

Fyrri vinnustofan ber heitið „Sköpunarmáttur: Einföld tæki, mikil áhrif“.

Í þessari vinnustofu fyrir kennara og skólastjórnendur er áhersla lögð á aðferðir en ekki tæki. Þátttakendur læra að nota einfalda tækni til að bæta árangur nemenda, auðvelda  utanumhald og kenna á skilvirkari og árangursríkari hátt. Kynntar verða aðferðir sem hafa reynst gagnlegar við að beita nýrri tækni í kennslu, þar á meðal til að vekja áhuga nemenda og auðvelda kennurum að kenna, fylgjast með námi nemenda og að meta nám. Vinnustofan hefst kl. 10:45 og lýkur kl. 12:15 í stofu E301 í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð.

Umsjón: Aðalheiður Steingrímsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands.

Fullt er á vinnustofuna og er skráningu lokið.

Seinni vinnstofan ber heitið Nemendur sem samkennarar: Gagnlegar aðferðir við að skapa sameiginlega þekkingu“.

Í þessari vinnustofu fyrir kennara og skólastjórnendur er kannað hvernig við getum betur nýtt okkur þekkingu nemenda í kennslu. Þekking er allt í kringum okkur og það er takmarkandi að líta á kennarann sem eina upplýsingagjafann. Ef við notum nemendur sem samkennara, hvernig er þá best að skipuleggja, stýra og flétta þekkingu þeirra við kennsluna? Fjallað er um aðferðir sem miða að því að virkja alla nemendur og þá þekkingu sem er í boði. Vinnustofan hefst kl. 13:15 og lýkur kl. 14:45 í stofu E301 í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð.

Umsjón: Svanhildur M. Ólafsdóttir, formaður Skólastjórafélags Íslands.

Nauðsynlegt er að skrá sig á vinnustofuna hér.

Hinn virti skóla- og fræðimaður dr. Zachary Walker hefur haldið fyrirlestra víða um heim við frábærar undirtektir.

Kynning á dr. Zachary Walker

Dr. Walker starfar við menntamálastofnunina National Institute of Education (NIE) og Nanyang tækniháskólann (NTU) í Singapore, sem er í 11. sæti á alþjóðlegum gæðalista yfir háskóla. Í NIE situr hann í starfshópi um kennslu og nám á 21. öld. Hann hefur fengið fjölda viðurkenninga, t.d. árið 2012 sem framúrskarandi fræðimaður, 2015 var hann útnefndur brautryðjandi (a Millennium Milestone Maker) af Heimssamtökum um framtíð kvenna og sama ár fékk hann John Cheung viðurkenninguna fyrir nýbreytni í notkun samfélagsmiðla í kennslu og námi. Hann hefur kennt og leiðbeint í Bandaríkjunum, Asíu, Evrópu, Mið-Ameríku og á Karabísku eyjunum. Hjá UNESCO hefur hann unnið að stefnumótun fyrir þá sem glíma við námsörðugleika.

dr. Zachary Walker

Netspjall