Skip to main content
27. mars 2023

Samstarf um Sögu og sviðsmyndir væntanlegar í vor 

Samstarf um Sögu og sviðsmyndir væntanlegar í vor  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Föstudaginn 24. mars var haldinn opinn fundur með Dr. Anne Bamford til að ræða tækifæri og áskoranir í tengslum við flutninga Menntavísindasviðs í Sögu. Anne er ytri sérfræðingur í sjálfsmati Menntavísindasviðs vegna rannsókna og tók einnig þátt í sjálfsmatsvinnu náms og deilda á síðasta ári. Hún er vel þekktur fræðimaður á sviði listkennslu og hefur starfað sem ráðgjafi og fyrirlesari um menntamál víða um heim. Fundurinn fór vel fram og voru upplýsandi skoðanaskipti um tækifæri, áskoranir og tilfinningar í tengslum við flutningana og um yfirstandandi samráðsferli innan sviðsins. Kolbrún, forseti MVS, lagði áherslu á að ekki væri búið að taka ákvörðun um hönnun starfsumhverfis í Sögu og því þyrfti að fá sem flesta að borðinu til að skapa það umhverfi sem hentaði starfseminni. Anne lagði ríka áherslu á að gildi Menntavísindasviðs yrðu að vera lifandi og sýnileg innan Sögu og í umræðum kom skýrt fram að starfsemi sviðsins snýst ekki síst um fólk, sköpun og inngildingu. Anne skoraði á hópinn að byggja upp lifandi og opið rannsóknarsamfélag, bæði í kennslu og fræðastörfum. 

Öllu starfsfólki sviðsins var boðið að koma og voru hátt á fjórða tug á staðnum og á Teams. Þess ber að geta að Anne Bamford starfaði um árabil sem yfirmaður skólamála hjá borgarstjórn London. Hún hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir rannsóknir sínar á sköpunargáfu, símenntun og tækni. Hún kom með hugtakið „samrunafærni“ (e. fusion skills) til að lýsa þeirri hæfni sem þarf til að blómstra nú og í framtíðinni. Með rannsóknum sínum hefur hún stuðlað að nýsköpun, félagslegum áhrifum, jafnrétti og fjölbreytileika á sviði menntunar. Anne er svokallaður „World scholar“ fyrir UNESCO og hefur leitt umfangsmikil áhrifa- og matsverkefni fyrir ríkisstjórnir Danmerkur, Hollands, Belgíu, Íslands, Hong Kong, Írlands og Noregs. 

Vinna með Veldhoen 

Við undirbúning flutninganna í Sögu starfar Háskóli Íslands  með hollenska ráðgjafafyrirtækinu Veldhoen+Company sem er eitt virtasta ráðgjafafyrirtæki heims við hönnun starfsumhverfis og vinnustaðamenningar. Undanfarna mánuði hefur fyrirtækið stýrt samráðsferli innan Menntavísindasviðs til að undirbyggja tillögur um hönnun rýma í Sögu. Því hefur verið óskað eftir víðtækri þátttöku starfsfólks í vinnustofum til að stuðla að gæði tillagnanna. Vikuna 20. -24. febrúar síðastliðinn héldu fulltrúar Veldhoen+Company þrettán vinnusmiðjur með starfsfólki og nemendum Menntavísindasviðs og Háskóla Íslands. Hugað var að framtíðarþörfum starfsfólks og nemenda á fundi með hópi frá Upplýsingatæknisviði og Kennslusviði í upphafi viku, fundir með hópi nemenda og starfsfólki úr stjórnsýslu voru einnig haldnir auk þess sem fundað var með Kristjáni Garðarssyni arkitekt, framkvæmdanefnd um Sögu og deildarforsetum. Þrjár stórar vinnusmiðjur voru haldnar, ætlaðar akademísku starfsfólki og mættu um 50  manns á hvorn fundinn. Markmiðið var að rýna í og ræða niðurstöður fyrri funda og skýra ferlið fyrir næstu vinnusmiðjur. Um 60 manns alls mættu á seinni tvær vinnusmiðjurnar; Teaching module workshop og Research module workshop. Markmið þeirra var að samræma þarfir starfsfólks, meta starfsemi í framtíðinni og mögulegar lausnir fyrir starfsemina. 

Samstarf  í Sögu 

Unnið er að greiningu á samlegðaráhrifum og samstarfsmöguleikum Menntavísindasviðs, frumgerðarsmiðju Verkfræði- og náttúruvísindasviðs (FabLab), Vísindaheima HÍ og Mixtúru í Sögu. Markmiðið er að skoða hvort með slíku samstarfi megi skapa aðstæður í hjarta Háskólasvæðisins sem efla margþætta starfsemi á sviði náttúru- og tæknigreinamenntunar, vísindamiðlunar, listsköpunar og hönnunar. Með slíku STEAM samstarfi í Sögu verði hægt að búa til aðstæður sem verði framúrskarandi hvað varðar kennslu og kennsluþróun, starfsþróun, hönnun, frumkvöðlastarfsemi og vísindamiðlun. 

Vinnuvika framundan á Menntavísindasviði 

Vikuna 27. – 31. mars halda vinnufundir áfram með fulltrúum Veldhoen en þá verður sjónum beint að samráði við doktorsnema og nýdoktora Menntavísindasviðs. Einnig verður haldinn opinn fundur með nemendum og er öllum grunn- og meistaranemum frjálst að mæta og velkomnir. Vinnusmiðja fyrir akademískt starfsfólk verður einnig haldin næstkomandi þriðjudag með það markmið að ræða skipulagshugmyndir og skoða sviðsmyndir með fulltrúum Veldhoen.Þá mun Kolbrún, forseti Menntavísindasviðs, opna fundinn og ræða undirbúning að flutningi í Sögu. Stefnt er að því að fulltrúarVeldhoenskili tillögum að sviðsmyndum að hönnun og útfærslu í Sögu á kennslurýmum og skrifstofurýmum í vor. Ljóst er að fasteignafélag HÍ þarf að fylgja tilmælum stjórnvalda um sveigjanlegt, verkefnamiðað starfsumhverfi,  um leið og tryggja þarf fræðafólki nauðsynlegt næði til rannsókna. Tillögurnar munu koma til rýni innan Menntavísindasviðs áður en ráðist verður í nánari hönnun rýma í Sögu. Stjórn Menntavísindasviðs í samvinnu við samráðshóp um flutning á Sögu mun skipuleggja markvissa kynningu og samráð, ásamt því sem notendahópar verða beðnir að fjalla um mögulegar sviðsmyndir.  

Myndir: Áslaug B. Eggertsdóttir og Kolbrún Kristín Karlsdóttir.

Fundur MVS með Anne Bamford.
Anne Bamford