Samsæriskenningar um Norðurlöndin mun algengari en marga grunar | Háskóli Íslands Skip to main content
15. mars 2021

Samsæriskenningar um Norðurlöndin mun algengari en marga grunar

Samsæriskenningar um Norðurlöndin mun algengari en marga grunar - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Samsæriskenningar um Norðurlöndin eru algengari en eflaust marga grunar og varða þær iðulega með einum eða öðrum hætti meinta tilburði norrænna ríkja til þess að afmá karlmennskuna eða íhlutast með mjög róttækum hætti til um uppeldi barna,“ segir Hulda Þórisdóttir, dósent í stjórnmálasálfræði við Háskóla Íslands og einn af höfundunum bókar um samsæriskenningar og Norðurlöndin. Bókin kom nýverið út á vegum hins virta forlags Routledge en um er að ræða fyrstu fræðilegu úttektina á slíkum kenningum um og á Norðurlöndum.

Bókin, sem ber heitið „Conspiracy Theories and the Nordic Countries“, er samstarfsverkefni þverfaglegshóps fræðimanna við norræna og baltneska háskóla. Þar á meðal eru sérfræðingar á sviði þjóðfræði, trúarbragðafræði, mannfræði og sagnfræði en auk Huldu er Eiríkur Bergmann, prófessor við Háskólann á Bifröst, meðal höfunda.

„Leiðir okkar höfunda lágu saman í gegnum svokallað COST-netverk um samsæriskenningar. COST-verkefni eru hugsuð til að tengja saman rannsakendur hvaðnæva úr Evrópu og úr ólíkum greinum sem eru að fást við svipaðar spurningar. Við ræddum okkar á milli að Norðurlöndin væru iðulega álitin afar óspennandi út frá samsæriskenningafræðum því ímynd þeirra út á við er sú að í þessum löndum sé traust gagnvart stjórnvöldum mikið og almenningur svo vel upplýstur. Við vissum vitanlega að málið væri ekki alveg svona einfalt og langaði að gera þessa fyrstu atlögu að því að fjalla heildstætt um samsæriskenningar á Norðurlöndum út frá þverfaglegu sjónarhorni,“ segir Hulda. 

Morðið á Palme móðir nútímasamsæriskenninga á Norðurlöndum

Í bókinni er bæði rýnt í samsæriskenningar innan norrænna samfélaga og um samfélögin sjálf án þess að um beinan samanburð sé að ræða milli landa. Höfundar benda á að samsæriskenningar hafi um langt skeið verið fyrir hendi innan norrænu samfélaganna. Þær megi m.a. rekja til spennu milli ólíkra samfélagshópa og áfalla innan samfélaganna. Hlutur samsæriskenninga innan norrænu ríkjanna hafi vaxið á síðustu þremur til fjórum áratugum líkt og víða annars staðar þótt ekki fari jafnmikið fyrir þeim og t.d. í bandarísku þjóðlífi.

Hulda segir aðspurð að samsæriskenningar tengdar norrænu ríkjunum greini sig ekki mikið frá kenningum annars staðar í heiminum. Frægar samsæriskenningar, sem oftar en ekki eiga sér bandarískar rætur, séu nú vel þekktar á Norðurlöndunum. Þar á meðal má nefna gamlar samsæriskenningar um tilburði gyðinga til þess að ná heimsyfirráðum og þá gjarnan í einhvers konar samkrulli með Frímúrurum en þær hafi lengi þrifist á Norðurlöndum. „En það má að sumu leyti segja að „móðir“ nútímasamsæriskenninga á Norðurlöndum sé morðið á sænska forsætisráðherranum Olof Palme árið 1986,“ segir Hulda en morðið, sem margir telja enn að hafi ekki verið upplýst, er gott dæmi um samfélagsáfall sem kveikir samsæriskenningar.
Í bókinni er rýnt í samsæriskenningar tengdar tilteknum þemum, þar á meðal þjóðríkjum og elítum, fjölskyldu, kyngervi og kynferði og meira að segja skandinavísku glæpasagnahefðinni Nordic Noir.

En skyldu rannsakendur hafa rekist á einhverjar samsæriskenningar sem tengjast Íslandi og íslensku samfélagi sérstaklega? „Ekki beinlínis, að því undanskildu að við minnumst á þær falsfréttir sem gengu fjöllunum hærra úti í heimi fyrir nokkrum árum að íslenska ríkið vildi borga stórar fjárhæðir hverjum þeim sem giftist íslenskri konu. En það hefur lítið verið um séríslenskar samsæriskenningar sem hafa lifað lengur en örfá ár eða náð útbreiðslu utan afmarkaðra hópa. Það er ýmislegt sem bendir til þess að kalda stríðið hafi verið blómatími samsæra jafnt sem samsæriskenninga hér á landi en það er sannarlega spennandi framtíðarverkefni að leggjast í nánari rannsóknir á þessu,“ segir Hulda.

Íslendingar eilítið líklegri til að trúa á samsæriskenningar

Hulda bendir enn fremur á að þau takmörkuðu alþjóðlegu gögn, sem nýta má til að bera saman hlutfall Íslendinga og annarra norrænna þjóða sem trúir ýmsum samsæriskenningum, gefi til kynna að Íslendingar séu jafnvel eilítið líklegri en hinar þjóðirnar til þess að aðhyllast ýmsar þessara kenninga. „Það er þó erfitt að fullyrða neitt um það enn sem komið er því það er afar vandasamt verk að spyrja um þessi mál með áreiðanlegum og réttmætum hætti,“ segir Hulda. 

Hulda undirstrikar að bókin sé fyrst og fremst hugsuð sem fræðileg nálgun á vinsælt viðfangsefni en ekki æsilesning um samsæriskenningar. „Ætli bókin sé ekki hugsuð fyrir fræðimenn innan félags- og hugsvísinda ásamt áhugasömum almenningi sem langar að fræðast um efnið í gegnum heimild sem hægt er að treysta,“ segir Hulda aðspurð um væntanlegan lesendahóp.

Hægt er lesa nánar um bókina og kaupa hana á á vef Rotuledge.

Hulda Þórisdóttir