Ný fræðslumyndbönd um málþroska barna | Háskóli Íslands Skip to main content
7. júní 2021

Ný fræðslumyndbönd um málþroska barna

Ný fræðslumyndbönd um málþroska barna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Rannsókna- og fræðslustofa um þroska, læsi og líðan barna og ungmenna við Háskóla Íslands hefur útbúið stutt og aðgengileg myndbönd fyrir foreldra barna á Íslandi þar sem fjallað er um hvernig foreldrar geta stutt við málþroska barna sinna og þar með gengi þeirra í námi. Verkefnið var styrkt af samfélagssjóði Háskóla Íslands. 

Tungumálið og samskipti við aðra eru grundvöllur að flestu því sem við fáumst við í daglegu lífi, námi og starfi. Markmiðið með myndböndunum er að kynna fyrir foreldrum mikilvægi tungumálsins og hvað þeir geta gert til að auka og örva mál barna sinna. Efnið er kynnt á einfaldan og hagnýtan hátt en byggt er á niðurstöðum íslenskra og erlendra hágæðarannsókna. 

Um tvö myndbönd er að ræða, annars vegar Málörvun leikskólabarna og hins vegar Fjöltyngd börn í íslenskum leik- og grunnskólum. Myndböndin eru textuð á íslensku og er síðarnefnda myndbandið einnig með textum á ensku, pólsku, portúgölsku, rúmensku, filippseysku og arabísku. 

Samtök íslenskra sveitarfélaga hafa séð um að dreifa myndböndunum á allar skólaskrifstofur landsins, sem senda þau á  leik- og grunnskóla hvers sveitarfélags. Leik- og grunnskólar munu væntanlega sjá um að koma þeim til foreldra barna á Íslandi, bæði þeirra sem eiga íslensku að móðurmáli og einnig þeirra sem tala annað tungumál en íslensku heima. 
 
Myndböndin eru aðgengileg á vefsíðu Rannsóknastofunnar
 
Höfundar og flytjendur eru dr. Jóhanna Thelma Einarsdóttir, dósent við Heilbrigðisvísindasvið, og dr. Sigríður Ólafsdóttir, lektor við Menntavísindasvið.

Jóhanna Thlema Einarsdóttir og Sigríður Ólafsdóttir