Skip to main content
29. september 2022

Ný fjartækni til að hjálpa fólki með hálsáverka

Ný fjartækni til að hjálpa fólki með hálsáverka - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að bæta meðferð og auka batahorfur þeirra sem hafa hlotið áverka á hálsi í bílslysum. Þessir áverkar eru því miður mjög algengir og valda þeim sem slasast gjarnan miklum verkjum og fjarveru frá vinnu, námi og frístundum. Tap einstaklinganna er ekki bara mikið heldur samfélagsins alls.  

Nú er í gangi rannsókn við HÍ sem snýst um að meta áhrif nýs meðferðarúrræðis í sjúkraþjálfun og notkun nýs tækis þar sem markhópurinn er einmitt fólk sem hefur hlotið áverka í hálsi eftir árekstur í umferðinni. Hugmyndin er að bæta líðan þessa fólks og að draga úr kostnaði vegna áverkanna. 

Guðný Lilja Oddsdóttir aðjúnkt og Kristín Briem prófessor, sem báðar starfa við námsbraut í sjúkraþjálfun í Háskóla Íslands, leiða rannsóknina en með þeim í verkefninu er sjúkraþjálfarinn og doktorsneminn Harpa Ragnarsdóttir. Þær segja að borin verði saman tvö meðferðarform í sjúkraþjálfun til bæði langs og skamms tíma með huglægum og hlutlægum mælingum. Báðir rannsóknahópar í verkefninu fái meðferð hjá sjúkraþjálfara, sérhæfðum í greiningu og meðferð stoðkerfis,  auk þess sem hann hafi mikla reynslu á sviði þeirra áverka sem um ræðir.

„En er kemur að æfingarhluta hópanna fær annar fjarmeðferð en hinn gerir æfingar sem sjúkraþjálfarinn hefur notað áður fyrir þennan skjólstæðingahóp og hann telur viðeigandi fyrir hvern og einn,“ segir Harpa. „Sá sem fær fjarmeðferðina mun fylgja heimaprógrammi í nýju æfingatæki sem er framleitt af íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu NeckCare. Búnaðurinn gerir skjólstæðingum kleift að gera mjög sérhæfðar æfingar sem efla stöðu- og hreyfiskyn hálsins sem skjólstæðingurinn framkvæmir fyrir framan tölvu heima eða í vinnu. Æfingarnar taka einungis á bilinu 5 til 20 mínútur eftir því hvar í endurhæfingarferlinu skjólstæðingurinn er staðsettur og mun skjólstæðingurinn framkvæma þær nánast daglega.“

Mjög stór hópur glímir við vanda vegna hálsáverka

Vísindakonurnar segja að sá hópur fólks sem verði fyrir hálsáverka í bílslysum sé gríðarlega stór í hópi skjólstæðinga hjá sjúkraþjálfurum. Harpa segist t.d. hafa fengið mörg til sín í meðferð vegna áverka í kjölfar bílákeyrslu og hún hafi fundið sig knúna til að bæta við þekkingu sína á þessu sviði. Harpa kallar áverkann sem fólk verður fyrir í þessum tilvikum svipuólaáverka. „Hann er mjög flókinn og getur valdið samansafni ýmissa einkenna, t.d. svima, höfuðverkjum, sjóntruflunum, verkjum í hálsi og herðum, minnkaðri starfsorku o.fl. Einkenni geta verið þess eðlis að skjólstæðingurinn áttar sig oft ekki á að hann tengist slysinu og telur hann vera afleiðingu einhvers mun alvarlegra. Þess vegna skiptir fræðsla mjög miklu máli.“

Lina þjáningar og lækka kostnað

Vísindakonurnar segja að ef jákvæð svörun fáist við þessu fjarmeðferðarformi verði ekki bara hægt að hjálpa þolendum hálsáverka með markvissari hætti en áður og draga úr einkennum heldur líka að draga úr kostnaði skjólstæðinga og samfélagsins alls. Hér eiga þær m.a. við útgjöld sjúkratrygginga og vinnutap. 

„Niðurstöður rannsóknarinnar munu gefa okkur vísbendingar um bestu meðferð sjúklinga sem greinast með þessi einkenni í hálsi í kjölfar bílákeyrslu. Niðurstöðurnar geta þannig skilað sér til samfélagsins með því að fækka einstaklingum með króníska hálsverki eða einkenni frá hálsi, en vonir standa til að með meðferðinni getum við minnkað til muna líkur á langvarandi einkennum eftir þessa áverka,“ segir Harpa.

Hún segir að eins og staðan sé hér greiði skattgreiðendur niður um og yfir 90 prósent  heilbrigðisþjónustunnar og kostnaður tryggingarfélaga vegna bótakröfu í kjölfar bílákeyrslu geti hlaupið á milljónum fyrir hvern einstakling.

„En er kemur að æfingarhluta hópanna fær annar fjarmeðferð en hinn gerir æfingar sem sjúkraþjálfarinn hefur notað áður fyrir þennan skjólstæðingahóp og hann telur viðeigandi fyrir hvern og einn,“ segir Harpa. „Sá sem fær fjarmeðferðina mun fylgja heimaprógrammi í nýju æfingatæki sem er framleitt af íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu NeckCare. Búnaðurinn gerir skjólstæðingum kleift að gera mjög sérhæfðar æfingar sem efla stöðu- og hreyfiskyn hálsins sem skjólstæðingurinn framkvæmir fyrir framan tölvu heima eða í vinnu.“

Flókið að greina og meðhöndla fólk með langvarandi einkenni

Guðný Lilja segir að kveikjan að þessari rannsókn og öðrum sem tengist hálseinkennum eftir ákeyrslu sé sú að í klínikinni hafi gengið erfiðlega að greina og meðhöndla einkennin, ekki síst í tilviki þeirra sem höfðu langvarandi einkenni. „Þörfin til að hjálpa þessu fólki betur vakti upp ýmsar rannsóknaspurningar,“ segir Guðný Lilja. „Til að leita svara vann ég að þróun greiningartækis í rannsóknum mínum til að meta stjórn og samhæfingu hálshreyfinga hjá fólki með hálseinkenni. Truflanir á þeirri starfsemi eru taldar valda langvarandi einkennum. Þróun sértæku æfingameðferðarinnar sem rannsökuð verður nú er í raun framhald af þróun greiningartækisins.“ 

Harpa segist hafa fengið kynningu á tækni NeckCare og hafið notkun þess sem mæli- og meðferðartækis í sjúkraþjálfun í byrjun árs 2020. „Ég hóf notkun þess í klíník þar sem ég sá fljótt að gagnsemi tækisins getur verið mjög mikil og var þetta t.d. í fyrsta sinn sem ég gat á hlutlægan hátt mælt bæði hreyfiferla í hálsi og hreyfi- og stöðuskyn hálsins. Tækið hefur að einhverju leyti verið rannsakað sem greiningartæki en engar rannsóknir hafa verið gerðar á gagnsemi þess sem meðferðartækis og þannig kviknaði hugmyndin.“

Nýsköpun í háskerpu

Rannsóknin tengist þriðja heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna á afgerandi hátt þar sem áhersla er á aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð stöðu fólks. Rannsóknin hófst í maí á þessu ári og hefur þátttakendum verið fylgt eftir og verður það gert áfram í eitt ár að minnsta kosti.
Nýsköpunarflöturinn í rannsókninni er mjög afgerandi í samstarfi akademíu og atvinnulífs í víðum skilningi. Bæði fer hluti rannsóknarinnar fram við klínískar aðstæður þar sem fólk leitar til sjúkraþjálfara eftir bata auk þess sem hátæknifyrirtæki er með í verkefninu en Háskóli Íslands gerði samstarfssamning við NeckCare í desember 2019. 

„Með þessari nýju tækni getum við sem meðferðaraðilar fylgst með því í gegnum tölvu hvort skjólstæðingar okkar séu í raun að gera æfingarnar sínar og hvernig þeim gengur með þær. Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið hægt áður, sérstaklega ekki þegar kemur að svo sérhæfðum æfingum eins og þarf oft að nota fyrir hálsinn,“ segir Harpa. 

Guðný Lilja Oddsdóttir aðjunkt og Harpa Ragnarsdóttir doktorsnemi