Ný bók um samskipti, áhættuhegðun og styrkleika ungs fólks | Háskóli Íslands Skip to main content
19. mars 2019

Ný bók um samskipti, áhættuhegðun og styrkleika ungs fólks

„Ungmenni standa frammi fyrir ýmsum spennandi og um leið krefjandi áskorunum í lífi sínu. Þessar áskoranir snerta samskipti við foreldra, vini og félaga, námsgengi, menntun og ástina; einnig heilsu unga fólksins og starfsmöguleika og lífssýn,“ segir Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við Háskóla Íslands. Sigrún hefur lengi rannsakað áhrif ólíkra uppeldisaðferða á þroska ungmenna og hegðun fram á fullorðinsár. Afrakstur þessarar vinnu lagði grunninn að nýrri bók hennar Lífssögur ungs fólks – Samskipti, áhættuhegðun og styrkleikar sem kom út nýverið. 

Meginefni bókarinnar byggist á viðamikilli langtímarannsókn Sigrúnar þar sem hún fylgdi heilum árgangi ungmenna í Reykjavík eftir frá því að þau voru fjórtán ára til 22 ára aldurs. Auk þess fylgdi hún hluta af hópnum eftir með einstaklingsviðtölum til 33 ára aldurs. „Í bókinni beini ég athyglinni að því mikilvæga hlutverki einstaklinga og samfélags, að efla og hlúa að vellíðan og velferð ungmenna, bæði þeim og samfélaginu til heilla í samtíð og framtíð. Fátt er okkur mikilvægara en uppeldi og menntun barna og ungmenna.“   

Sigrún segir að hún hafi lagt áherslu á að skoða hvernig uppeldisaðferðir foreldra geta haft áhrif á samskiptahæfni ungmenna og líðan. „Þá er ég jafnframt að tala um sjálfstraust ungmenna og trú á eigin sjálfstjórn, námsgengi og áhættuhegðun eins og vímuefnaneyslu allt að átta árum fram í tímann. Í bókinni eru einnig raktar lífssögur fimm ungmenna þar sem þau lýsa samskiptum við sína nánustu; foreldra, vini, sambúðarfólk og eigin börn. Í samtölum við unga fólkið koma m.a. fram þau gildi sem það vill hafa að leiðarljósi í uppeldinu og rækta með börnum sínum.“

Að sögn Sigrúnar er bókin skrifuð í því augnamiði að hún gagnist fleiri hópum en fræðasamfélaginu. „Það er von mín að bókin hvetji foreldra til að huga enn frekar að uppeldisaðferðum og uppbyggilegum samskiptum við börn sín. Einnig vonast ég til þess að bókin nýtist ýmsu fagfólki sem vinnur með börnum og ungmennum. Jafnframt bind ég vonir við að embættis- og stjórnmálamenn, sem taka ákvarðanir um málefni ungs fólks, nýti sér þær niðurstöður og áherslur sem koma fram í bókinni.“

Í tilefni af útgáfu bókarinnar standa Menntavísindasvið Háskóla Íslands og rannsóknastofan Lífshættir barna og ungmenna fyrir veglegu málþingi fimmtudaginn 21. mars nk. undir yfirskriftinni Ákall samtíðar og framtíðar – Velferð ungs fólks. Heiðursgestur málþingsins er frú Vigdís Finnbogadóttir. 

Málþingið er öllum opið og aðgangur er ókeypis.

Dagskrá málþingsins má nálgast í heild sinni HÉR.

Bókin er gefin út af Háskólaútgáfunni og verður til sölu á staðnum en einnig fæst hún í bókaverslunum um land allt.
 

Sigrún Aðalbjarnardóttir, ný bók