Skip to main content
1. desember 2022

Nærri 90 doktorar brautskráðir frá HÍ á 12 mánuðum

Nærri 90 doktorar brautskráðir frá HÍ á 12 mánuðum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands fagnaði þeim 86 doktorum sem brautskráðir hafa verið frá skólanum á síðustu 12 mánuðum á árlegri Hátíð brautskráðra doktora sem fram fór í Hátíðasal skólans í dag, á sjálfan fullveldisdaginn. Þetta er næstmesti fjöldi doktora sem skólinn hefur brautskráð á einu ári. Viðstaddar athöfnina voru Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem jafnframt ávarpaði gesti við athöfnina.

Hátíðin var nú haldin með hefðbundnu sniði í fyrsta sinn í þrjú ár. Árið 2020 féll athöfnin niður og í fyrra voru aðeins viðstaddir útskrifaðir doktorar, forsetar fræðasviða, rektor og aðstoðarrektor og forseti Íslands en að þessu sinni voru gestir einnig boðnir velkomnir.

Sem fyrr segir hafa 86 doktorar lokið námi frá Háskóla Íslands frá 1. desember 2021 og fram til dagsins í dag og tóku þeir við gullmerki Háskóla Íslands við þetta hátíðlega tilefni. Doktorarnir koma af öllum fimm fræðasviðum skólans og í hópnum eru 40 karlar og 46 konur. Sameiginlegar doktorsgráður með erlendum háskólum eru 4 talsins að þessu sinni auk þess sem á árinu útskrifaðist nemandi sameiginlega frá tveimur fræðasviðum skólans. 29% doktoranna eru með erlent ríkisfang. 

Sá merkilegi áfangi náðist í maí síðastliðnum að þúsundasti doktorinn brautskráðist frá Háskóla Íslands. Sú doktorsvörn fór að miklu leyti fram í gegnum fjarfundarbúnað, sem endurspeglar vel þær breytingar og þau tækifæri sem kórónuveirufaraldurinn hafði í för með sér fyrir háskólastarf.

Hefð er fyrir því að forseti Íslands ávarpi brautskráða doktora við athöfnina í Hátíðasal en að þessu sinni átti Guðni Th. Jóhannesson forseti ekki heimangengt. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra var hins vegar viðstödd og færði doktorunum innilegar hamingjuóskir með mikilvægan áfanga. „Það er ástæða til að fagna því að þessi merka stofnun – Háskóli Íslands – ein helsta táknmynd fullveldis þjóðarinnar – náði þeim áfanga í maí á þessu ári að brautskrá þúsundasta doktorinn í rétt rúmlega 110 ára gamalli sögu sinni. Aðeins eru 6 ár frá því skólinn útskrifaði fimmhundraðasta doktorinn þannig að aukningin sýnir mikinn kraft og metnað skólans til að efla rannsóknir og komast ofar í röð æðri menntastofnana í alþjóðlegum samanburði,“ sagði ráðherra í ávarpi sínu.

Þá flutti Rúna Sif Stefánsdóttir, doktor í íþrótta- og heilsufræði, ávarp fyrir hönd nýbrautskráðra doktora. Í ávarpi sínu benti hún á að þó að einni vegferð væri lokið hjá doktorahópnum tæki nú önnur við sem byggði á þeirri fyrri. „Þannig förum við héðan með nýja þekkingu og byggjum ofan á hana í þeim verkum sem við tökum okkur fyrir hendur í samfélagi og atvinnulífi. Doktorsgráðan er þannig lykill að frekari sigrum, ekki bara fyrir okkur sem erum hér inni heldur fyrir samfélagið allt sem þarf stöðugt nýja þekkingu til að takast á við nýjar áskoranir,“ sagði Rúna.

Öflugt doktorsnám styrkir alþjóðlega stöðu HÍ

„Öflugt doktorsnám við Háskóla Íslands hefur styrkt stöðu hans sem alþjóðlega viðurkennds rannsóknaháskóla. Doktorsnám við skólann er eftirsótt af innlendum og erlendum nemendum og verkefnin eru iðulega unnin í alþjóðlegu samstarfi. Um leið gerir það skólanum kleift að sinna hlutverki sínu sem stærsti og breiðasti háskóli þjóðarinnar, háskóli sem brautskráir nemendur á öllum námsstigum á 5 fræðasviðum og í 26 deildum. Þetta er afar mikilvægt því rannsóknir og góð og fjölbreytt menntun eru jafnan talin vera ein helsta forsenda hagvaxtar og aukinnar velsældar þjóða,“ segja þau Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, í ávarpi sínu í riti sem gefið er út í tilefni hátíðarinnar. Þar er að finna yfirlit yfir brautskráða doktora á tímabilinu 1. desember 2021 til 1. desember 2022 auk ýmiss konar fróðleiks um þróun doktorsnáms við HÍ á undangengnum árum. 

Háskóli Íslands óskar þeim stóra og glæsilega hópi sem lokið hefur doktorsnámi frá skólanum undanfarna 12 mánuði innilega til hamingju með áfangann en hann hefur þegar látið til sín taka á fjölbreyttum vettvangi atvinnu- og þjóðlífs og í störfum um heim allan. 

Doktorarnir sem viðstaddir voru athöfnina í dag ásamt háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Vigdísi Finnbogadóttur, rektor, aðstoðarrektor vísinda og forsetum fræðasviða skólans. MYND/Kristinn Ingvarsson