Skip to main content
12. október 2020

Menntamaskínan farin af stað á netinu

""

Nýsköpunarhraðalinn Menntamaskínan (MEMA) er nú farinn af stað í þriðja sinn en um er að ræða framhalsskólaáfanga þar sem sköpunarkraftur ungs fólks er virkjaður til að takast á við áskoranir framtíðarinnar sem finna má í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í ár fást þátttakendur við 11. heimsmarkmiðið, sjálfbærar borgir og samfélög.

Háskóli Íslands er einn meginbakhjarl og samstarfsaðili hraðalsins sem hófst nýlega með svokölluðum þekkingarspretti. Þar leggja sérfræðingar Háskóla Íslands grunn að sköpunarvinnu þátttakenda og dýpka þekkingu þeirra á ólíkum áskorunum sem fylgja heimsmarkmiðinu og tengjast m.a. nýsköpun í ferðaþjónustu, upplifun borgarbúa, tækjabúnaði og mörgu fleiri. Nemendur halda svo áfram þekkingarleit sinni í samkeppni milli framhaldsskóla sem lýkur með spennandi lokaviðburði þar sem hugmyndir þátttakenda verða kynntar fyrir dómnefnd og sigurvegarar valdir. 

Þekkingarspretturinn fór að þessu fram með rafrænum hætti og tóku nemendahópar í sjö framhaldsskólum þátt í línulegri fræðsludagskrá um sjálfbær samfélög sem skipulögð var af Háskóla Íslands, Fab Lab Reykjavík og Reykjavíkurborg. Síðar í haust tekur við röð spretta þar sem nemendurnir fá tækifæri til að sannreyna hugmyndir sínar með aðferðum sem notaðar eru af alþjóðlegum stórfyrirtækjum. Í MEMA læra þátttakendur því að nýta hugvit sitt heiminum til góðs. 

Fjölmargar glæsilegar hugmyndir hafa orðið til í samkeppninni og á liðnu ári bar teymi Menntaskólans í Reykjavík sigur úr býtum með verkefninu Mosaflísar. Það snýst um þróun utanhússklæðiningar fyrir mannvirki úr glertrefjum og hrauni sem mosi vex á og bæði fegrar umhverfið og bætir loftgæði borga. Þess má geta að allir nemendurnir fimm í liði Menntaskólans í Reykjavík eru í dag nemendur við Háskóla Íslands og tveir þeirra, Jason Andri Gíslason og Örn Steinar Sigurbjörnsson, hlutu styrk til náms úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands við upphaf skólaárs. 

Teymi úr MR bar sigur úr býtum í MEMA 2019 með verkefninu Mosaflísar. Liðið skipuðu þau Júlía Sóley Gísladóttir, Jason Andri Gíslason, Örn Steinar Sigurbjörnsson, Kjartan Þorri Kristjánsson og Ólafur Heiðar Jónsson sem öll eru nemendur í Háskóla Íslands í dag.