Skip to main content
22. ágúst 2023

Menntafléttan - aðgengileg starfsþróun fyrir kennara

Menntafléttan - aðgengileg starfsþróun fyrir kennara - á vefsíðu Háskóla Íslands

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, formaður stýrihóps Menntafléttu og forseti Menntavísindasviðs skrifaði eftirfarandi grein sem birtist nýlega á Vísi um Menntafléttu - starfsþróunartækifæri fyrir kennara og fagfólk í menntakerfinu.
Í næstu viku hefst kennsla í flestum grunn- og framhaldsskólum, og í leikskólum hafa elstu börnin verið kvödd og nýir leikskólanemar stíga sín fyrstu skref í fjölbreyttu skólastarfi. Fátt er mikilvægara en sá grunnur sem lagður er að menntun og farsæld barna og ungmenna í skólum landsins, og á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Árið 2019 ákvað Lilja D. Alfreðsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, að fjárfesta í fagþróun kennara og fagfólks í menntakerfinu. Hún setti á laggirnar Menntafléttuna, opna og aðgengilega starfsþróun á landsvísu, í samvinnu við Kennarasamband Íslands, Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Menntafléttan er nú að hefja sitt þriðja starfsár, og stendur kennurum og fagfólki úr skóla- og frístundastarfi til boða að taka þátt í opnum og aðgengilegum vefnámskeiðum, víkka út tengslanet sitt og nýta menntarannsóknir og jafningjastuðning til að efla eigið starf.
Starfsþróun byggð á rannsóknumNámskeið Menntafléttunnar fylgja hugmyndafræði leiðtoganáms og þróun námssamfélags og taka mið af rannsóknum á því hvernig starfsþróun getur best stutt við kennara í starfi. Hugmyndafræði leiðtoganáms gengur í stuttu máli út á það að þátttakendur á námskeiðunum, kallaðir leiðtogar, vinna með viðfangsefni námskeiðanna í námssamfélagi í eigin skóla, með samkennurum eða samstarfsfólki. Hvert námskeið er búið til í samvinnu fræðafólks og fagfólks og byggir á nýjustu þekkingu á viðfangsefninu. Námsefnið er allt aðgengilegt á neti, m.a. stuttar greinar og myndbönd, en áhersla er á gagnvirk samtöl milli sérfræðinga og þátttakenda.

Hagnýt netnámskeið óháð staðsetninguÁ hverju Menntafléttunámskeiði er lögð áhersla á að flétta viðfangsefnið saman við daglegt starf þátttakenda. Raunar er lagt upp með að þátttakendur velji námskeið sem tengist því sem er í deiglunni í viðkomandi skóla eða menntastofnun. Á námskeiðunum eru kynnt til sögunnar verkfæri og kveikjur sem tengjast því að styðja við þróun námssamfélags og verkfæri tengd viðfangsefni námskeiðsins. Námskeiðin ná yfir skólaárið og byggja yfirleitt á fjórum til sex lotum, sem alla jafna fara fram á neti og henta því landsbyggð einkar vel.

Námssamfélag og efling menntunarEinn af rauðu þráðum Menntafléttunnar er að styðja við námssamfélög, bæði innan hvers námskeiðs en ekki síður á vinnustöðum þátttakenda. Gert er ráð fyrir að leiðtoginn nýti efnivið námskeiðs inn í þverfaglegt samstarf á sínum vinnustað og leiði þannig fag- og skólaþróun. Á námskeiðum Menntafléttu verður einnig til vettvangur til samtals milli leiðtoga þvert á skóla, stofnanir og landsvæði. Eitt af höfuðmarkmiðum Menntafléttu er efling menntunar og að valdefla kennara, skólastjórnendur og fagfólk um allt land í þágu náms og þroska nemenda.
Opnuð hefur verið ný vefsíða, menntaflettan.is. Á henni má finna yfirlit yfir öll námskeið, bæði ný námskeið en einnig vinsæl námskeið sem eru aftur í boði. Meðal annars er fjallað um: fjölbreytileika og farsæld í skólastarfi – fjölmenning og fjöltyngi – talna- og aðgerðaskilning- bókmenntir, samþættingu og skapandi skil – kennarann sem rannsakanda – og margt fleira. Nýjung er hin svokallaða Opna Menntaflétta sem hefst í september, en það eru námskeið sem fagfólk getur tekið sjálft og með samstarfsfólki, á eigin hraða og forsendum hvers skóla. Vonandi er Menntafléttan komin til að vera, en fjármögnun tryggir starfsemi út komandi skólaár. Ég hvet því skólastjórnendur, kennara og fagfólk á sviði menntunar til að kynna sér framboðið og nýta námskeið Menntafléttunnar á því skólaári sem nú er að hefjast.
Skráning stendur yfir hér – www.menntaflettan.is

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, formaður stýrihóps Menntafléttu og forseti Menntavísindasviðs