Skip to main content
27. september 2023

Mennta- og barnamálaráðherra heimsótti HÍ vegna samstarfs um eflingu afreksíþrótta

Mennta- og barnamálaráðherra heimsótti HÍ vegna samstarfs um eflingu afreksíþrótta - á vefsíðu Háskóla Íslands

Erlingur Jóhannsson, prófessor í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, vinnur í vistaskiptum í mennta- og barnamálaráðuneytinu með starfshópi um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks. Markmiðið er að efla afreksíþróttastarf þar sem áherslan er m.a. á auknar rannsóknir á sviðinu og greiningu á því hvernig bæta þarf umgjörð afreksíþróttafólks. Samstarfið var rætt í heimsókn Ásmundar Einars Daðasonar mennta- og barnamálaráðherra í Háskóla Íslands þar sem starfshópur ráðherra kynnti vinnu sína.

Samstarf Erlings við ráðuneytið og ÍSÍ grundvallast á samstarfssamningi milli mennta- og barnamálaráðuneytisins og Háskóla Íslands á sviði íþróttamála sem Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Kolbrún Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, undirrituðu í sumar.  

Samningurinn var gerður í kjölfar þess að mennta- og barnamálaráðherra setti á laggirnar starfshóp sem fer yfir og leggur til breytingar á umgjörð, löggjöf og öðru sem þurfa þykir til að stuðningur við afreksíþróttafólk hér á landi verði í fremstu röð. Erlingur á sæti í þeim hópi en hópurinn lýtur forystu Vésteins Hafsteinssonar, afreksstjóra ÍSÍ.  

Við uppbyggingu á umgjörð fyrir íslenskt afreksíþróttafólk þarf að huga að mörgum þáttum, þar á meðal hvernig tengja skal vísindastarf og sérþekkingu innan íslenskra háskóla við afreksstarf innan ÍSÍ og hvernig fjölga má rannsóknar- og þróunarverkefnum og um leið auka nýsköpun í íþróttastarfi um land allt. Einnig skiptir máli hvernig hægt er að auðvelda fremsta afreksfólki landsins að samþætta nám og afreksíþróttaferil, efla menntun íþróttaþjálfara og styrkja afreksbrautir í framhaldsskólum. 

Samstarfssamningur ráðuneytisins og Menntavísindasviðs HÍ um ráðgjöf og sérfræðiþekkingu Erlings tekur mið af þessum og fleiri þáttum sem skipta máli fyrir afreksstarf í íþróttum og íþróttir almennt í landinu. 

„Samstarf ráðuneytisins við háskólann er lykilatriði á þeirri vegferð að auka fagmennsku og árangur í íþróttum til framtíðar. Víðtækt samstarf ráðuneytisins við Háskólann á ýmsum sviðum er þegar farið að skila sér í aukinni þekkingu. Þetta samstarf mun skila sér bæði til háskólans og ráðuneytisins en ekki hvað síst til íþróttahreyfingarinnar í meiri fagmennsku í vinnu með ungu fólki,“ segir Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra.

Erlingur Jóhannsson býr yfir áratugareynslu af rannsóknum á íþróttastarfi og hreyfingu ungs fólks og er auk þess fyrrverandi afreksmaður. Erlingur kynnir hér vinnu starfshópsins fyrri ráðherra, fulltrúum ÍSÍ og HÍ. MYND/Kristinn Ingvarsson

Erlingur Jóhannsson býr yfir áratugareynslu af rannsóknum á íþróttastarfi og hreyfingu ungs fólks og er auk þess fyrrverandi afreksmaður. 

„Mitt hlutverk er fyrst og fremst að styrkja faglega umgjörð afreksstarfsins í framtíðinni. Þetta verður gert meðal annars með því að nýta sérþekkingu og vísindalegar rannsóknarniðurstöður háskólasamfélagsins. Í mínum huga er einnig mikilvægt að efla starfsumhverfi íþróttaþjálfara, m.a. með að bæta menntun, þekkingu og hæfni þeirra. Ég lít á þetta sem gríðarlega spennandi verkefni og í því felast fjölmörg tækifæri að efla þekkingu og nýsköpun á sviði afreksíþrótta,“ segir Erlingur Jóhannsson.

„Í þessu ferli starfshópsins þá er grundvallaratriði að sú vinna sé unnin af fagfólki hvert á sínu sviði. Íþróttahreyfingin verður að tengjast öllum stigum skólakerfisins mjög náið til þess að ná sem mestum árangri í íþróttum í framtíðinni. Menntun og endurmenntun þjálfara er grunnurinn fyrir slíkri þróun auk rannsókna og mælinga á íþróttafólkinu. Það er lykilatriði að háskólasamfélagið á Íslandi vinni saman við það að aðstoða íþróttahreyfinguna að ná sinum markmiðum í framtíðinni og ná árangri á heimsmælikvarða. Að hafa Erling Jóhannsson með okkur í starfshópnum auk þess að vinna að þessu verkefni í hlutastarfi er auðvitað mjög gott enda fagmaður á ferð með góða menntun, íþróttaferil og áratugareynslu við kennslu og rannsóknir,“ segir Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ og formaður starfshóps ráðherra.

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra ásamt fulltrúum úr ráðuneyti hans, Háskóla Íslands og frá ÍSÍ
Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra
Gestir á fundinum.
Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ og formaður starfshóps, ráðherra, kynnir vinnu hópsins.
Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, ræðir um fjölbreytt samstarfsverkefni HÍ og Mennta- og barnamálaráðuneytisins.