Skip to main content
1. desember 2021

Konungasögur sem mannfræðileg heimild

Konungasögur sem mannfræðileg heimild - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin Kontingenz und Zufall in den altisländischen Königssagas eftir Jan Alexander van Nahl, dósent í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Það er De Gruyter sem gefur bókina út.

Í bókinni gerir höfundur tilraun til að lesa konungasögurnar sem mannfræðilegar heimildir í ljósi umbyltinga í heimspeki, guðfræði og bókmenntum frá 12. til 14. aldar. Norrænar konungasögur (Fagrskinna, Heimskringla, Morkinskinna) segja frá atburðum á Norðurlöndum frá goðsagnakenndum tíma allt fram til 13. aldar. Algengt er í miðaldafræðum að litið sé á þessar sögur sem sagnaritun í þeirri merkingu að hér sé um frekar traustar lýsingar á þróun Norðurlandavalda að ræða. Skoðun flestra rannsakenda virðist þá vera sú að konungasögur séu dæmisögur um árangursríka pólitík sem leidd hafi verið af valdamiklum mönnum sem að þessu leyti hafi skapað sína eigin sögu. Þessi skoðun tekur að vísu varla tillit til þess að konungasögurnar eru bókmenntalegar sögur sem urðu til á tímabili þegar margháttaðar byltingar í samfélagi, pólitík, heimspeki, vísindum og bókmenntum áttu sér stað í Evrópu, á tímabíli óvissu og óöryggis sem krafðist nánari skýringar á sögulegri þróun mannsins. Konungasögurnar er að því leyti ekki lýsing á því sem átti sér stað í raun og veru, heldur eru þær bókmenntaleg tilraun til að gera grein fyrir grundvallareglum í þeirri þróun. Þá er áhugavert að megináhersla margra konungasagna er á áskoranir, hindranir og ófarir konungdóms, á meðan árangursríkur konungdómur er reyndar þýðingarlítill í frásögnunum. Margt sem átti sér stað í sögu Norðurlanda gerðist að þessu leyti frekar af ytri aðstæðum og tilviljun en af hæfni drottnara. Skilaboð margra konungasagna virðist því vera að farsæl stjórn á sögulegri þróun sé óskhyggja sem sé langt frá veruleikanum.

Sjá einnig á vef De Gruyter.