Skip to main content
25. janúar 2023

Kolbrún endurráðin forseti Menntavísindasviðs

Kolbrún endurráðin forseti Menntavísindasviðs - á vefsíðu Háskóla Íslands

Kolbrún Þ. Pálsdóttir hefur verið endurráðin forseti Menntavísindasviðs til næstu fimm ára, eða til 1. júlí 2028.

Kolbrún tók við sem forseti sviðsins um mitt ár 2018 en hún hefur starfað við kennslu og rannsóknir innan háskólans í hartnær tvo áratugi. Þá hefur hún margvíslega starfsreynslu af skóla- og frístundastarfi og gegndi m.a. viðamiklum stjórnunarstöðum hjá íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkurborgar þar sem hún tók þátt í stefnumótun og uppbyggingu á frístundaheimilum fyrir 6 til 9 ára börn.

Kolbrún lauk BA-prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 1996, meistaraprófi í uppeldis- og menntunarfræði árið 2001 og doktorsprófi á sviði menntunarfræða frá Uppeldis- og menntunarfræðideild árið 2012. Hún var ráðin lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við Menntavísindasvið árið 2013 og fékk framgang í starf dósents árið 2017.

Rannsóknir Kolbrúnar hafa einkum beinst að tengslum formlegs og óformlegs náms, hlutverki frístundaheimila og hvernig efla megi þverfræðilega samvinnu í skóla- og frístundastarfi í þágu barna. Kolbrún hefur tekið virkan þátt í mótun menntastefnu og umbótaverkefnum á öllum skólastigum auk ráðgjafar við menntamálayfirvöld. 

„Það er mikill heiður að fá tækifæri til að leiða áfram Menntavísindasvið en þar starfa ég með frábæru og metnaðarfullu samstarfsfólki. Fram undan eru spennandi tímar og áframhaldandi uppbygging í samstarfi við fjölmarga hagaðila. Sviðið mun flytja í Sögu á aðalsvæði Háskólans á árinu 2024. Við ætlum okkur að skapa nýja Sögu og búa til kraftmikið menntasamfélag í því glæsilega húsi. Þar munu skapast mikil tækifæri fyrir íslenskt samfélag en ekki síður fyrir starfsfólk og nemendur sviðsins sem verða staðsett í miðju háskólasvæðinu og geta tengst betur öðrum starfseiningum skólans. Ég er handviss um að það muni efla menntarannsóknir enn frekar, fjölga nemendum á sviði menntunar og styðja við samfélagslega nýsköpun í menntakerfinu,“ segir Kolbrún.

„Það er mér afar mikil ánægja að framlengja ráðningu Kolbrúnar til næstu fimm ára. Það hefur verið gríðarleg gróska í starfi Menntavísindasviðs á undanförnum árum, nemendum hefur fjölgað mikið og samstarf við samfélagið og vettvang hefur verið til fyrirmyndar. Flutningur Menntavísindasviðs í Sögu mun skapa mörg  tækifæri og gera háskólanum kleift að sækja enn frekar fram á sviði menntunar og rannsókna í uppeldis- og menntamálum í þágu íslensks samfélags. Um leið rætist langþráður draumur um sameina alla starfsemi HÍ á einum stað og stuðla þannig að enn betri samvinnu ólíkra fræðasviða skólans. Kolbrún hefur staðið sig einstaklega vel sem forseti Menntavísindasviðs og er ég þess fullviss að hún mun halda áfram á sömu braut næstu fimm árin,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Menntavísindasvið Háskóla Íslands er eitt af fimm fræðasviðum Háskóla Íslands. Það skiptist í fjórar deildir: Deild faggreinakennslu, Deild menntunar og margbreytileika, Deild kennslu- og menntunarfræði og Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda. Á Menntavísindasviði starfa um 160 starfsmenn og ríflega 3.000 nemendur stunda nám við sviðið. Að auki skipuleggur sviðið umfangsmikla starfsþróun og fræðslu fyrir kennara og annað fagfólk í skóla- og frístundastarfi.
 

Kolbrún Þ. Pálsddóttir