Skip to main content
1. júlí 2022

Hvaða áhrif hefur samstarf Rússa og Kínverja á norðurslóðum?

Hvaða áhrif hefur samstarf Rússa og Kínverja á norðurslóðum? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með alþjóðamálum undanfarna mánuði að velvild í garð Rússa hefur minnkað hratt í kjölfar innrásar þeirra í Úkraínu. Flestar Evrópuþjóðir og Bandaríkin hafa gagnrýnt innrásina og landið hefur verið beitt viðskiptaþvingunum með það að markmiði að stöðva stríðið. Ekki hafa þó allar þjóðir tekið jafnafdráttarlausa afstöðu gegn Rússum og þeirra hópi eru Kínverjar. Vangaveltur er um hvort þessar tvær nágrannaþjóðir hyggi á nánara samstarf á næstu árum en meðal þeirra sem skoða samstarf þjóðanna og áhrif þess, ekki síst á norðurslóðum, er Guðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir, doktorsnemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

„Bakgrunnur minn er í kínverskum fræðum og alþjóðasamskiptum þannig að áhugi minn á Kína og stjórnmálum hefur verið til staðar í töluverðan tíma. Eftir að ég ákvað að fara í doktorsnám vissi ég að mig langaði til að rannsaka aukna veru Kína á norðurslóðum nánar. Eftir að hafa velt upp hugmyndum með leiðbeinanda mínum og legið undir feldi í einhvern tíma varð þetta lokaákvörðunin að verkefni,“ segir Guðbjörg Ríkey um kveikjuna að verkefninu, sem hún hóf fyrir innrás Rússa í Úkraínu. 

Hún segist enn fremur hafa mikinn áhuga á kínverskum og rússneskum stjórnmálum og öllu sem viðkemur norðurslóðum. „Ég hef líka brennandi áhuga á öllu sem viðkemur öryggis- og varnarmálum. Þetta viðfangsefni fellur því akkúrat inn í mitt áhugasvið.“

Markmið rannsóknarinnar, að sögn Guðbjargar Ríkeyjar, er að greina hvata fyrir auknu samstarfi Kína og Rússlands á norðurslóðum, að hvaða leyti ríkin vinna saman og hvaða afleiðingarnar slíkt samstarf hefur fyrir norðurslóðir. „Ég rýni sérstaklega í hverjar öryggislegu afleiðingarnar eru fyrir norðurslóðir,“ útskýrir Guðbjörg Ríkey enn fremur en hún vinnur að verkefninu undir leiðsögn Page Louise Wilson, dósents við Stjórnmálafræðideild.

Guðbjörg Ríkey hóf sitt doktorsnám árið 2019 og segir rannsóknaverkefni sitt að einhverju leyti enn í mótun. „Það mun byggjast á blandaðri aðferðafræði, það er að segja orðræðugreiningu opinberra skjala og viðtölum við sérfræðinga ásamt því sem ég mun styðjast við megindleg gögn, til að mynda gögn um viðskipti, fjárfestingar og vopnasölu.“

Eins og gefur að skilja eru ekki komnar niðurstöður úr rannsókninni en Guðbjörg Ríkey segir ljóst að öryggismál muni á næstunni fá aukið vægi þegar kemur að umræðu um norðurslóðir. Þá muni mikilvægi tengsla Rússlands við Kína enn fremur hafa áhrif á stjórnmálalegt og öryggisumhverfi norðurslóða, ekki síst í ljósi innrásarinnar í Úkraínu.

„Rannsóknin mun varpa ljósi á hvaða áhrif þetta aukna samstarf hefur á norðurslóðir, stjórnmálin á svæðinu og öryggismál. Það er auðvitað nauðsynlegt fyrir ríki eins og Ísland að skilja, geta greint og tryggt sína stöðu út frá breyttu stjórnmálalegu umhverfi. Þetta samband ríkjanna hefur enn ekki verið rannsakað til hlítar og rannsóknin mun því varpa ljósi á breytt stjórnmálalegt landslag norðurslóða,“ segir Guðbjörg Ríkey að endingu um rannsóknina.
 

Guðbjörg Ríkey Hauksdóttir