Hugbúnaður fyrir bestu röðun skurðaðgerða hlaut Hagnýtingarverðlaun HÍ | Háskóli Íslands Skip to main content
27. mars 2019

Hugbúnaður fyrir bestu röðun skurðaðgerða hlaut Hagnýtingarverðlaun HÍ

""

Hugbúnaður sem aðstoðar stjórnendur spítala við að finna og viðhalda bestu röðun skurðaðgerða hlaut fyrstu verðlaun í samkeppninni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands sem afhent voru í Hátíðasal skólans í dag. Fjaðrandi bátasæti fyrir harðbotna slöngubáta og næringarmeðferð á netinu fyrir fólk með iðraólgu hlutu einnig viðurkenningu á athöfninni. 

Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands voru nú afhent í  21. sinn en markmið þeirra er að laða fram hagnýtanlegar hugmyndir frá starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands og tengdum stofnunum. Verðlaunin eru samstarfsverkefni Háskóla Íslands, fyrirtækisins Árnason|Faktor, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins sem er nýr bakhjarl og stuðningsaðili samkeppninnar.

Að þessu sinni bárust 30 tillögur í samkeppnina en þær hafa aldrei verið fleiri. Hugmyndirnar komu frá fræðasviðum Háskólans og rannsóknasetrum hans og endurspegla vel fjölbreytt viðfangsefni nemenda og starfsfólks skólans á sviði nýsköpunar og hagnýtingar, oft í nánu samstarfi við aðila utan skólans. 

Eftir mikla yfirlegu og umræður komst dómnefnd keppninnar að þeirri niðurstöðu að verkefnið „Betri röðun skurðaðgerða“ skyldi hljóta fyrstu verðlaun að upphæð fjórar milljónir króna. Markmið þess er að hanna kerfi sem aðstoðar stjórnendur og innköllunarstjóra við að finna og viðhalda bestu röðun skurðaðgerða með þar til gerðum reikniritum og líkönum. Hugbúnaðurinn sem nú er í þróun gerir tillögu að röðun og sýnir svo áhrif röðunar á flæði sjúklinga um skurðstofur, gjörgæslu, vöknun og legudeildir.

Dómnefnd telur verkefnið afar brýnt með augljósan samfélagslegan ávinning og hagnýtingarmöguleika. „Með nýstárlegri nálgun hafa aðstandendur verkefnisins þróað einfalda og sveigjanlega lausn á flóknu viðfangsefni. Dómnefnd telur verkefnið vera frábært dæmi um þann kraft sem hægt er að leysa úr læðingi þegar fólk starfar saman að sameiginlegu markmiði þvert á fræðasvið og stofnanir. Verkefnið er aðstandendum þess, Háskóla Íslands og Landspítala – háskólasjúkrahúsi til sóma,“ segir í umsögn dómnefndar. 

Að verkefninu standa Rögnvaldur Sæmundsson, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, Tómas Philip Rúnarsson, prófessor við sömu deild, Vigdís Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss, og Ásgeir Örn Sigurpálsson, Andri Páll Alfreðsson, Gunnar Kolbeinsson og Helgi Hilmarsson, nemar við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild.

Önnur verðlaun að upphæð tvær milljónir króna hlaut verkefnið „SAFE seat“. Verkefnið snýst um að þróa fjaðrandi bátasæti til að vernda farþega harðbotna slöngubáta fyrir höggum og titringsálagi. Framleiðslan á öruggum bátasætum á að vera hagkvæmari en á þeim sætum sem nú eru í boði og því aðgengilegri fyrir fleiri. Það er gert með einfaldri hönnun, færri íhlutum og nýtingu eiginleika trefjaplasts til að skapa fjaðrandi hreyfingu og þrýstiloftstækni til höggdeyfingar. Einföld samsetning á sætinu tryggir lágmarksviðhald og trefjaefnið endist jafn lengi og báturinn sjálfur. 

Í umsögn dómnefndar segir m.a. að samfélagslegur ávinningur verkefnisins felist í því að ef þróuð sé ódýrari lausn en þær sem þegar eru þekktar sé líklegra að fleiri nýti sér hana. Þannig megi draga úr slysum. „Líklegt er að markhópur vörunnar sé afar stór. Verkefnið er gott dæmi um hvernig hægt er að hlúa að hugviti til ávinnings fyrir alla sem að koma með því að veita aðgengi að þekkingu, reynslu og aðbúnaði. Að verkefninu koma auk þess margir öflugir samstarfsaðilar úr atvinnulífinu og fagnar dómnefnd því.“ 

Að verkefninu standa Svavar Konráðsson, meistaranemi við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild, Birgir Fannar Birgisson iðnhönnuður og Páll Einarsson vöruhönnuður. 

Þriðju verðlaun að upphæð ein milljón króna komu í hlut verkefnisins „Rafræn næringarmeðferð fyrir einstaklinga með iðraólgu“. Iðraólga er krónískur kvilli í meltingarvegi sem einkennist af margvíslegum verkjum sem geta haft neikvæð áhrif á lífsgæði þeirra sem við hana kljást. Tíðni iðraólgu er metin á bilinu 12-30% en mataræðis- og lífsstílsbreytingar eru ásamt lyfjagjöf taldar grundvallaratriði í meðferð við kvillanum. Svokallað lág-FODMAP mataræði hefur reynst vel í meðferð iðraólgu en leiðbeiningar um það eru flóknar og erfitt er fyrir einstaklinga að finna áreiðanlegar upplýsingar varðandi það upp á eigin spýtur auk þess sem fáir sérfræðingar í lág-FODMAP mataræði eru á Íslandi. Verkefnið snýst um að koma á fót vettvangi á netinu þar sem fólk með iðraólgu getur nálgast þrjár mismunandi leiðir af næringarmeðferð sem felur í sér áreiðanlega upplýsingagjöf og fræðslu ásamt aðgengilegu stoðefni. 

Dómnefnd Hagnýtingarverðlaunanna telur verkefnið líklegt til að hafa afar jákvæð samfélagsleg áhrif þar sem það mun nýtast vel stórum hópi fólks og auka lífsgæði þess. „Verkefnið er gott dæmi um hvernig hægt er að nýta tækni til að koma upplýsingum um nýjustu rannsóknir og þekkingu um tiltekið svið til þeirra sem mest þurfa á því að halda. Þannig er auk þess hægt að auka þjónustu verulega við hóp sem annars ætti erfitt með að nálgast sérfræðiþjónustu og veita aðstoð í krefjandi meðferðarferli,“ segir einnig í umsögn dómnefndar.

Að verkefninu stendur Ingunn Erla Ingvarsdóttir, næringarfræðingur á Rannsóknastofu Háskóla Íslands og Landspítala í næringarfræði, en hún hefur unnið verkefnið í samstarfi við Ingibjörgu Gunnarsdóttur, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, Svövu Engilbertsdóttur, aðstoðardeildarstjóra næringarstofu Landspítala, og Einar Stefán Björnsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. 

Smiðshöggið rekið á fundaröð Háskóla Íslands um nýsköpun
Samhliða afhendingu Hagnýtingarverðlauna Háskóla Íslands var botninn sleginn í fundaröðina „Nýsköpun – Hagnýtum hugvitið“ sem Háskóli Íslands hefur staðið fyrir í vetur. Fundaröðinni lauk með erindinu „Beiting gervigreindar í svefnlæknisfræði“ en þar fjölluðu þau Jón Skírnir Ágústsson, rannsóknarstjóri Nox Medical, Heiðar Már Þráinsson, nemandi við Háskóla Íslands, og Hanna Ragnarsdóttir, nemandi við Háskólann í Reykjavík, um samstarfsverkefni fyrirtækisins og háskólanema sem skilaði tveim þeim síðastnefndu ásamt þeim Róberti Inga Huldarsyni og Eysteini Gunnlaugssyni Nýsköpunarverðlaunum forseta Íslands á dögunum. 

Myndir Kristins Ingvarssonar frá athöfninni.

Aðstandendur verkefnanna þriggja sem fengu viðurkenningu á Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands fyrr í dag ásamt rektor Háskóla Íslands og formanni dómefndar.