Hlutu styrk til að ljúka námi í leikskólakennarafræði | Háskóli Íslands Skip to main content
9. ágúst 2017

Hlutu styrk til að ljúka námi í leikskólakennarafræði

Samband íslenskra sveitarfélaga, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda leikskóla hafa undanfarið ár unnið að verkefni undir yfirskriftinni „Karlar í yngri barna kennslu“. Meginmarkmið verkefnisins er tvíþætt, annars vegar að vekja athygli ungra karla á starfi kennara í leikskólum og hins vegar að fjölga þeim í starfi. Samstarfsaðilar hlutu styrk úr Jafnréttissjóði Íslands til að vinna að verkefninu árið 2016.

Í mars síðastliðnum var auglýst eftir karlkyns verkefnisstjórum og ákveðið að veita þremur þeirra styrk til að hefja meistaranám sem veitir leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi. Alls sóttu 16 um námsstyrk verkefnisstjóra en hlutverk þeirra er að kynna nám og starf leikskólakennara fyrir öðrum karlmönnum með það að markmiði að fjölga þeim í náminu.

Stýrihópurinn valdi þrjá úr hópi umsækjenda. Það eru þeir Eysteinn Sindri Elvarsson og Magnús Hilmar Felixson sem verða í námi við Háskólann á Akureyri og Birkir Guðjón Sveinsson við Háskóla Íslands.

Arna H. Jónsdóttir lektor, Kristin Dýrfjörð dósent, Eysteinn Sindri Elvarsson og Birkir Guðjón Sveinsson
Anna Elísa Hreiðarsdóttir, lektor og Magnús Hilmar Felixson