Skip to main content
25. október 2022

Hlaut viðurkenningu bresku mannfræðistofnunarinnar

Hlaut viðurkenningu bresku mannfræðistofnunarinnar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Gavin Lucas, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands, hefur hlotið Rivers Medal viðurkenninguna frá bresku mannfræðistofnuninni The Royal Anthropological Institute. Viðurkenningin var veitt við hátíðlega athöfn i Lundúnum í liðinni viku. Gavin hlaut verðlaunin fyrir framlag sitt til kennilegrar fornleifafræði og aðferðafræði. 

Rivers Medal verðlaunin hafa verið veitt síðan 1923 í minningu William Halse Rivers sem var forseti stofnunarinnar. Viðurkenningin er mikill heiður og margir af fremstu fræðimönnum á sviði mannfræði og fornleifafræði hafa áður hlotið verðlaunin og má þar nefna A.C. Haddon, Edward Westermarck, Raymond Firth, Meyer Fortes, Edward Evans-Pritchard og Bronislaw Malinowski. Af yngri handhöfum má nefna Max Gluckman, Mary Douglas, Rodney Needham og J.R. Goody.

Gavon Lucas að störfum á Arnarstapa á Snæfellsnesi.

Gavin Lucas lauk doktorsnámi við Cambridge-háskóla en hefur starfað við Háskóla Íslands frá 2006 og hafa rannsóknir hans beinst að fornleifafræði nýaldar og fornleifafræðikenninga. Hann hefur stýrt fjölda rannsóknaverkefna hér á landi, m.a. í Skálholti, Viðey og Seltjarnarnesi en auk þess unnið við fornleifarannsóknir víða um heim, t.d. á Ítalíu og Suður-Afríku. Gavin hefur birt fjölda greina um fornleifafræðikenningar og er höfundur nokkurra bóka, þ.á m. Understanding the Archaeological Record (Cambridge University Press, 2012), Writing the Past (Routledge, 2019), Making Time (Routledge, 2021) og Archaeological Situations (Routledge, 2022).

Nánar um Rivers Medal verðlaunin.

Gavin Lucas