Hlaut Norrænu jarðfræðiverðlaunin
Ólafur Ingólfsson, prófessor emeritus við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, hlaut á dögunum Norrænu jarðfræðiverðlaunin (e. Nordic Geoscientist Award).
Verðlaunin voru afhent á Norræna vetrarmótinu sem fór fram í Háskóla Íslands dagana 11.-13. maí síðastliðinn. Mótið er haldið á tveggja ára fresti til skiptist í norrænu ríkjunum og er þetta í fimmta sinn sem það er haldið á Íslandi en alls hefur mótið verið haldið í 35 skipti.
Norrænu Jarðfræðiverðlaunin voru fyrst veitt árið 2012 og er þetta í annað sinn sem íslenskur prófessor hlýtur verðlaunin. Áður hafði Páll Einarsson, prófessor emeritus, hlotið þau árið 2018.
Meðlimir í jarðfræðafélögum Norðurlanda geta tilnefnt til verðlaunanna en þau eru veitt einstaklingi sem hefur þykir hafa skarað fram úr á sínu fagsviði og ekki síst komið þekkingu sinni áfram til samfélagsins. Þess ber að geta að tilnefning Ólafs kom frá þremur löndum, sem hefur ekki áður komið fyrir í sögu verðlaunanna, og var dómnefndin einróma í niðurstöðu sinni.
Í aðalfyrirlestri ráðstefnunnar fór Ólafur yfir rannsóknir sínar og annarra á tilvist og útbreiðslu jökla á Berentshafssvæðinu.
Við veitingu viðurkenningarinnar fékk Ólafur afhentan verðlaunagrip en hönnun hans er háð þeim skilyrðum að vera gerður úr bergi frá því landi þar sem ráðstefnan er haldin. Verðlaunagripurinn í ár var hannaður af Önnu Líndal listakonu og gerður úr hraunkjarna úr Fagradalshrauni en svo heitir nýja hraunið sem rann í gosinu í Geldingadölum á síðasta ári.
Þess má geta að Ólafur hlaut kennsluviðurkenningu Verkfræði- og náttúruvísindasviðs árið 2019 fyrir lofsverðan árangur á sviði kennslu í námskeiðum.
Háskóli Íslands óskar Ólafi hjartanlega til hamingju með þessa glæsilegu viðurkenningu.