Skip to main content
29. nóvember 2023

HÍ og Hallormsstaðaskóli hyggja á samstarf um háskólanám í skapandi sjálfbærni

HÍ og Hallormsstaðaskóli hyggja á samstarf um háskólanám í skapandi sjálfbærni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Bryndís Fiona Ford, skólameistari Hallormstaðaskóla, hafa ritað undir viljayfirlýsingu um að skólarnir tveir hefji formlegar viðræður um samvinnu um nám í skapandi sjálfbærni á háskólastigi sem fram færi við Hallormstaðaskóla á vegum Háskóla Íslands. Undirritunin fór fram í Hallormsstaðaskóla í gær.

Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir brýnum áskorunum vegna bæði samfélagsbreytinga, loftlagsbreytinga og þjóðflutninga á alþjóðavísu. Nám í Hallormsstaðaskóla hefur á síðustu árum tekið breytingum í takt við þessa þróun, þar sem nýsköpun og sjálfbærni er höfð að leiðarljósi, og á sama tíma hefur Háskóli Íslands lagt vaxandi áherslu á sjálfbærni í rannsóknum og kennslu, m.a. með innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í starfsemi skólans. 

Stjórnendur skólanna tveggja sjá þarna tækifæri til samstarfs og hafa því átt í viðræðum um þróun þess undanfarna mánuði, m.a. með tengingu við kennaranám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Viljayfirlýsingin, sem nú hefur verið undirrituð, er afrakstur þeirrar vinnu en markmiðið er m.a. að efla háskólanám á Austurlandi. Fram kemur í viljayfirlýsingunni að með samstarfi við Hallormsstaðaskóla verði hægt að bjóða nemendum Háskóla Íslands upp á sérhæft og verklegt rannsóknarnám undir faglegri handleiðslu sérfræðinga á sviði sjálfbærni, hönnunar, umhverfis- og loftlagsbreytinga, matvælagerðar og fleiri greina. 

Sérstökum starfshópi verður falið að meta hvaða samstarfsform henti best til að tryggja gæði slíks náms í samræmi við reglugerð og viðmið um æðri menntun og prófgráður. Báðir aðilar munu eiga tvo fulltrúa í þeim hópi en fyrir hönd HÍ leiðir Menntavísindasvið þá vinnu. Samhliða því mun háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið veita faglegan stuðning og leiðsögn eftir því við á. Gert er ráð fyrir að endanleg áform um samstarf ásamt niðurstöðu fýsileikagreiningar liggi fyrir eins fljótt og kostur er. 
 

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í Hallormsstaðaskóla. Frá vinstri: Bryndís Fiona Ford, skólameistari Hallormsstaðarskóla, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. MYND/Gunnar Gunnarsson/Austurfrétt