Skip to main content
1. júní 2023

HÍ í hópi þeirra 400 háskóla sem hafa mest samfélagsáhrif

HÍ í hópi þeirra 400 háskóla sem hafa mest samfélagsáhrif - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands er í hópi þeirra 400 háskóla sem hafa mest samfélagsleg og efnhagsleg áhrif út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna samkvæmt lista tímaritsins Times Higher Education sem birtur var í morgun. Skólinn hækkar á listanum á milli ára en þetta er í fimmta árið í röð sem skólinn kemst á hann.

Listinn ber heitið Times Higher Education (THE) Impact Rankings og hefur verið gefinn út frá árinu 2019. Hann byggist á mati á mati tímaritsins á því hvernig háskólar uppfylla tiltekna mælikvarða sem snerta samfélagsleg og efnahagsleg áhrif um allan heim og framlag til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem eru 17 talsins. Heimsmarkmiðin snerta eins og kunnugt er helstu áskoranir mannskyns, þar á meðal baráttuna við fátækt og hungur í heiminum, aukið fæðuöryggi, heilsu og vellíðan, jafnrétti kynjanna, aðgengi að vatni og orku, ábyrga neyslu og framleiðslu, aðgerðir í loftslagsmálum, verndun úthafanna og sjálfbæra nýtingu vistkerfa.

Í mati Times Higher Education er horft til allra markmiðanna 17 og fær hver skóli einkunn fyrir frammistöðu sína í tengslum við hvert og eitt heimsmarkmið. Þar er tekið mið að fjórum breiðum sviðum: rannsóknum, stjórnun þess mannauðs (e. stewardship) sem skólinn býr yfir  (e. stewardship), samstarfi við nærsamfélag og kennslu. Röðun háskólanna á listannn byggist svo á frammistöðu þeirra á sviði þriggja heimsmarkmiða þar sem hver háskóli stendur sterkastur að vígi auk frammistöðu sem tengist markmiði 17, Samvinnu um markmiðin. 

Háskóli Íslands sækir töluvert í sig veðrið milli ára og hækkar á sjö listum sem taka til einstakra heimsmarkmiða. Skólinn er talinn standa fremst í heimsmarkmiðum sem snerta nýsköpun og uppbyggingu (markmið 9), ábyrga neyslu og framleiðslu (markmið 12) og heilsu og vellíðan (markmið 3). Þá er skólinn í sæti 101-200 þegar kemur að heimsmarkmiði 17 en til samanburðar var hann í sæti 601-800 í fyrra. Samanlagt er Háskóli Íslands í sæti 301-400 á Impact Ranking listanum í ár en í fyrra var hann í sæti 401-600. Alls voru 1.700 háskólar í 115 löndum metnir að þessu sinni. 

Impact Rankings listinn er ólíkur öðrum þekktum listum yfir fremstu háskóla heims að því leyti að þar er ekki bara horft til vísindastarfs, kennslu og áhrifa í alþjóðlegu vísindasamfélagi heldur áhrifa á nærsamfélag og alþjóðasamfélag. Fremstu skólarnir á þessum lista eru því ekki endilega þeir sömu og teljast bestir í rannsóknum og kennslu samkvæmt þekktum matslistum heldur þeir sem leggja mikla áherslu á að leggja sem mest af mörkum til baráttu samfélaga við helstu áskoranir heims. 

Háskóli Íslands leggur í stefnu sinni, HÍ26, m.a. bæði áherslu á að skólastarfið hafi áhrif á nærsamfélagið með sem víðtækustum hætti og að tekist sé á við þær áskoranir sem finna má í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með sjálfbærni að leiðarljósi. Jafnframt leggur skólinn áherslu á að vera opinn og alþjóðlegur sem felur m.a. í sér að auka alþjóðleg áhrif hans, bæði í kennslu, námi, rannsóknum og nýsköpun. Þessir síðastnefndu þættir verða einmitt í forgrunni á ársfundi skólans sem fer fram á morgun, föstudaginn 2. júní.

Yfirlit yfir áhrifamestu háskóla heims samkvæmt Times Higher Education er að finna á vefsíðu tímaritsins.

Háskólatorg