Háskóli Íslands stofnar til samstarfsnets við UNESCO | Háskóli Íslands Skip to main content
27. apríl 2017

Háskóli Íslands stofnar til samstarfsnets við UNESCO

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirritaði UNITWIN-samstarfssamning við Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) og 17 aðra háskóla í fjórum heimsálfum miðvikudaginn 26. apríl. Þetta er í fyrsta sinn sem Háskóli Íslands tekur þátt í slíku samstarfsneti. 

Helstu markmið samstarfssamningsins eru að treysta vísindasamstarf, hæfni og bjargir á sviði ráðgjafar til þeirra sem standa höllum fæti á vinnumarkaði og hafa til þessa haft lítið aðgengi að náms- og starfsráðgjöf eða framhaldsmenntun. Íslendingar geta miðlað góðri reynslu á þessu sviði þar sem fullorðnu fólki býðst náms- og starfsráðgjöf innan símenntunarstofnana í landinu. Markmið samstarfsins er jafnframt að efla þekkingu og framkvæmd tengda náms- og starfsráðgjöf alla ævi sem stuðlar bæði að mannsæmandi starfi fyrir fólk og sjálfbærri þróun starfa. Mannsæmandi störf tryggja frelsi, félagsleg réttindi og sómasamlegar vinnuaðstæður skv. Alþjóðavinnumálastofnuninni og sérfræðingar í náms- og starfsráðgjöf benda jafnframt á að í mannsæmandi starfi fái fólk tækifæri til að vaxa og dafna.  

Viðstödd undirritun voru þau Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir, aðalritari íslensku UNESCO-nefndarinnar, Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor í náms- og starfsráðgjöf, Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar, og Jón Atli Benediktsson rektor sem undirritaði samninginn fyrir hönd Háskóla Íslands. 

Frá undirritun samningsins. Efri röð frá vinstri: Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, og Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar. Neðri röð frá vinstri: Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor í náms- og starfsráðgjöf, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir, aðalritari íslensku UNESCO-nefndarinnar.
Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, Jón Atli Benediktsson og Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir við undirritun samningsins.