Skip to main content
19. október 2023

Haflæsi kennt í gegnum leiklist

Haflæsi kennt í gegnum leiklist - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jóna Guðrún Jónsdóttir, aðjunkt í leiklist, og Rannveig Björk Þorkelsdóttir, dósent í leiklist, sem báðar starrfa við Menntavísindasvið voru að hefja Erasmus+ verkefnið Promoting Ocean Literacy and Environmental Sustainability in School Communities eða „Að stuðla að haflæsi og sjálfbærni í skólasamfélögum“. Það er samstarfsverkefni fjögurra Evrópuþjóða: Íslands, Grikklands, Rúmeníu og Portúgals. 
Um er að ræða kennsluverkefni sem heitir SJÁVARSÖGUR þar sem leitast er við að styðja kennara í grunn- og framhaldsskólum til að þróa og auka þekkingu sem gerir þeim kleift að innleiða menntun á sviði haflæsis í gegnum leiklist og kynna þannig fyrir nemendum hugmyndafræði og verklag sem getur stuðlað að því að byggja upp kynslóð haflæsra, framtakssamra og ábyrgra borgara, samfélaginu til heilla.

„Verkefnið miðar meðal annars að því að greina þarfir kennara varðandi undirbúning og aukna þjálfun, sér í lagi í tengslum við námsefni og leiklist. Auk þess er stefnt að samstarfi við utanaðkomandi hagsmunaaðila varðandi hönnun vinnusmiðja, skipulagningu alþjóðaráðstefnu um þjálfun kennara og staðbundnar æfingalotur þeim til stuðnings við framkvæmd verkefnisins SJÁVARSÖGUR. Einnig er um að ræða úrval af hlaðvörpum ásamt uppbyggjandi og skýrandi myndböndum til stuðnings kennurum, dæmum um rafræna frásagnarlist og safn rafræns efnis sem nota má sem fordæmi,“ segir Jóna Guðrún.

Verkefnið miðar að hönnun og þróun námsefnisins SJÁVARSÖGUR og þjálfun kennara til að bæta þekkingu þeirra á viðfangsefnum í tengslum við hafið. Það mun gera þeim kleift að auka fjölbreytni og virkni í kennsluaðferðum á þessu sviði. Notast verður við stafrænt umhverfi þar sem niðurstöður verkefnisins verða opnar og aðgengilegar öllum auk þess sem sérhæfðir stuðningsaðilar munu dýpka þekkingu nemenda og hvetja til ævilangrar fylgni við verndun úthafsins og friðun náttúrunnar.

Rannveig Björk Þorkelsdóttir, og Jóna Guðrún Jónsdóttir