Skip to main content
28. desember 2016

Guðrún Larsen hlýtur verðlaun Ásusjóðs

Guðrún Larsen, jarðfræðingur og vísindamaður emerita við Jarðvísindastofnun Háskólans, hlýtur viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright fyrir árið 2016. Guðrún tók við verðlaununum á Þjóðminjasafninu í dag, miðvikudaginn 28. desember, að viðstöddum forseta Íslands, stjórn Vísindafélags Íslendinga, þjóðminjaverði og fulltrúum fræðasamfélagsins.

Verðlaun úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright eru veitt þeim íslenskum vísindamanni sem náð hefur framúrskarandi árangri á sérsviði sínu í vísindum eða fræðum og miðlað þekkingu sinni til framfara í íslensku þjóðfélagi. Guðrún Larsen jarðfræðingur hefur stundað viðamiklar rannsóknir á gjóskulögum eldfjalla og ekki síst Vatnajökulskerfisins sem hún telur að muni sýna áframhaldandi eldvirkni næstu ár eða áratugi. Fyrir það hlýtur hún Ásuverðlaun Vísindafélags Íslendinga fyrir árið 2016.

Guðrún Larsen er fædd 1. nóvember 1945 á Akureyri. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1964, BS-prófi í jarðfræði frá Háskóla Íslands árið 1975 og fjórða árs prófi frá Háskóla Íslands 1978 þar sem aðalgrein var gjóskulagafræði. Guðrún stundaði doktorsnám við Edinborgarháskóla á árunum 1998-2002 með fram starfi sínu við Háskóla Íslands. Vegna viðvarandi skjálftavirkni í vestanverðum Mýrdalsjökli var ráðist í að gera hættumat fyrir jökulhlaup frá Mýrdalsjökli til vesturs árið 2003. Guðrún tók þátt í þessu verkefni og var þá frekara námi frestað.

Guðrún hefur verð jarðfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans frá stofnun hennar 2004 en áður starfaði hún við Jarðfræðastofu Háskólans og var hún lærisveinn Sigurðar Þórarinssonar í gjóskulagafræðum og vann með Sigurði Steinþórssyni að því að meta kornagerð í öskulagi frá Heklu.

Helstu rannsóknarverkefni Guðrúnar hafa verið gjóskutímatal sem tímasetningaraðferð og tæki í eldfjallarannsóknum. Tók hún við því rannsóknarstarfi og þeirri arfleifð sem Sigurður Þórarinsson lét eftir sig. Hún hefur enn fremur rekið gossögu eldstöðvakerfa á ystra gosbeltinu svokallaða og sögu eldstöðva undir Vatnajökli. Hún hefur einnig staðfest tengingar gjóskulaga við eldstöðvar/eldstöðvakerfi með efnagreiningum og kortlagningu og metið tíðni og stærð þeytigosa á nútíma. Þá hefur Guðrún unnið hættumat, einkum vegna jökulhlaupa og gjóskufalls, mælt tímasetningar á ís í íslenskum jöklum með gjóskutímatali, unnið að rannsóknum og tímasetningum á umhverfisbreytingum og mannvistarleifum og rannsakað gjóskulagaskipan í sjávarseti á norðanverðu landgrunni og tengingu þess við gjóskulagaskipan á landi.

Guðrún hefur birt yfir 118 ritrýndar greinar og bókarkafla, yfir 30 rannsóknarskýrslur og unnið að níu jarðfræðikortum. Meðhöfundar hennar eru fjölmargir, jafnt íslenskir sem erlendir vísindamenn, og samstarfsstofnanir hennar margar.

Nýlega var Guðrún einn af ritstjórum opinnar vefsíðu yfir allar íslenskar eldstöðvar sem finna má á vef Veðurstofu Íslands undir heitinu FutureVolc. Síðan inniheldur 32 kafla um einstök eldstöðvakerfi. Auk þess er hún höfundur eða meðhöfundur 10 kaflanna. Þar fjallar hún um Bárðarbungu, Eldey, Grímsnes, Grímsvötn, Heklu, Kötlu, Oddnýjarhnjúk-Langjökul, Torfajökul og Þórðarhyrnu.

Guðrún er einnig einn aðalhöfunda hins mikla rits Náttúruvá á Íslandi - Eldgosa og jarðskjálfta sem Viðlagatrygging Íslands og Háskói Íslands gáfu út árið út 2013. Þar er Guðrún meðhöfundur fjölmargra kafla, svo sem um innræn öfl og uppbyggingu Íslands, eldvirk svæði á Íslandi og um eldgos. Hún er meðhöfundur kafla um gjósku og jökulhlaup og fjallar einnig um einstakar eldstöðvar, svo sem Heklu, Kötu og Vatnajökulsgosstöðvarnar Grímsvötn, Bárðabungu og Veiðivötn, Kverkfjöll og fleiri. Mjög margar tilvitnanir eru gerðar í önnur birt rit Guðrúnar í bókinni.

Vatnajökulseldstöðvar hafa valdið litlu tjóni á fyrri öldum þar sem svæðið er afskekkt en áhrif á virkjanir geta verið alvarleg. Töluverðar líkur eru á flóðum í ám sem renna ýmist suður eða norður frá íshellu Vatnajökuls. Sex sprungugos hafa orðið á síðustu 1.100 árum eða á 500 ára fresti. Síðasta stórgos stóð frá 31. ágúst 2014 til 27. febrúar 2015 og þakti Holuhraun og myndaði Nornahraun eða Holuhraun hið nýja. Rannsóknir á gjóskulögum á sporðum Vatnajökuls benda til að eldstöðvarnar í Vatnajökli gjósi gjarnan á svipuðum tíma og að eldvirknin þar sé lotubundin og nái hámarki á 130-140 ára fresti. Telur Guðrún að vænta megi áframhaldandi eldvirkni á svæðinu í ljósi gossögu eldstöðvanna undir Vatnajökli. Fimm stórar vatnsaflsvirkjanir gætu orðið fyrir truflunum og skemmdum vegna eldgosa á suðurhluta kerfisins.

Um Verðlaunasjóð Ásu Guðmundsdóttur Wright

Stofnandi Verðlaunasjóðsins var frú Ása Guðmundsdóttir Wright. 48 ár eru liðin frá því að hún gaf Vísindafélagi Íslendinga peningagjöf á hálfrar aldar afmæli félagsins, hinn 1. desember 1968.

Ása Guðmundsdóttir, stofnandi sjóðsins, lifði viðburðarríkri ævi. Hún fæddist að Laugardælum í Árnessýslu hinn 12. apríl 1892 og var dóttir Guðmundar læknis Guðmundssonar og Arndísar Jónsdóttur. Ung hélt Ása utan og lagði stund á hjúkrunar- og ljósmóður nám í Lundúnum. Dvaldi hún hjá Lord Buckmaster sem var stallari konungs og fékk hún því að ganga fyrir konung. Á siglingu heim úr námi kynntist hún enskum lögmanni, dr. Henry Newcomb Wright, sem hún gekk að eiga. Ása og eiginmaður hennar settust að lokum að á Trínídad í Vestur-Indíum sem þá var bresk nýlenda. Þar ráku þau hjón plantekru í fögru landsvæði í Arima-dal. Ása og Newcomb voru barnlaus og ráðstafaði Ása jarðeign sinni til félags fuglaskoðara og stofnaði fuglafriðland. Búgarðurinn, Spring Hill, heitir nú Asa Wright Nature Centre.

Andvirði bújarðarinnar í dollurum varði Ása meðal annars til stofnunar sjóðs í tengslum við Vísindafélag Íslendinga sem undanfarin 48 ár hefur veitt viðurkenningu Íslendingi sem unnið hefur veigamikið vísindalegt afrek á Íslandi eða fyrir Ísland. Breytingar á gengi og verðbólga rýrði sjóðinn.

Hollvinir sjóðsins eru  fyrirtækin Alcoa Fjarðaál og HB Grandi. Þeir gera sjóðnum kleift að veita árlega ein veglegustu verðlaun sem veitt eru til vísindamanna hér á landi og þakkar sjóðstjórnin þeim fyrirtækjum kærlega fyrir stuðninginn.

Verðlaunin eru heiðursskjal og silfurpeningur með lágmynd Ásu og merki Vísindafélags Íslendinga, nafni þiggjanda og ártali sem er grafið í jaðarinn. Í ár fylgir jafnframt þriggja milljóna króna peningagjöf frá hollvinum sjóðsins 

Verðlaunasjóður Ásu Guðmundsdóttur Wright er skipaður þremur stjórnarmönnum. Þau eru Sveinbjörn Björnsson, prófessor og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, Þráinn Eggertsson prófessor og Sigrún Ása Sturludóttir, M.Sc., sem er stjórnarformaður. 

Guðrún Larsen
Sigrún Ása Sturludóttir og Guðrún Larsen
Guðrún Larsen
Guðrún Larsen
Sigrún Ása Sturludóttir og Guðrún Larsen
Guðrún Larsen