Skip to main content
1. september 2022

Fræðafólk á Menntavísindasviði tók á móti Erasmus+ styrkjum á dögunum

Fræðafólk á Menntavísindasviði tók á móti Erasmus+ styrkjum á dögunum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fræðafólk á Menntavísindasviði Háskóla Íslands tók á móti tveimur Erasmus+ styrkjum þann 25. ágúst síðastliðinn. Annars vegar fyrir verkefnið: Aðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifum stafrænnar tæknivæðingar (e. Taking action for reducing the environmental impact of digitalisation), skammstafað EcoDigital  og hins vegar: Fiktað fyrir sjálfbærni í skólum (e. Tinkering for sustainability at School).
„Markmið verkefnisins  er að hvetja nemendur, kennara og námssamfélög til að átta sig á að stafrænni tæknivæðingu fylgir rusl og sóun. Mikilvægt er að þróa jákvæðar breytingar á hegðun ungs fólks með það að markmiði að koma slíkri hegðun á framfæri í samfélaginu,“ segir Rannveig Björk Þorkelsdóttir sem leiðir verkefnið Aðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifum stafrænnar tæknivæðingar ásamt Jónu Guðrúnu Jónsdóttur og Ólafi Guðmundssyni fyrir hönd Háskóla Íslands.

„Markmiðið er jafnframt að þróa fræðsluefni og útbúa verkfæri sem ætlað er að efla græna og stafræna færni í grunnskólum og framhaldsskólum fyrir nemendur og kennara. Vitundarvakning sem mun einnig ná almennt út í samfélagið og fá fólk til að leiða hugann að því að til dæmis skýið taki ekki endalaust við þar sem það er knúið áfram af orku, mikilvægi þess að hreinsa tölvupóstinn o.s.frv.“

Mikil áhersla er almennt á stafræna væðingu á öllum stigum samfélagsins en henni fylgir gríðarlegur útblástur koltvísýrings að sögn Rannveigar. „Netinu fylgir 900 milljóna tonna útblástur af koltvísýringi árlega, meira en útblástur Þýskalands í heild sinni, auk þess sem nýjustu rannsóknir benda til þess að eftir áratug muni 20 prósent af heildarorkunotkun heimsins fara í netið. Verkefninu er ekki ætlað að koma með töfralausnina við þessum losunarvanda heldur vekja námssamfélög og almenning til vitundar um hvernig hægt er að minnka kolefnisfótsporið. Það verður vonandi til þess að við drögum úr umhverfisáhrifum stafrænnar tæknivæðingar,“ segir Rannveig.

Fiktað fyrir sjálfbærni í skólum (e. Tinkering for sustainability at School) nefnist hitt verkefnið sem hlaut einnig Erasmus+ styrk á dögunum en Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki við Menntavísindasvið, leiðir það fyrir hönd Háskóla Íslands. Markmið verkefnisins er að styðja við kennara sem vilja stuðla að sjálfbærni í skólum, bæði í formlegri og óformlegri menntun. Verkefnið er unnið með grískum félagasamtökum og Vísindasafninu í Amsterdam sem hefur þróað svokallaðar fiktaðferðir (e. Tinkering) í kennslu. 

„Tinkering-aðferðin felur í sér að bregðast við vandamálum sem eru gjarnan illa skilgreind, eins og sjálfbærnivandamál eru, og felur í sér að prófa sig áfram með vandamálið. Fiktið er nálgun sem einkennist af leikandi og endurteknum tilraunum, þar sem þátttakendur eru stöðugt að endurmeta markmið sín, kanna nýjar leiðir og ímynda sér nýja möguleika. Hluti af verkefninu felur svo í sér að þróa verkfærakistu sem kennarar geta gengið í þegar þeir vinna með sjálfbærni í menntun með þessum hætti,“ segir Ólafur Páll. 

Fulltrúar verkefnis Háskóla Íslands, Rannveig Björk Þorkelsdóttir, Jóna Guðrún Jónsdóttir og Ólafur Guðmundsson ásamt Rúnu Vigdísi Guðmarsdóttur, forstöðukonu Landskrifstofu Erasmus+, og Jóni Svani Jóhannssyni, verkefnisstjóra skólahluta Erasmus+

Fulltrúar verkefnis Háskóla Íslands, Rannveig Björk Þorkelsdóttir, Jóna Guðrún Jónsdóttir og Ólafur Guðmundsson ásamt Rúnu Vigdísi Guðmarsdóttur, forstöðukonu Landskrifstofu Erasmus+, og Jóni Svani Jóhannssyni, verkefnisstjóra skólahluta Erasmus+

Fulltrúi verkefnis Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Ólafur Páll Jónsson, ásamt Rúnu Vigdísi Guðmarsdóttur, forstöðukonu Landskrifstofu Erasmus+, og Jóni Svani Jóhannssyni, verkefnisstjóra skólahluta Erasmus+.
Fulltrúar verkefnisins „Aðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifum stafrænnar tæknivæðingar“, þau Rannveig Björk Þorkelsdóttir, Jóna Guðrún Jónsdóttir og Ólafur Guðmundsson ásamt Rúnu Vigdísi Guðmarsdóttur, forstöðukonu Landskrifstofu Erasmus+, og Jóni Svani Jóhannssyni, verkefnisstjóra skólahluta Erasmus+.