Skip to main content
18. ágúst 2023

Fagháskólanám í leikskólafræði – Nýtt námstækifæri í boði HÍ og HA

   Fagháskólanám í leikskólafræði – Nýtt námstækifæri í boði HÍ og HA  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nýtt námstækifæri - fagháskólanám í leikskólafræði unnið í samstarfi Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri.

Dagana 7. og 8. september næstkomandi hefst fagháskólanám í leikskólafræði í samvinnu Deildar kennslu- og menntunarfræði við HÍ og Kennaradeildar HA. „Við tökum á móti reynslumiklum hópi fólks sem starfar í leikskólum víða um land svo það verður fjör með fræðunum í húsi þessa daga,“ segir Kristín Jónsdóttir, forseti Deildar kennslu- og menntunarfræði. 

Leikskólafræðin er 60 eininga diplómanám á fagháskólastigi sem myndar einskonar brú í milli framhaldsskóla og háskóla. Það er skipulagt sem hálft nám með vinnu í leikskóla í tvo vetur. Stuðningur sveitarfélaga er mikilvægur því nemar fá að stunda námið á launum á vinnutíma einn morgun í viku og sækja reglubundið staðlotur eins og þessa fyrstu í september. 

„Þetta er gott tækifæri til að fara í nám á sviði sem starfsfólk í leikskólum þekkir vel og hefur áhuga á,“ segir Kristín. „Þau sem ljúka diplómunni fá námið metið að fullu eða sem heilt ár í leikskólakennaranámi hvort sem þau velja að halda áfram hér eða fyrir norðan. Námið hefur líka gildi í sjálfu sér, þau verða virkari og flinkari starfsmenn sem er gott fyrir leikskólastarfið og samfélagið allt.“

Inntökuskilyrði í fagháskólanámið eru að nemi sé í starfi á leikskóla, hafi a.m.k. þriggja ára starfsreynslu og lokið leikskólaliðanámi, leikskólabrú eða sambærilegu námi á framhaldsskólastigi. 

Fagháskólanám í leikskólafræði er þróunarverkefni sem nú er í fyrsta sinn í boði um allt land en HÍ hefur staðið fyrir slíku námsframboði tvisvar áður með góðum árangri. Verkefnið er unnið í samvinnu HÍ og HA og sveitarfélaga víða um land og myndarlega styrkt af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu úr sjóðnum Samstarf háskóla. 

Nánar má lesa um námið HÉR eða leita upplýsinga hjá Önnu Grétu Guðmundsdóttur verkefnisstýru fagháskólanámsins agg@hi.is 

Kristín Jónsdóttir