Skip to main content
19. janúar 2021

Ekki gefið að margnota umbúðir séu betri fyrir umhverfið

Ekki gefið að margnota umbúðir séu betri fyrir umhverfið - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fiskafurðir eru fluttar frá Íslandi í þúsunda tonnavís á hverju ári, oft í einnota umbúðum. Nemendur í umhverfis- og auðlindafræði unnu verkefni síðastliðið sumar í samstarfi við Háskóla Íslands, Sæplast og Matís þar sem borin voru saman umhverfisáhrif af einnota og margnota umbúðum fyrir ferskar fiskafurðir. Við rannsóknina var notast við svokallaða vistferlisgreiningu og umhverfisáhrif umbúðanna skoðuð frá vöggu til grafar ef svo má segja. Enn er verið að vinna úr niðurstöðum verkefnisins en ljóst er að margir þættir koma við sögu: úr hverju varan er gerð, hversu miklar umbúðir þarf til að flytja ákveðið magn af fiski og hvort hægt sé að endurvinna umbúðirnar eftir að lífsferli þeirra lýkur.  

Samkvæmt skýrslu Matís frá árinu 2016 er hefðbundið að pakka ferskum fiskafurðum í einnota frauðplastkassa með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Með því að gera vistferlisgreiningu á mismunandi tegundum umbúða er hægt að komast að því hverjar þeirra skila bestum árangri við mismunandi kringumstæður og veita þannig fiskútflytjendum haldbærar upplýsingar um umhverfisáhrif þeirra. 

Ólafur Ögmundarson, aðjunkt við Matvæla- og næringarfræðideild, er einn þriggja leiðbeinenda sem komu að verkefninu ásamt tveimur nemendum úr umhverfis- og auðlindafræði, þeim Nouraiz Nazar og Heidi Marie Kalvenes. Meðleiðendur Ólafs voru Björn Margeirsson, rannsóknastjóri hjá Sæplasti og dósent í iðnaðar- og vélaverkfræði við Háskóla Íslands, og Sæmundur Elísasson, starfsmaður Matís og doktorsnemi við skólann.

Ólafur segir mikilvægt að sleppa fyrirframgefnum hugmyndum um umhverfisáhrif mismunandi umbúða. „Við verðum að passa okkur á því að taka engu sem gefnu áður en við reiknum það út. Það skiptir miklu máli þegar þú ferð í svona verkefni, og almennt í vísindum, að þú sért ekki búinn að gefa þér niðurstöður fyrir fram áður en þú byrjar að vinna vinnuna,“ segir Ólafur.

Hann bendir á að flestir gefi sér að margnota umbúðir séu betri fyrir umhverfið en einnota umbúðir. Samkvæmt Ólafi er það sjaldan svo svart og hvítt en meðal þess sem horfa þurfi til er fjöldi skipta sem margnota vara verður notuð. Slíkar vörur hafa stundum töluverð umhverfisáhrif í framleiðslu enda eru þær gerðar til þess að endast. Til þess að finna ávinning af margnota vöru þarf því að reikna út núllpunktinn hennar, þ.e. fjölda skipta sem þarf að nota hana til þess að hún komi betur út fyrir umhverfið en einnota varan. Ef margnota varan er notuð sjaldnar getur hún verið verri fyrir umhverfið en einnota varan. Á sama tíma ræðst oft mikill hluti umhverfisáhrifa af einnota umbúðum af því hvort hún sé endurunnin eða ekki. 

Ólafur segir að gera megi vistferilsgreiningu allt frá því að hugmynd vaknar að nýrri vöru og á meðan á þróun vörunnar stendur. Þannig megi finna þá hluta í ferlinu sem hafi mest umhverfisáhrif og reyna að draga úr þeim áður en að hafist er handa við framleiðslu.

„Þótt maður ímyndi sér að einnota umbúðir séu verri en margnota þá fer það allt eftir því hvaða umbúðir þú ert að tala um og hvernig umbúðirnar eru framleiddar. Það sem skiptir ekki síður máli er meðhöndlun umbúðanna eftir að lífsferli þeirra lýkur, það er hvað þú gerir við umbúðirnar eftir að þær hafa þjónað sínum tilgangi,“ segir Ólafur Ögmundarson. MYND/Kristinn Ingvarsson

Mikilvægt að skoða umbúðir út frá mörgum sjónarhornum

Það er ekki auðvelt mál að bera saman umhverfisáhrif mismunandi umbúða. Mismunandi vörur hafa áhrif á umhverfið með mismunandi hætti. Til dæmis þarfnast pappi mikils landssvæðis en plast losar gróðurhúsalofttegundir. „Þetta samspil er skemmtileg að skoða en ekki alltaf auðvelt í túlkun. Það er mikilvægt að við skoðum hluti eins og þessa út frá mörgum sjónarhornum,“ segir Ólafur.

„Þótt maður ímyndi sér að einnota umbúðir séu verri en margnota þá fer það allt eftir því hvaða umbúðir þú ert að tala um og hvernig umbúðirnar eru framleiddar. Það sem skiptir ekki síður máli er meðhöndlun umbúðanna eftir að lífsferli þeirra lýkur, það er hvað þú gerir við umbúðirnar eftir að þær hafa þjónað sínum tilgangi.“

Sumar einnota vörur er hægt að nota oftar en einu sinni og þarf að taka það með í reikninginn. „Einnota umbúðirnar geta verið mjög umhverfisvænar ef meðhöndlunin eftir að þær hafa þjónað sínum tilgangi er rétt og það fer eftir því hvar þú ert í heiminum.” 

Þá þarf einnig að hafa í huga að margnota umbúðir þarf að flytja til baka þegar að þær eru nýttar til flutnings á ferskum fiskafurðum. Helmingur flutninga er þá með tómum umbúðum og þá skiptir máli að umbúðirnar staflist vel og taki sem minnst pláss. Í því tilfelli þarf að reikna umhverfisáhrif á hvern rúmmetra en ekki kíló eins og almennt er gert í vistferlisgreiningum. 

Enn er verið að vinna úr þeim upplýsingum sem söfnuðust í verkefninu í sumar. „Við höfðum ákveðnar vísbendingar en það á eftir að koma í ljós nákvæmlega hvað það er sem við þurfum að rýna betur í,“ segir Ólafur.

Þátttaka nemenda gagnleg

Styrkur fékkst fyrir rannsókninni frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Það gerði það að verkum að mögulegt væri að hafa þau Nouraiz Nazar og Heidi Marie Kalvenes, nemendur í umhverfis- og auðlindafræði, með í teyminu. Ólafur segir það mikilvægt að nemendur fái tækifæri á að vinna að rannsóknum sem þessum. 

„Þetta er aðferðafræðilega skemmtilegt verkefni og gaman að geta gefið nemendum tækifæri til þess að vinna við vísindin fyrir utan það að skila lokaverkefnum eða meistararitgerðum. Það er flott að geta líka nýtt sumartímann til þess að ná sér í þá reynslu sem að gerir það að verkum að nemendur verða betri vísindamenn og starfsmenn í kjölfarið,” segir Ólafur.

Höfundur greinar: Urður Ýrr Brynjólfsdóttir, nemi í blaða- og fréttamennsku.

Ólafur Ögmundsson