Skip to main content
20. apríl 2018

Dagný fær viðurkenningu Samtaka móðurmálskennara

Samtök móðurmálskennara hafa veitt Dagnýju Kristjánsdóttur, prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf í þágu móðurmálsins og barna- og unglingabókmennta. Það var Sigrún Birna Björnsdóttir, formaður samtakanna, sem veitti Dagnýju viðurkenninguna í Gunnarshúsi föstudaginn 13. apríl. Fram kom í máli Birnu að Dagný hefði með starfi sínu, rannsóknum og kennslu unnið ötullega að því að koma þessari grein bókmennta á þann stall sem henni ber.

Í þakkarræðu sagði Dagný að allir kennarar vissu að frásögnin, sagan, hrifi börnin með sér, róaði þau, gleddi og kenndi þeim að hugsa og tala um leið. Þess vegna þyrftu skólar að bjóða upp á nýjustu barna- og unglingabækurnar hverju sinni og halda þeim að börnum, ræða þær og láta þau vinna með þær, enda væru lestrarfærni og lesskilningur best styrkt með lestrargleði.

Dagný Kristjánsdóttir hefur um árabil kennt námskeið um barna- og unglingabókmenntir við Háskóla Íslands og einnig skrifað um bókmenntagreinina, þar á meðal bókina Bókabörn – Íslenskar barnabókmenntir verða til, sem fjallar um aðdraganda og upphaf íslenskra barnabóka og rekur sögu þeirra fyrsta skeiðið.  

Sigrún Birna Björnsdóttir afhendir Dagnýju Kristjánsdóttur viðurkenninguna.