Skip to main content
20. júní 2016

Brýnt að fjölga körlum í yngri barna kennslu 

""

Arna H. Jónsdóttir, lektor og formaður námsbrautar í leikskólakennarafræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, tók í gær við veglegum styrk úr Jafnréttissjóði Íslands fyrir hönd stýrihóps verkefnisins „Karlar í yngri barna kennslu.“ Í hópnum eru fulltrúar frá Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Félagi leikskólakennara, Félagi stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Sami hópur stendur jafnframt að átaki um eflingu leikskólakennaramenntunar og vefsíðunni Framtíðarstarfið.

Verkefnið hefur það að markmiði að vekja athygli ungra karla á leikskólakennarafræðum en innan við 2% leikskólakennara hér á landi eru karlkyns. Áætlað er að framleitt verði fræðsluefni um starf yngri barna kennara fyrir annars vegar nemendur í grunn- og framhaldsskólum og hins vegar náms- og starfsráðgjafa.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra afhendi styrkinn við athöfn í Iðnó í gær en tæplega 100 milljónir króna voru til úthlutunar. Alls bárust 114 umsóknir um styrki til fjölbreyttra verkefna og var heildarfjárhæðin sem sótt var um 570 milljónir króna. Að þessu sinni hlutu 42 umsækjendur styrki en þetta var í fyrsta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.

Um sjóðinn

Jafnréttissjóður Íslands var stofnaður árið 2015 í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Markmiðið er að styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Sjóðurinn nýtur framlaga af fjárlögum í fimm ár og starfar samkvæmt reglum sem um hann gilda. Í samræmi við ályktun Alþingis og úthlutunarreglur sjóðsins leggur stjórn hans áherslu á að veita fé til verkefna sem m.a. hafa að markmiði að efla jafnrétti á vinnumarkaði, varpa ljósi á samfélags- og efnahagslegan ávinning af jafnrétti, vinna gegn kynbundnu ofbeldi, falla undir þróunarverkefni í skólakerfinu, hvetja ungt fólk til aukinnar samfélagsþátttöku og stjórnmálastarfs og varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð.

Nánar um úthlutunina á vef velferðarráðuneytisins.

Arna H. Jónsdóttir
Styrkþegar við hátíðlega athöfn í Iðnó