Skip to main content
4. maí 2023

Bók um efnislegar eigur Íslendinga á 18. og 19. öld

Bók um efnislegar eigur Íslendinga á 18. og 19. öld - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking í ritstjórn Davíðs Ólafssonar, lektors við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, og Kristjáns Mímissonar, sérfræðings í miðlun menningarsögu við Þjóðminjasafn Íslands. Bókin er afrakstur samnefnds rannsóknarverkefnis sem var undir stjórn Sigurðar Gylfa Magnússonar, prófessors í menningarsögu við deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við HÍ, og hlaut öndvegisstyrk úr Rannsóknasjóði (Rannís). Útgefandi er Háskólaútgáfan.

Aðrir þáttakendur í verkefninu voru rannsakendur og háskólanemar á sviði sagnfræði, fornleifafræði, mannfræði, safnafræði og bókmenntafræði og eiga þeir flestir grein í bókinni sem ætlað er að varpa ljósi á efnislegar eigur fólks á Íslandi á 18. og 19. öld sem og birtingarmyndir þeirra á söfnum og sýningum. Til grundvallar liggja ólíkar gerðir munasafna, annars vegar gripir varðveittir á Þjóðminjasafni Íslands og hins vegar skráningar á dánarbúum – svokallaðar uppskriftir – um 30 þúsund Íslendinga sem varðveittar á Þjóðskjalasafni Íslands. Þannig hefur verið lögð áhersla á hugtakið safn og ólíkar merkingar þess, sem birtist m.a. í hugtökunum archive, collection og museum í ensku. Í verkefninu var rýnt í tilurð munasafna, hvort sem þau eru samsett úr gripunum sjálfum eða birtast í textalegum skráningum þeirra. Jafnframt var spurt hvaða myndir slík söfn gefa af efnisveruleika hversdagslífs fyrr á tíð og hvernig slíkum myndum er miðlað.

Greinarnar í bókinni eru fjórtán og eru þær skrifaðar undir merkjum ólíkra fræðigreina s.s. safnafræði, fornleifafræði, bókmenntafræði og menningarsögu. Þeim má skipta gróflega í tvo meginflokka, annars vegar greinar sem fjalla um söfn, safnafræði og efnisveruleika (e. materiality) og hins vegar greinar sem byggja á heimildum Þjóðskjalasafns sem tengjast uppskriftum dánarbúa og uppboðum þeim tengdum. Fjalla þær m.a. um lagaumgjörð og framkvæmd búskipta, sem og inntak skráninganna og einstaka efnisflokka þeirra.

Kristján Mímisson og Davíð Ólafsson eru ritstjórar bókarinnar Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking.