Skip to main content
4. mars 2024

Aurora auglýsir styrki til rannsóknasamstarfs

Aurora auglýsir styrki til rannsóknasamstarfs - á vefsíðu Háskóla Íslands

Aurora auglýsir eftir umsóknum um styrki fyrir verkefni sem stuðla að rannsóknasamstarfi. Sækja má um styrki fyrir bæði nýjum samstarfsverkefnum og eldri verkefnum sem reynsla er komin á.

Aurora er samstarfsnet öflugra evrópskra rannsóknaháskóla sem vinnur að kennsluþróun og nýsköpun í starfsemi háskóla til að gera nemendum betur kleift að takast á við hnattrænar áskoranir samtímans. Tilgangur styrkjanna er að byggja upp öflugt vísindasamfélag í Aurora-háskólunum og kynna samstarfsmöguleika fyrir sem flestu fræðafólki. Hægt verður að sækja um styrkina á hverju ári næstu fjögur árin.

Auglýst er eftir styrkumsóknum fyrir eftirfarandi verkefni:

1. Styrkir til undirbúnings rannsóknasamstarfs með fræðafólki í öðrum Aurora-háskólum

Styrkir fyrir verkefni sem stuðla að rannsóknasamstarfi að hámarki €25.000, t.d. fundarhald með samstarfsaðilum, forkönnun rannsókna og undirbúningur fyrir stærri styrkumsóknir.

2. Fræðatengd námskeið fyrir nýja rannsakendur

Styrkir fyrir 1-2 vikna námskeið með fyrirlestrum og hagnýtum vinnustofum með aðkomu a.m.k. fimm sérfræðinga frá minnst þremur Aurora-háskólum, að hámarki €20.000.

3. Styrkir til styttri rannsóknardvala fyrir nýja rannsakendur

Styrkir fyrir allt frá einni viku til þriggja mánaða rannsóknardvalar í öðrum Aurora-háskóla. Alls verða veittir tíu styrkir fyrir umsóknir frá öllum níu Aurora-háskólunum.

Umsóknarferli

Áhugasamir umsækjendur geta kynnt sér umsóknarferlið og náð í umsóknareyðublöð á vefsíðu Aurora.

Allar umsóknir skulu vera á ensku. Umsóknarfrestur er til 30. apríl 2024 kl. 10.00.

Almennar upplýsingar um Aurora samstarfið má finna hér. Spurningum má beina til aurora@hi.is.

Aurora auglýsir eftir umsóknum um styrki fyrir verkefni sem stuðla að rannsóknasamstarfi. Sækja má um styrki fyrir bæði nýjum samstarfsverkefnum og eldri verkefnum sem reynsla er komin á.